Fréttasafn



7. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Ný kvikmyndastefna er nýtt upphaf

Lilja Ósk Snorradóttir, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, er í viðtali Ara Brynjólfssonar í helgarútgáfu Fréttablaðsins. Þar segir Lilja að starfið feli meðal annars í sér að gæta hagsmuna og réttar sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda og að félagið komi fram fyrir hönd aðildarfélaga gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum og öðrum félagasamtökum. „Það er endalaus vindmyllubarátta. Síðan kemur ný ríkisstjórn og ballið byrjar upp á nýtt. Það er ekki alltaf barátta við pólitíkina, til dæmis var ég mjög ánægð með nýja kvikmyndastefnu til ársins 2030. Það er nýtt upphaf fyrir okkur. Þar eru hlutir sem eru gríðarlega mikilvægir fyrir okkur.“

Hún segir að  auðveldara aðgengi að hagtölum eigi „eftir að auðvelda okkur alla rökræðu því þá er auðséð hvað þessi iðnaður er að skila miklu og er mikilvægur fyrir hagkerfið, þessar tölur eru sumar hverjar til í dag en það er djúpt á þeim.“

40% ferðamanna koma til landsins eftir að hafa séð kvikmynd eða þáttaröð

Í viðtalinu kemur fram að kvikmyndaframleiðsla hafi einnig haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna. „Samkvæmt nýjustu könnun þá segjast tæplega 40% ferðamanna hafa komið hingað eftir að hafa séð íslenskt efni eða íslenskt landslag í kvikmynd eða í þáttaröð. Ef ætti að koma auglýsingu fyrir augu jafn margra þá myndi það kosta marga milljarða sem eyða þyrfti erlendis í birtingakostnað. Fjárfesting ríkisins í kvikmyndagerð er aðeins brot af því og fellur öll til hér á landi.“ Sama eigi við um íslenska tungu og menningu. „Börnin okkar eru farin að nota allt of mikið af ensku í orðaforðanum. Ég finn þetta hjá börnunum mínum. Börn í kringum mig eru úti í garði í hlutverkaleik og tala ensku allan tímann. Það er augljóst að við þurfum meira efni á íslensku fyrir börnin okkar og þetta á að skipta okkur máli.“

Ísland getur orðið þungavigtarland í kvikmyndagerð

Þá kemur fram í viðtalinu að ofan á allt annað bætist við áhyggjur af að Ísland missi verkefni til annarra landa þar sem hærri endurgreiðslur eru í boði. „Það er sorglegt. Við erum í grunninn vel samkeppnishæf, en stöndum höllum fæti eins og er þar sem við erum með lægri endurgreiðslu en samkeppnislönd okkar og verðum að hækka þær ef við eigum enn að eiga möguleika að taka þátt. Það hefur sýnt sig og sannað að endurgreiðslurnar eru að skila sér til baka, skatttekjurnar eru hærri en það framlag sem fer til kvikmyndagerðar, starfamargfaldarinn er 2,9 svo iðnaðurinn er atvinnuskapandi, þetta skapar eftirspurn ferðamanna og svo mætti lengi telja. Við ættum að fagna því þegar skrifað er um í fjölmiðlum að endurgreiðslur hafi verið háar, það þýðir eingöngu hærri útflutningstekjur, fjöldi fólks fær atvinnu, hærri skatttekjur til ríksins og viðskipti við ferðaþjónustuaðila.“

Þegar Lilja er spurð hvort Ísland geti orðið þungavigtarland í kvikmyndagerð segir hún alveg tvímælalaust. „Við erum með stóran hóp af hæfileikaríku fólki, sem eftirspurn er eftir að utan. Það þarf bara að taka ákvörðun. Eins og með alla nýsköpun þá tekur þetta sinn tíma en mér finnst eins og það sé að koma ágætis skilningur á mikilvægi greinarinnar,“ segir Lilja í viðtali Fréttablaðsins. 

Fréttablaðið, 6. desember 2020.