Fréttasafn26. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ný mannvirkjaskrá gefur heildarsýn á uppbyggingu

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Júlíusar Þórs Halldórssonar, blaðamanns, í sérblaði Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn að ný  mannvirkjaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé mjög mikilvæg fyrir iðnaðinn sem og almenning. Með henni komi upplýsingaveita um stöðu íbúðamarkaðarins og standi vonir til að skráin geti leyst af hólmi talningu sem Samtök iðnaðarins hafi staðið fyrir síðan árið 2010 vegna skorts á áreiðanlegum opinberum gögnum. „Þetta gæti hugsanlega tekið við af talningunni og mun klárlega bæta ákvörðunartöku í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Með þessu er lagður grunnur að því að litið sé á þessi mál á upplýstan og heildstæðan hátt. Það hefur alveg vantað heildaryfirsýn. Upplýsingar hefur skort um hvað er í uppbyggingu á hverjum tíma, sem hefur gert það erfiðara að gera áætlanir um íbúðauppbyggingu.“ 

Í fréttinni segir að Samtök iðnaðarins hafi brugðist við þessum vanda á sínum tíma með því að byrja sjálf að telja og að sú talning hafi hinsvegar verið hugsuð sem lausn til bráðabirgða eða þar til búið væri að bæta opinber gögn. Þá segir að sömuleiðis standi til að gera áætlanir sveitarfélaga rafrænt aðgengilegar á næstunni, sem mun bæta yfirsýn yfir málaflokkinn enn meira. „Við munum því fá hvort tveggja, talninguna og áætlunina, hvað er verið að byggja og hvað er áætlað til lengri tíma.“ 

Bylting í upplýsingagjöf

Þá kemur fram í fréttinni að talning SI fari fram tvisvar á ári og nái yfir stærstu byggingakjarnana, höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess auk Norðurlands, ólíkt mannvirkjaskrá sem muni innihalda rauntímaupplýsingar um allar byggingar landsins. Byggingarsaga hvers húss verður einnig aðgengileg öllum sem muni auka öryggi í húsnæðisviðskiptum. „Þetta verða mun ítarlegri upplýsingar um ekki bara uppbygginguna, heldur þær íbúðir sem fyrir eru. Tilvonandi kaupandi mun þá geta flett upp viðkomandi fasteign og þar sér hann upplýsingar um alla þætti byggingarinnar ásamt endurbótum, viðgerðum og slíku.Við erum búin að vera í mjög nánu og góðu samstarfi við HMS. Þeir hafa tekið þátt í talningunum hjá okkur í tvígang. Síðan hafa þeir unnið með það í framhaldinu til að bæta gagnagrunninn út frá niðurstöðum talninganna, með því að leiðrétta villurnar í skráningu byggingafulltrúa. Ég held að þetta sé alveg bylting hvað varðar upplýsingagjöf, og þá mat á því hvar við stöndum, sem ætti þá vonandi að leiða til þess að teknar eru betri ákvarðanir, sem aftur leiðir vonandi til minni sveiflna.“

Fjölmargir þættir sem hafa áhrif í umhverfi byggingariðnaðarins

Einnig kemur fram að sjái skipulagsyfirvöld eða markaðsaðilar fram á að ekki sé verið að byggja nóg til að mæta væntri þörf markaðarins á næstunni geti þeir brugðist við strax, áður en yfirvofandi skortur raungerist og áhrifa hans fer að gæta. Að sama skapi sé svo hægt að hægja á uppbyggingu ef í offramboð stefnir. Þótt sveitarfélög eigi lokaorðið um allt skipulag og þar með endanlegt framboð hafi markaðsaðilar nokkurt svigrúm til að hafa áhrif á það, bæði með því að senda inn tillögur að skipulagsbreytingum á eigin lóðum og með því að flýta eða seinka framkvæmdum. Ingólfur segir í fréttinni að erfitt sé að segja til um hversu mikil áhrifin á stöðugleika markaðarins verði af nýju tölunum. „Síðan eru bara svo fjölmargir aðrir þættir sem hafa áhrif á það í umhverfi byggingariðnaðarins. Þetta er ekkert að útmá sveiflurnar, það þarf meira til.“

Viðskiptablaðið, 25. nóvember 2021. 

Vidskiptabladid-25-11-2021