Fréttasafn27. jan. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Ný skýrsla um innlendar raforkudreifiveitur

Að frumkvæði SI hefur ráðgjafafyrirtækið Analytica unnið fyrir samtökin skýrslu um forsendur tekjumarka og gjaldtöku innlendra dreifiveitna á raforku, en að mati SI er sá aðili best til þess fallinn að vinna slíka úttekt vegna sérþekkingar á umgjörð tekjumarka. Umrædd skýrsla liggur nú fyrir og telja SI að sú úttekt sé mikilvægt gagn í alla opinbera umræðu um virðiskeðju raforku og samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar í alþjóðlegu samhengi.

SI hafa látið sig varða þau mál sem til skoðunar eru í skýrslunni og jafnframt haft til skoðunar ýmis álitaefni er varða gjaldtöku raforkufyrirtækja almennt, þ.m.t. gjaldskrár sérleyfisfyrirtækja, tekjumörk þeirra og þær forsendur sem liggja þar til grundvallar, s.s. WACC. Þá hefur umræða verið áberandi undanfarið um tekjumörk og gjaldskrá sérleyfisfyrirtækja, m.a. á grundvelli skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um samkeppnishæfni stórnotenda, unnin af Fraunhofer, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að flutningskostnaður raforku á Íslandi þarfnist skoðunar við. Á grundvelli síðarnefndu skýrslunnar var m.a. sett í gang vinna hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem Deloitte hefur verið falið að greina gjaldtöku sérleyfisfyrirtækja.

Samandregið eru helstu atriði sem skýrslan dregur fram er varðar forsendur tekjumarka og gjaldtöku innlendra dreifiveitna eftirfarandi:

  1. Hærri flutningskostnaður skýrir stóran hluta verðhækkana dreifiveitna undanfarin ár en sá kostnaður telur alls um 30% í gjaldtöku dreifiveitna.
  2. Með skýrum hætti er dregin fram í skýrslunni sú framkvæmd að fjármagnskostnaður er of hár þar sem áhættuálag er tvítalið.
  3. Skýrsluhöfundar benda á að eiginfjárhlutfall dreifiveitna hefur hækkað sem leiðir óneitanlega til hærra WACC og hefur því í för með sér ákveðinn freistnivanda er viðkemur stjórnendum þessara fyrirtækja hvað þetta varðar.
  4. Síðast en ekki síst benda skýrsluhöfundar á að tímatöf á grunnvöxtum í vaxtalækkunarfasa leiðir til lakari kjara fyrir notendur og dregur úr miðlunarferli peningastefnu.

Til viðbótar styður skýrslan við þá skoðun SI hvað varðar það óhagræði sem núverandi fyrirkomulag felur í sér hvað varðar breytingar á forsendum tekjumarka notendum í óhag og lýsir sér með þeim hætti að þegar vextir hækka, en tíu ára meðaltalið lækkar, þá mun forsendum verða breytt hvort eð er og þá ávallt sérleyfisfyrirtækjunum í hag á kostnað hagsmuna notenda. Því er ljóst að forsendur og fyrirkomulag núverandi kerfis þjóni ávallt hagsmunum sérleyfisfyrirtækja og því þarf klárlega að breyta.

SI hafa komið skýrslunni á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Orkustofnun þar sem skorað er á þessa aðila að bregðast við þeim ábendingum og tillögum sem þar koma fram.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.