Fréttasafn1. júl. 2016 Almennar fréttir

Ný tækifæri með nýjum lögum

Breytt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi var til umfjöllunar á fjölmennum fundi sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins 1. júlí. Fundurinn hófst á því að Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar, bauð gesti velkomna. Hann sagði að stefna ætti að því að gera Ísland að áhugaverðasta landi í heimi fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun. Nýsamþykkt lög væru liður í því að bæta samkeppnisstöðuna þegar kemur að umhverfi nýsköpunarfyrirtækja. Hann sagði það sérstakt ánægjuefni að fá fjármála- og efnahgsráðherra til að opna fundinn og vera með í umræðunni.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hóf mál sitt á því að segja að þeir sem hafi unnið með ráðuneytinu að því að breyta lögunum sé duglegt fólk og fylgið sér og þeim hafi tekist að halda á lofti sjónarhorni þessa geira gagnvart stjórnvöldum. Hann sagði mikilvægt að það hafi verið stuðningur hugverkaiðnaðarins og ábendingar frá frumkvöðlum og fólki sem starfar á þessu sviði um hvar þyrfti helst að beita sér í breytingunum. Hann sagði að samstarfið við þingið hafi skipt máli til að skapa þverpólitíska sátt sem að þessu sinni hafi tekist með ágætum.

„Margir hefðu viljað sjá okkur ganga lengra og við munum halda áfram. Það þarf að finna fleiri góðar lausnir og halda áfram á þessari braut. Þessi áfangi er kominn í gegn og á næstu misserum verður auðveldara að rökstyðja enn frekari skref í þessa átt.” Hann nefndi í því sambandi hækkun viðmiða fyrir rannsóknir og þróun og sagði að ávinningurinn leyndi sér ekki og skilaði sér yfirleitt í fleiri krónum í ríkissjóð þegar upp er staðið en að góðir hlutir gerist í jöfnum og þéttum skrefum.

Hvað skattafsláttinn varðar sagði hann að verið væri að horfa til ákveðins tíma og væri ekki víst að það hafi fundist hin eina rétta lausn. Hann sagði mikilvægt að horfa fram á veginn, velta upp sjónarmiðum um hver næstu verkefni til að styðja við verðmætasköpun í hugverka og tæknigeiranum ættu að vera.

Bjarni sagði að það væru stanslausar kröfur um að hægt væri að gera betur á öllum sviðum en lykilatriðið væri að finna þyrfti leiðir til að skapa meiri verðmæti. Við þyrftum að nýta betur það sem hægt er að sækja í nytjastofna hafsins, ferðaþjónustuna og orkuiðnaðinn og skapa meiri verðmæti en við þyrftum líka að átta okkur á að hagvöxtur á næstu árum og áratugum verður miklu frekar drifinn annars staðar frá og byggir á því að nýta mannauðinn til að byggja upp fjórðu meginstoð hagkerfisins.

Bjarni gagnrýndi hvernig kjarabætur væru leiddar fram hér á landi og ef við ætluðum að vera með samkeppnishæft umhverfi þyrfti að breyta því. Það væri mikilvægt að mynda heildstæða efnahagsáætlun til lengri tíma sem helst í hendur við markmið og einbeita okkur að því sem stenst samkeppni frá erlendum mörkuðum. Það væri hins vegar ekki hægt að skáka samkeppnislöndum okkar á öllum sviðum en Ísland gæti verið staðurinn þar sem til dæmis frumgerðir væru prófaðar sem síðan væri komið inn á stóra markaði heimsins. Það væri samstarfsverkefni stjórnmálanna, frumkvöðla, atvinnulífsins og lífeyrissjóða.

Hann nefndi að það væri einkum tveir þættir sem aftra tækni- og hugverkafyrirtækjum; takmarkaður aðgangur að fjármögnun á vaxtastigi og takmarkaður aðgangur að erlendum mörkuðum og sérfræðingum. Til að ná árangri með sérstökum aðgerðum væri hægt að horfa meðal annars til Ísrael og Írlands sem væri hægt að nota sem hvatningu til að gera svipaða hluti.

Þá nefndi hann að framlag hafi verið aukið til rannsóknar- og tæknisjóða og hafi notið stuðnings þvert á alla flokka. Stefnt væri að því að treysta í sessi framtaksfjármögnunarsjóð sem tryggir samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi á öllum stigum og væri hvati til að tengjast íslenskum hugverkageira. Stefna ætti að kraftmiklum sjóði og formfesta ætti slíka vinnu sem fyrst. Hann sagði allt efnahagslífið njóta góðs af því að styðja sprotaumhverfið. Hann nefndi að lokum að markmiðið að gera Ísland að aðlaðandi stað fyrir ungt fólk ætti í sjálfu sér að vera næg ástæða ein og sér til að halda áfram á þessu sviði.

Ingibjörg Helga Helgadóttir og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu fóru í gegnum breytingarnar sem gerðar eru á lögunum sem samþykktar voru 2. júní síðastliðinn og birt voru í Stjórnartíðindum nr. 79/2016.

Sigurður Björnsson hjá Rannís fór yfir ferlið við endurgreiðslurnar á rannsóknar- og þróunarkostnaði en Rannís metur umsóknirnar. Með nýjum lögum verður hækkun á viðmiðunarmörkum. Sigurður tók fram að Rannís reikni ekki út endurgreiðsluna heldur meti verkefnin en sækja þarf um hvert verkefni fyrir sig. Lokað verður fyrir umsóknir 1. október en á vef Rannís er að finna handbók með öllum helstu upplýsingum.

Í máli Sigurðar kom fram að megnið af þeim umsóknum sem komið hafa síðustu þrjú ár eru frá höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2013 voru umsóknir þaðan 243, árið 2014 voru þær 248 og árið 2015 voru þær 259. Umsóknirnar eru mun færri annars staðar af landinu en á árinu 2015 voru umsóknirnar 6 frá Reykjanesi, 11 frá Vesturlandi, 11 frá Vestfjörðum, 16 frá Norðurlandi, 1 frá Austurlandi og 2 frá Suðurlandi.

Pétur Már Halldórsson frá Nox Medical lýsti yfir mikilli ánægju með breytingarnar og sagði að framtíðarhagkerfið byggist ekki bara á orkunýtingu, sjávarútvegi og áli heldur einnig í nýsköpun. Hann sagði fjórðu stoðina verða gríðarlega mikilvæga í framtíðinni og það væri eitthvað sem við gætum virkjað. Ísland þyrfti að verða staður fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun og það væri ekki eingöngu heppni að fyrirtæki eins og Össur, Marel og CCP hafi komist vel á legg. Fyrir Nox Medical sagði hann að endurgreiðslan á rannsóknar- og þróunarkostnaði hefði skipt sköpum. Í raun væri Ísland ekki ákjósanlegur staður fyrir hátækni og nýsköpun, meðal annars vegna fjarlægðar frá mörkuðum og því þyrfti einhverja hvata til að byggja upp þessa fjórðu stoð. Hann sagði að við værum á vegferð sem væri frábært að vera þátttakandi í. Það sem hafi verið gert væri stórkostlegt og rétt væri að tala vel um það. Með hækkun á þakinu í endurgreiðslunni sé hlúð að stærstu sprotunum og það hafi sannarlega áhrif því við viljum halda stóru fyrirtækjunum hér á landi áfram. Hann nefndi að endurgreiðslan væri ekki sértæk íslensk aðgerð og við værum ekki í úrvalsdeild þar. Í samanburði nefndi hann að í Ástralíu er endurgreiðslan 45% á læknasviði, Norðmenn eru með 20% endurgreiðslu og um 800 milljóna króna þak, í Kanada er 20% endurgreiðsla á erlenda fjárfestingar án þaks og 35% á innlenda fjárfestingu. Hann sagði Ísland ekki standa jafnfætis okkar helstu samkeppnislöndum en við værum að komast þangað. “Við erum hvergi nærri hætt og viljum efla þetta enn meira.” Pétur Már sagði að tekjur hins opinbera frá Nox Medical væru meiri en styrkir og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar.

Íris Ólafsdóttir hjá Kúla 3D fór yfir hverjir væru helstu fjárfestar í litlum félögum en það eru starfsfólk, vinir og vandamenn og englafjárfestar. Hún fagnaði því að nú væru komnir fram skattalegir hvatar til að fjárfesta í fyrirtækjum. Nú gæti fólk eignast hlut í félögum og fengið skattaafslátt þar sem skattstofn lækkar um um 50% af fjárfestingu og skattur síðan greiddur ef árangur næst. En hún beindi sjónum að skilyrðum sem útiloka fjárfesta með sifjaréttarleg og viðskiptaleg tengsl frá því að nýta  skattaafsláttinn. Hún vildi vekja athygli á að í flestum tilvikum væri um að ræða tengda aðila sem fjárfestu í sprotafyrirtækjum og þetta væri því áhyggjuefni þar sem þeir sem eru að fjárfesta væru yfirleitt tengdir og gætu þá ekki nýtt sér þetta. Það ætti einnig við þegar verið væri að fá reynda aðila inn í stjórn eða í reksturinn og þeir gætu þá ekki geta nýtt afsláttinn heldur.

Hilmar Veigar Pétursson hjá CCP fagnaði því mjög að það hafi tekist að breyta lögunum þannig að nú verði 25% frádráttarheimild af skattskyldum tekjum erlendra sérfræðinga. Hann sagði frá því að frá því snemma árs 2001 hafi CCP byrjað að flytja fólk inn sem hefði reynslu af tölvuleikjagerð. Það hafi oft reynst þrautinni þyngri en að CCP hefði helst flutt inn sérfræðinga og stjórnendur, fólk sem væri mjög alþjóðlega mótað, og oft ævintýraglatt fólk sem vill koma til Íslands. Hilmar Veigar nefndi einnig breytilegu skuldabréfaleiðina sem væri mikið framfaraskref og fagnaði því hversu vel fjármálaráðuneytið væri vel að sér í því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Þetta væri því stórkostlega góð breyting sem muni hafa mikil áhrif. Hann tók samlíkingu við landsliðið í knattspyrnu þar sem ætti sér stað uppbyggingarstarf sem skilaði árangri. Landslisðþjálfarinn Lars væri erlendur sérfræðingur sem hefði verið fenginn til landsins og það skilaði liðinu þetta langt. Hann sagði alla geta verið bestir ef þeir nenntu að setja sig inn í það.

Hilmar Veigar lýsti ánægju yfir að þökin hefðu verið hækkuð á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og vill að þau verði hækkuð ennfrekar. Hann nefndi að CCP ætlaði að setja 4 milljarða króna í fjárfestingar í nýsköpun á þessu ári. Í samanburði við það sem gerðist á Íslandi þá væri 30% endurgreiðsla í Atlanta með engum þökum og í Bretlandi 20% með engum þökum. “Þessir hlutir hafa áhrif. Fyrirtæki eru grimmar skepnur sem hugsa um eigið skinn.” En hann vildi þó undirstrika það að þetta er frábært skref enað það værur fimm fyrirtæki á Íslandi sem eru yfir þessum þökum. Hann hvatti að lokum til þess að haldið væri áfram þessari vegferð sem hefur verið hafin.

Hér er hægt að hlusta á upptöku af fundinum. Athugið að hljóðið er óskýrt þar til fundurinn hefst í kringum mínútu 9.30.

Upptaka