Fréttasafn



12. sep. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Ný talning SI bendir til minni umsvifa í byggingariðnaði

Í Morgunblaðinu í dag fjallar Baldur Arnarson, blaðamaður, um nýja talningu Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu. Þar er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem segir nýja talningu samtakanna á fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum benda til minni umsvifa í byggingariðnaði. Hann segist aðspurður telja að sú þróun muni birtast í fækkun starfa í íslenskum byggingariðnaði í vetur. „Það eru 14.500 manns starfandi í byggingariðnaði, sami fjöldi og fyrir ári, en fram til þessa hefur launþegum fjölgað ár frá ári. Með hliðsjón af því að minna virðist í pípunum má búast við fækkun starfa í byggingariðnaði í vetur.“  

Meiri öfgar í sveiflum á byggingarmarkaði en í hagkerfinu 

Sigurður segir nýju talninguna benda til kólnunar. „Eftir langt hagvaxtarskeið bendir allt til samdráttar í hagkerfinu sem mun líklega vara fram á næsta ár. Það endurspeglast á byggingarmarkaði og í þessum tölum. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er að dragast saman.“ Hann bendir á að fjármálastofnanir hafi dregið úr framkvæmdalánum til uppbyggingar íbúða. „Áhyggjuefnið er að það eru meiri öfgar í sveiflunum á byggingarmarkaði en í hagkerfinu almennt. Það þýðir að uppgangurinn verður alltaf talsvert meiri en í hagkerfinu og niðursveiflan dýpri. Þetta er að einhverju leyti að koma fram.“ 

Ráðast ætti í innviðaframkvæmdir til að örva hagkerfið

Þá segir Sigurður ástæðu til að hið opinbera og einkaaðilar ráðist í innviðaframkvæmdir til að örva hagkerfið. Þótt ráðast eigi í auknar samgönguframkvæmdir dugi það skammt á móti uppsafnaðri þörf og að sama skapi telur hann að þótt hægt hafi á uppbyggingu íbúða verði áfram uppsöfnuð þörf. „Eftirspurnin mun ekki dragast saman. Íbúum er stöðugt að fjölga og það hefur verið uppsöfnuð þörf á undanförnum árum. Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum ekki lagt mat á eftirspurnina heldur skoðum við framboðshliðina með talningunni. Það er minna um ný verkefni á síðustu sex mánuðum en verið hefur.“ 

Þegar blaðamaður spyr Sigurð hvort það geti orðið til að viðhalda ásættanlegri eftirspurn ef íbúðaverðið er lægra segir hann að vissulega hafi verðlagningin og stærðin áhrif. „Hér er komið inn á markaðsbrestinn á íbúðamarkaðnum. Það hefur ekki verið byggt íbúðarhúsnæði í takt við væntingar, eða eftirspurn á markaði. Eftirspurnin er fyrst og fremst eftir hagkvæmum íbúðum, ódýrari íbúðum og minni. Hins vegar hefur meira verið byggt af dýrari íbúðum og stærri. Það þarf að breytast.“ 

Þá bendir Sigurður á nýjar tölur Hagstofunnar sem vitni um að það sé að hægja á íslenskum byggingariðnaði og að dregið hafi úr sölu á sementi og steypustyrktarjárni. Þá rifjar hann upp átaksverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í húsnæðismálum og tillögur sem urðu hluti af lífskjarasamningunum, m.a. varðandi regluverk og stuðning við fyrstu kaup. „Með hliðsjón af lítilsháttar samdrætti á markaðnum og vísbendingum um meiri samdrátt horft fram í tímann er enn ríkari ástæða en áður til að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Þá til að uppbygging geti verið skilvirkari og hagkvæmari og í takt við þarfir markaðarins. Stjórnvöld verða að skila sínu.“

Morgunblaðið / mbl.is, 12. september 2019.

Morgunbladid-12-09-2019