Fréttasafn3. jan. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Nýsköpun Starfsumhverfi

Ný útflutningsstoð með nær ótakmarkaða vaxtargetu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í grein í Innherja að einhver stærstu tíðindi líðandi árs sé umbreyting íslensks atvinnulífs þar sem hugverkaiðnaður hafi fest sig í sessi sem fjórða útflutningsstoðin. Tekist hafi að virkja hugvitið í meira mæli og auka þannig verðmætasköpun og útflutning. Í greininni sem ber yfirskriftina Stutt skref og risastökk segir hann að lengi hafi verið kallað eftir uppbyggingu fleiri háframleiðnigreina í útflutningi, enda auki það stöðugleika í hagkerfinu og bæti lífskjör til framtíðar. Með þrautseigju og áræðni frumkvöðla og skynsamlegri stefnumörkun stjórnvalda, meðal annars auknum skattahvötum vegna rannsókna og þróunar, hafi nú tekist að byggja upp nýja, fjölbreytta útflutningsstoð sem hafi nær ótakmarkaða vaxtargetu. Áframhaldandi fjárfesting í nýsköpun, með réttum skilyrðum og hvötum ríkisins, muni skila samfélaginu miklum arði. Þarna leiði mörg stutt skref til risastökks.

Þau sem starfa í iðnaði hafa unnið þrekvirki á árinu

Sigurður segir að þau ríflega 40 þúsund sem starfi í iðnaði hafi unnið þrekvirki á árinu við að halda starfsemi uppi við mjög erfiðar aðstæður og séð landsmönnum fyrir matvælum og öðrum nauðsynjum, annast framkvæmdir og skapað verðmæti til útflutnings. Röskun aðfangakeðja og flutninga með tilheyrandi hækkun á verði aðfanga hafi sömuleiðis kallað á útsjónarsemi, bæði hvað varði að nálgast aðföng sem og að hagræða í rekstri. Þetta hafi sannarlega verið erfitt viðfangsefni.

Samtök iðnaðarins hafa varað við fækkun íbúða í byggingu frá 2019

Þá kemur fram í grein Sigurðar að aðgerða sé þörf í húsnæðismálum. Hann segir að fátt hafi stutt betur við þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar en lækkun vaxta og hærra fasteignaverð eldri íbúða. Allt frá árinu 2019 hafi Samtök iðnaðarins varað við því að fækkun íbúða í byggingu gæti leitt til verðhækkana á markaði sem nú hafi raungerst. Staðan nú þurfi því ekki að koma neinum á óvart. „Margt jákvætt hefur þó áunnist í byggingarmálum á árinu. Má þar nefna einföldun regluverks með breytingu á mannvirkjalögum og opnun Mannvirkjaskrár þar sem hægt verður að sjá umsvif á byggingamarkaði allt að því í rauntíma. Það er von mín fyrir hönd Samtaka iðnaðarins að árið 2022 verði síðasta árið sem samtökin þurfa að standa að talningu íbúða í byggingu en niðurstöður talningar SI hafa verið áreiðanlegustu upplýsingar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.“

Staðan á íbúðamarkaði hefur áhrif á kjarasamninga

Lífskjarasamningurinn rennur út seint á nýju ári og segir Sigurður í greininni að umræðan muni án efa markast af samtali aðila vinnumarkaðarins. Það sé óskandi að það samtal verði uppbyggilegt með það að markmiði að auka verðmætasköpun og styðja við útflutningsgreinar, ekki síst hugverkaiðnað. „Með fleiri stoðum útflutnings breytast hagsmunir á vinnumarkaði og samtalið þarf að taka mið af því. Forystumenn launþegahreyfingarinnar hafa bent á að staðan á íbúðamarkaði hafi áhrif á kjarasamninga enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Það er því enn ein ástæðan fyrir stjórnvöld – ríki og sveitarfélög – að bregðast við þeirri stöðu með fumlausum hætti.“

Ýmsar jákvæðar breytingar á liðnu ári

Sigurður segir að ýmsar jákvæðar breytingar hafi orðið á liðnu ári, meðal annars fjárfesting í nýsköpun og innviðum. Þá megi nefna sérstaklega þær miklu umbætur sem urðu varðandi iðn- og verknám á síðasta kjörtímabili í tíð þáverandi menntamálaráðherra þegar kerfislægum hindrunum var rutt úr vegi ásamt því að fjármunir voru nýttir í þágu iðnnáms. „Auk þess skilaði samstarf við SI og Samband íslenskra sveitarfélaga um eflingu iðnnáms sér meðal annars í metaðsókn í námið síðastliðið haust. Ef stjórnvöld halda áfram á sömu braut mun draga úr færnimisræmi á vinnumarkaði sem er verulegt efnahagslegt hagsmunamál fyrir landsmenn.“

Allar forsendur til að byggja undir enn betri framtíð

Sigurður segir í niðurlagi greinar sinnar að það sé fullt tilefni til að horfa með bjartsýni fram á veginn. Áskoranir verði alltaf til staðar af ýmsum toga en með markvissum aðgerðum megi sigrast á þeim með bættan hag landsmanna að leiðarljósi. Mjög gott starf hafi verið unnið í iðnaði á árinu og stjórnvöld hafi gert breytingar til batnaðar. Á nýju ári sé sannarlega verk að vinna, að takast á við áskoranir líðandi stundar en einnig að byggja undir enn betri framtíð. Allar forsendur séu til þess.

Hér er hægt að nálgast greinina í heild sinni.

Innherji, 31. desember 2021.