Nýjar reglur um merkingu matvæla
Nýjar reglur um merkingu matvæla
Ný reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda hefur tekið gildi hér á landi. Hún fjallar að stærstum hluta um merkingar matvæla og gerir kröfu um skýrari, ítarlegri og nákvæmari upplýsingar um innihald matvæla en hingað til hefur verið krafist. Þ.á.m. eru ríkari kröfur um læsileika á umbúðum, framsetningu upplýsinga um ofnæmisvalda í matvælum, næringarupplýsingar á forpökkuðum matvælum, upprunamerkingar á kjöti og merkingar á viðbættu vatni í kjöti og fiski.
Með reglugerðinni verða breytingar á reglum um geymsluþol. Leyfilegt verður að selja matvæli eftir að „Best fyrir“ dagsetning er útrunnin en þær vörur verður að aðgreina frá öðrum vörum í versluninni. Viðkvæm matvæli á að merkja með setningunni „Notist eigi síðar en“ sem þýðir að ekki er heimilt að selja þau eftir að sú dagsetning er liðin og neytendum ráðlagt að neyta þeirra ekki eftir viðkomandi dagsetningu þar sem matvælin eru þá ekki talin örugg til neyslu. Ekki verður lengur skylt að merkja pökkunardag á kælivörur. Skylt verður að merkja frystidagsetningar á frosnum fiski og kjöti. Ef um er að ræða matvæli sem hafa verið frosin, en eru seld uppþídd, á að geta þess á umbúðum að um þídda vöru sé að ræða.
Reglugerðin gildir um öll matvæli sem ætluð eru neytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús.
Matvælaframleiðendur hafa frest til 13. maí 2015 til að uppfylla hinar nýju reglur. Eftir þann tíma má þó selja matvæli, sem eru sett á markað eða merkt fyrir 13. maí 2015 í samræmi við núgildandi reglugerðir, á meðan birgðir endast. Nánari upplýsingar um nýju reglurnar er að finna á vef matvælastofnunar, www.mast.is