Fréttasafn



12. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök fyrirtækja í líf og heilbrigðistækni

Nýr formaður Samtaka fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni

Marta Blöndal, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar hjá ORF líftækni, var kjörin formaður á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, SLH, sem fram fór fyrir skömmu. Fundurinn var vel sóttur en um þrjátíu félagsmenn SI tilheyra starfsgreinahópnum. Í stjórn til tveggja ára voru kjörin þau Benedikt Stefánsson, forstöðumaður fjárfesta- og almannatengsla Alvotech, Matthías Leifsson, framkvæmdastjóri Leviosa, Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Origo heilbrigðistæknilausna, og Klara Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri gæða- og skráningarmála Kerecis. Til eins árs voru kjörin í stjórn þau Ásdís Jóhannesdóttir, Director of R&D Portfolio hjá Össuri og Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri ArcanaBio. Finnur Einarsson, rekstrarstjóri EpiEndo Pharmaceuticals, situr áfram annað ár af tveimur.

Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Kerecis og fráfarandi formanni SLH, voru þökkuð góð störf í þágu iðnaðarins undanfarin fjögur ár. 

Á fundinum kom fram að mikill vöxtur hafi verið í heilbrigðis- og líftækniiðnaði á liðnum árum og samtökin hafi því yfrið nóg af verkefnum. Þá kom fram að á starfsárinu hafi stjórnin glímt við stór verkefni en viðskiptastjóri samtakanna, Nanna Elísa Jakobsdóttir, tók á árinu sæti í stýrihópi heilbrigðisráðherra um innleiðingu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu. Þá hafa samtökin hvatt stjórnvöld til þess að tryggja að eftirlit með lyfja- og lækningatækjaframleiðendum á Íslandi sé skilvirkt, gagnsætt og faglegt. Helstu hagsmunamál samtakanna eru að skattahvatar til rannsókna og þróunar í nýsköpunarfyrirtækjum séu öflugir, liðkað verði fyrir komu erlendra sérfræðinga, menntakerfið tryggi nýliðun í heilbrigðis- og líftækni og stutt verði við sprotafyrirtæki í þróun og þeim tryggður aðgangur að tækjabúnaði og aðstöðu. 

Kynning á vegferð Oculis sem stofnað var fyrir 20 árum

Á fundinum var Einar Stefánsson, prófessor og stofnandi Oculis, með kynningu á vegferð fyrirtækisins sem þróar augnlyf sem hafa gerbylt meðferð við sjúkdómum í augnbotnum. Einar fór yfir sögu fyrirtækisins en Oculis var stofnað af Einari, sem er prófessor í augnlækningum og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði, fyrir tuttugu árum. Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem nýttar eru til að auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni. Rannsóknirnar eru upprunnar í Háskóla Íslands. 

Í kynningu Einars kom fram að í upphafi hafi reynst mikil áskorun að fá vísindasamfélagið til þess að samþykkja virkni uppfinningarinnar en það hafi hafist eftir mikla vinnu. Einar gaf frumkvöðlum á staðnum góð ráð en hans helsta hvatning til þeirra sem eru að hefja rekstur á fyrirtæki sem byggir á rannsóknum og þróun var að huga að viðskiptahliðinni sem allra fyrst. Einnig kom fram að árangur í nýsköpun geti tekið yfir áratug að koma fram og rannsókna- og þróunarvinna krefjist því mikillar þolinmæði og þrautseigju. Oculis var nýverið skráð á markað í Bandaríkjunum. Þá kom fram að lyfja- og líftækni hafi vaxið á Íslandi á síðastliðnum árum og væru gríðarlega mikil tækifæri í iðnaðinum fyrir íslenskt samfélag. Oculis væri mjög gott dæmi um það en fyrirtækið er í dag metið á um 40 milljarða króna.

Adalfundur-september-2023_4Aðalfundur SLH var vel sóttur. 

Adalfundur-september-2023_2

Adalfundur-september-2023_5Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis og fráfarandi formaður SLH, og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.

Adalfundur-september-2023_1Einar Stefánsson, prófessor og stofnandi Oculis.