Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Nýsamþykktar nýsköpunaraðgerðir geta breytt Íslandi

Ég ætla bara að koma með stóra yfirlýsingu og segja að þetta getur breytt Íslandi þessar aðgerðir einar og sér. Fjármálaráðherra hefur talað um Ísland 2.0 og ég held að þetta sé stærsta skrefið í þá átt. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, meðal annars í viðtali Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu á RÚV síðastliðinn sunnudag þar sem þær ræddu um nýsamþykktar breytingar á nýsköpunarlögum þar sem hækkað verður endurgreiðsluhlutfall rannsóknar- og þróunarkostnaðar í 35% og þakið á endurgreiðslum hækkað. 

Risavaxið verkefni að skapa tugi þúsunda nýrra starfa

Sigríður segir verkefnið framundan sé risavaxið og það sé að skapa tugi þúsunda nýrra starfa. „Nýsköpun er ekki ein af leiðunum til þess, hún er eina leiðin til þess. Þetta hefur legið fyrir í talsvert langan tíma. Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum talað um þetta í að minnsta kosti tvö ár að það þurfi að renna styrkari stoðum undir atvinnusköpun og fjölbreyttari. Sú krísa sem COVID hefur nú valdið í hagkerfinu og um allan heim gerir bara útslagið í því að við komumst að þessari niðurstöðu og flýtir þessu ferli. Þannig að núna blasir þetta við fleirum og blasir við pólitíkinni og stjórnvöld með meira afgerandi hætti en það gerði áður þó það hafi legið fyrir áður.“

Með fjárfestingum í rannsóknum og þróun er fjárfest í mannauði

Sigríður segir að með nýsköpun fáum við meiri verðmæti út úr okkar takmörkuðu auðlindum á sama tíma getum við búið til verðmæti úr engu nema hugvitinu. „Þegar við erum að tala um verkefnið framundan sem er að skapa tugi þúsunda nýrra starfa og það lá fyrir fyrir COVID og liggur enn meira fyrir núna með tugi þúsunda manna á atvinnuleysisskrá eða í hlutastarfi. Þá er það þannig að við búum ekki til ný störf nema búa til ný verðmæti. Með því að fjárfesta í rannsóknum og þróun erum við að fjárfesta í mannauði, við erum að fjárfesta í framtíðarverðmætasköpun, við erum að fjárfesta í styrkari skattstofni til framtíðar sem getur þá staðið undir velferðarkerfinu og svo framvegis. Þegar ég segi að nýsköpun sé eina leiðin þá er ég ekki að vísa til þess að það sé ein atvinnugrein. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og í rauninni eykur verðmæti í rótgrónum atvinnugreinum. Á sama tíma er nýsköpun mjög sterk til að mynda í hugverkaiðnaði. Það er kannski þessi fjórða stoð sem við höfum verið að tala um lengi að þurfi að byggja upp. Þannig að þarna getum við slegið margar flugur í einu höggi. Sjávarútvegurinn sem er ein okkar öflugasta atvinnugrein hefur stundað mikla nýsköpun og það er held ég ein af ástæðum þess hversu sterkur sjávarútvegurinn er og hefur verið. Hann er í stöðugri framþróun. Við viljum sjá þessa framþróun eiga sér stað í fleiri atvinnugreinum ásamt því að byggja undir þessa nýju grein okkar, hugverkaiðnaðinn sem er mjög fjölbreyttur.“

Gríðarleg margfeldisáhrif af aðgerðunum

Sigríður segir að aðgerðir stjórnvalda í nýsköpunarmálum sem kynntar voru í síðustu viku hafi gríðarlega mikla þýðingu. „Ég tel að þær þýði í stóra samhenginu það að styrkja allar atvinnugreinar á Íslandi. Þær geta líka þýtt það að hér á Íslandi verði til 3-5 ný og öflug fyrirtæki sem byggja á hugviti og nýsköpun á hverjum áratug í stað 0-1 eins og verið hefur undanfarna áratugi. Þegar við erum komin með fleiri svona fyrirtæki þá hefur það gríðarleg margfeldisáhrif, bæði í tengslum við þekkingu og bara út í allt samfélagið og þjóðfélagið.“

Eina vonin og sóknin í aðgerðum stjórnvalda

Þegar Sigríður er spurði hvernig aðgerðirnar virki segir hún að hver einasta króna sem fari í fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknir og þróun sé í rauninni launakostnaður og að hluti þessa sé endurgreiddur. „Þessar breytingar sem áttu sér stað á Alþingi í síðustu viku þýða að 35% af þessari fjárfestingu geta fengist í gegnum skattaívilnun til baka. En ég vil meina að þetta séu ekki útgjöld ríkissjóðs, þetta er í rauninni fjárfesting ríkissjóðs í framtíðarskattstofninum. En þetta skapar þá hvata að fyrirtæki hafa þá skýrari hvata til að stunda rannsóknir og þróun. Frumkvöðlar geta farið af stað með verkefni og vita að það sé hvati til staðar.“ Hún segir að þetta  sé í raun miklu skynsamari leið. „Ég er ekki að gagnrýna hlutabótaleiðina, hún var nauðsynlegt útspil á sínum tíma og er það enn en þetta er miklu meira fjárfesting í framtíðinni. Þetta er í rauninni eina vonin og sóknin í þessum aðgerðum. Þess vegna fagna ég þeim mjög. Þessar aðgerðir eru stórkostlegar fréttir fyrir viðskipti á Íslandi framtíðar tel ég og eru kannski stærri en margir gera sér grein fyrir. Þetta er stærsta stökk sem við höfum tekið í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi frá byrjun en þær eru litlar að umfangi í samanburði við þær almennu efnahagsaðgerðir sem hafa verið kynntar líka. Þetta eru nokkrir milljarðar á ári sem verið er að veita inn í þessa fjárfestingu.“

Aðgerðirnar þýða að færri missa vinnuna 

Sigríður segir að til skamms tíma þýði aðgerðirnar að færri missa vinnuna en ella. „Fyrirtæki geta haldið slagkraftinum í sínum rannsóknar- og þróunarverkefnum og þurfa þá ekki að draga úr verkefnum. Sem þýðir þá að við erum að byggja upp til framtíðar. Þetta heldur framleiðninni og verðmætasköpuninni gangandi hjá þessum nýsköpunarfyrirtækjum í stað þess að þurfa að senda starfsfólkið heim í hlutabætur eða að fólk endi á atvinnuleysiskrá. Þetta getur líka þýtt til langs tíma að hér skapist ný störf og það er nákvæmlega það sem við þurfum. Ég tel að svo muni verða. Ég hef heyrt frá mörgum félagsmönnum Samtaka iðnaðarins undanfarnar vikur sem segja að þetta skipti sköpum varðandi ákvarðanatöku næstu missera.“

Hún segir að fyrirtækin geti í raun ekki farið í öndunarvél og tekið upp þráðinn eftir 6-8 eða 12 mánuði. „Þau þurfa að viðhalda þessum verkefnum, það er svo mikil þekking þarna og því er mikilvægt að við verjum þessa þekkingu og getum haldið þessum verkefnum á floti. Til lengri tíma þá skapar þetta gríðarleg tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir. Stóra verkefnið er líka að við þurfum að færa mannauðinn upp virðiskeðjuna, við viljum skapa þessi nýju störf sem há framleiðnistörf.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni frá mínútu 50:09.

RUV-10-05-2020

RUV-10-05-2020-2-Fanney Birna Jónsdóttir og Sigríður Mogensen ræða saman í Silfrinu á RÚV.