Fréttasafn



10. sep. 2021 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun á Íslandi aldrei verið meiri en nú

„Þessar tölur sýna svart á hvítu að nýsköpun á Íslandi hefur stóraukist og hefur hún aldrei verið meiri en nú,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Fréttablaðinu um gögn frá Rannís sem sýna að endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja muni aukast úr 5,2 milljörðum króna fyrir árið 2019 í um tíu milljarða fyrir árið 2020. Endurgreiðslan jókst um 46% á milli áranna 2018 og 2019. „Á einu til tveimur árum hefur staðan gjörbreyst með ötulu starfi frumkvöðla og vel heppnuðum aðgerðum stjórnvalda um aukna hvata.“ 

Staðfesting á að hugverkaiðnaður hefur fest sig í sessi

Sigurður segir í fréttinni að tölur Rannís séu enn önnur staðfesting þess að hugverkaiðnaður, fjórða stoðin í útflutningstekjum þjóðarbúsins, hafi fest sig í sessi. „Við sjáum það meðal annars á auknum fjölda fyrirtækja sem sækja um staðfestingu til Rannís á rannsókna- og þróunarverkefnum, en sá fjöldi hefur tvöfaldast á síðustu tveimur árum og er nú ríflega 300. Jafnframt sýnir þetta að hvatar vegna rannsókna- og þróunar virka vel og hratt og hvetja til aukinnar fjárfestingar í nýsköpun. Slíkir hvatar voru fyrst innleiddir fyrir rúmum áratug síðan. Þeir voru stórauknir í fyrra og hafa þeir þegar sannað gildi sitt. Segja má að þetta hafi verið mikilvægasta aðgerð stjórnvalda í tengslum við efnahagsleg viðbrögð við heimsfaraldri kórónuveiru enda blésu fyrirtæki í hugverkaiðnaði til sóknar, réðu fleiri starfsmenn og fjárfestu enn meira í nýsköpun.“ 

Iðnaður sem hefur alla burði til að verða stærsta útflutningsstoðin

Þá kemur fram í viðtalinu við Sigurð að hugverkaiðnaður hafi skapað 16% af gjaldeyristekjum árið 2020 og hafi alla burði til að verða stærsta útflutningsstoðin okkar til framtíðar ef rétt sé haldið á málum. „Til þess að það verði skiptir öllu að núverandi umgjörð verði varanleg þannig að fyrirtæki sjái sér áfram hag í því að stunda nýsköpun hér landi og geti gert langtímaáætlanir um þróunarverkefni. Áframhaldandi fjárfesting í nýsköpun og vöxtur hugverkaiðnaðar er stærsta efnahagsmálið enda munu lífskjör okkar til framtíðar ráðast af auknum útflutningstekjum.“ 

Fréttablaðið, 8. september 2021.

Frettabladid-08-09-2021