Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Nýsköpun er eina leiðin fram á við

Núna þurfum við að virkja okkar helstu auðlind í meira mæli sem er hugvitið. Þess vegna fögnum við mjög þeim breytingum sem núna er verið að ganga frá á þinginu varðandi endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þetta er miklu stærra heldur en nokkur gerir sér grein fyrir. Nýsköpun er ekki ein af leiðunum fram á við, hún er eina leiðin fram á við. Hún er eina leiðin núna til þess að byggja upp. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi á Bylgjunni síðastliðin sunnudag þar sem rætt var um hvernig samfélagið verður endurbyggt í Ísland 2.0.

Stóra verkefnið að koma 55 þúsund manns aftur á vinnumarkað

Sigurður segir jafnframt að stóra verkefnið framundan sé að koma 55 þúsund manns aftur inn á vinnumarkaðinn. „55 þúsund manns sem eru annað hvort atvinnulausir eða á hlutabótum. Ef það eru einhvern tímann góður tími fyrir stórar hugmyndir þá er það núna. Við þurfum auðvitað að hlúa að því sem fyrir er. Við erum með sterkan iðnað og sterkar greinar hér sem munu taka við sér en við þurfum líka að búa til eitthvað nýtt. Við megum ekki gleyma því að óveðursskýin voru þegar yfir Íslandi um áramótin áður en kórónuveiran fór að breiða úr sér yfir heimsbyggðina. Við vorum að velta því fyrir okkur á þeim tíma og áður hvað yrði aflvaki vaxtar á næstu árum og áratugum. Við höfum nýtt náttúruauðlindirnar vel, hvort sem það er hafið eða náttúran, ferðaþjónustan eða orkuiðnaðurinn í tengslum við það.“

Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði hefur gefið góða raun

Þá kemur fram í máli Sigurðar að endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði hafi gefið góða raun, það hafi orðið til störf, aukin verðmæti, auknar útflutningstekjur og ríkissjóður hafi fengið auknar tekjur. „Þannig að við höfum núna eitthvað til að byggja á. Út af þessu uppbyggingarstarfi þá munu nokkur fyrirtæki blómstra á næstu árum sem hafa verið að byggja upp núna síðastliðinn áratuginn. En af því það er verið að auka þetta svona mikið þá getum við átt von á því að hér verði til 3-5 stór og öflug fyrirtæki á hverjum áratug í stað 0 eða 1. Þannig að þetta er auðvitað gjörbreyting og mun treysta stoðirnar. Við höfum kallað eftir fjölbreyttara atvinnulífi og styrkari stoðum. Þetta leggur grunninn að því. Þess vegna er mjög jákvætt að sjá þetta og leggur grunnin að einhverju sem við getum kallað Ísland 2.0.“

Á vef Vísi er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.