Fréttasafn21. jan. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun er nauðsynleg til vaxtar

Öll lönd standa frammi fyrir því að nýsköpun er nauðsynleg til vaxtar og efnahagslegrar þróunar. Í nútíma hagkerfi skiptir nýsköpun öllu máli fyrir verðmætasköpun, vöxt og fjölgun starfa. Nýsköpun mun leiða til þess að ný fyrirtæki verða til sem og til aukinnar samkeppnishæfni núverandi fyrirtækja. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanni SI, þegar Ári nýsköpunar 2020 var ýtt úr vör með formlegum hætti í gær. 

Guðrún sagði samkeppni á markaði gríðarlega í flestum geirum og að öll fyrirtæki leggi mikið á sig til að ná betri og stöðugri stöðu á markaðnum. „Með öðrum orðum reyna flestir að ná samkeppnisforskoti á markaði. Besta leiðin til að ná því er með nýsköpun. Þess vegna er nýsköpun nauðsynlegur þáttur í öllum greinum iðnaðar.“

Nýsköpun jafnt í rótgrónum fyrirtækjum og nýjum sprotum

Þá kom fram í ávarpi Guðrúnar að stjórn Samtaka iðnaðarins hafi ákveðið á fundi sínum í desember að helga árið 2020 nýsköpun í sinni breiðustu mynd og þar með fylgt eftir nýsköpunarstefnu samtakanna sem kynnt var fyrir tæpu ári eða í febrúar 2019. „Það var okkur mikið fagnaðarefni er stjórnvöld kynntu nýsköpunarstefnu sína í október síðastliðnum sem hefur það stóra markmið að Íslandi verði nýsköpunarland. Þar með sendu stjórnvöld skýr skilaboð til okkar allra um að stjórnvöldum sé alvara með að efla nýsköpun hér á landi. Við hjá Samtökum iðnaðarins erum svo sannarlega til í þá vegferð og því ætlum við að leggja áherslu á nýsköpun innan allra greina iðnaðar á þessu ári því nýsköpun á sér stað jafnt í rótgrónum fyrirtækjum sem og nýjum sprotum.“ 

Nýsköpun knýr hagvöxt áfram 

Í ávarpi sínu sagði Guðrún að nýsköpun hafi knúið áfram hagvöxt, hækkað laun og séð til þess að við lifum öll heilbrigðara og lengra lífi en áður. „ Allt frá upphafi mannkyns hefur mannskepnan eflt með sér nýsköpun til að skapa sér betri skilyrði til lífs og vaxtar en áður. Það munum við halda áfram að gera. Um 1920 gátu Íslendingar vænst þess að lifa að meðaltali í 55 ár, í dag getum við vænst þess að lifa í 82 ár. Og frá 1920 hefur ungbarnadauði hér á landi farið úr því að vera rúmlega 46% niður í 0,7% sem er með því lægsta í heimi. Þessum árangri hefðum við ekki náð ef ekki hefði verið fyrir gríðarlega nýsköpun í heilbrigðisvísindum á þessum 100 árum, sér í lagi í lyfjaþróun. Við fórum úr torfkofum í vönduð húsakynni sem sannarlega byggðu á nýsköpun hér á landi. Við beisluðum varma jarðar til húshitunar sem hefur æ síðan skipað okkur í fremstu röð þjóða heims hvað varðar nýsköpun í jarðvarma. Tilkoma togara lagði grunninn að eflingu sjávarútvegs hér við land og hafa mörg fyrirtæki byggst hér upp sem byggðu á nýsköpun í sjávarútvegi svo eftir hefur verið tekið.“ 

Verðum að hlúa að nýsköpun og sprotum

Í niðurlagi ávarps síns sagði Guðrún að til að Ísland verði í fremstu röð þjóða verðum við að hlúa að nýsköpun og sprotum. „Við verðum að ýta undir frjóa hugsun og þar með skapa grunn að framförum morgundagsins. Með ári nýsköpunar vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að efla nýsköpun og ný tækifæri á Íslandi.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Si_valka_nyskopunarland_b-4Myndmerki ársins afhjúpað, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, formaður SI, Eliza Reid, forsetafrú, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.