Nýsköpun kom Össuri á kortið
JÓN SIGURÐSSON er forstjóri alþjóðlega heilbrigðistæknifyrirtækisins Össurar. Fyrirtækið var stofnað árið 1971 og þarfnast varla kynningar hér á landi – er leiðandi á sínu sviði í heiminum. Össur hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það fyrir augum að bæta hreyfanleika fólks. Á skrifstofum Össurar víða um heim starfa hátt í 4 þúsund starfsmenn í meira en 25 löndum. Höfuðstöðvarnar eru þó á Íslandi. Starfsstöðvarnar eru í Bandaríkjunum, Kanada, Hollandi, Bretlandi, Frakk landi, Svíþjóð, SuðurAfríku, Brasilíu, Ástralíu, SuðurKóreu, Kína og víðar og að auki hefur fyrirtækið um fangsmikið net dreifingaraðila í öðrum löndum. Jón segir tæpan helming sölu Össurar vera í Bandaríkjunum. „Það er meiri starfsemi erlendis en á Íslandi, en hér sinnum við mikilli þróun.“
Hornsteinninn í okkar stefnumörkun hefur alla tíð verið sá að koma með nýjungar og endurbæta vörur okkar. Það er það sem við lifum á.
Nýsköpun er nefnilega það sem kom Össuri á kortið. „Fyrirtækið varð til útaf nýsköpun og nýjum og framúrstefnulegum lausnum. Það er algjörlega inngreypt í okkar menningu. Hornsteinninn í okkar stefnumörkun hefur alla tíð verið sá að koma með nýjungar og endurbæta vörur okkar. Það er það sem við lifum á,“ segir Jón.
Fyrirtækið setur um 4 milljarða á ári í þróun á vörum. „Það er um 5% af tekjunum. Össur gengur út á að þróa og bæta þessa tækni sem við höfum sérhæft okkur í á markaðnum. Það er einfaldlega grunnurinn að okkar velgengni.“
Fjárfesting í rannsóknum og þróunarstarfi, kannski sérstaklega á hágæða lækninga vörum líkt og Össur sérhæfir sig í, er í eðli sínu áhættufjárfesting. Jón segir að fyrirtækið sé í góðum og nánum tengslum við sinn kúnnahóp og fari ekki út fyrir hann. „Þetta er það sem við þekkjum og það sem við erum góð í. Við erum auðvitað í nýsköpun í þeim skilningi að við erum öflug í vöruþróun, en við erum ekki að leita út fyrir þennan markað sem við höfum skapað okkar sess á.“
Sífellt flóknara regluverk
Jón segir ekkert einhlítt svar við því hvernig Össur komst á skrið. Fyrsta útflutningsvaran var silíkonhulsa sem tengir stúf við gervilim, og svo gerviökkli sem markaði upphafið að frek ari útvíkkun vöruframboðs fyrir stoðtækjanotendur. „Össur hóf starfsemi með eina vöru en síðan voru það fyrirtækjauppkaup sem festu okkur í sessi á þessum markaði og sú staðreynd að við höfðum kraft og fjármagn til þess að stunda þessa vöruþróun sem þurfti til að koma okkur áfram, halda okkur í framlínunni þar sem við höfum alltaf verið. Það var ein vara í upphafi sem gekk mjög vel, en það hefði aldrei komið fyrirtækinu á skrið. Það var margt sem hjálpaði til, til dæmis að við gátum skráð félagið á markað árið 1999. Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi var þá ef til vill nógu frumstæður til þess að samþykkja þetta litla fyrirtæki með eina vöru og engar dreifileiðir inn í Kauphöllina. Það var innspýtingin sem við þurftum á þeim tíma. Síðan höfum við keypt um 40 fyrirtæki. Fleiri en færri hafa heppnast,“ skýrir hann frá og segir að án uppkaupa á fyrirtækjum í kringum aldamótin hefði Össur ekki haft almennilegar dreifileiðir líkt og fengust með kaupunum. „Það er margt sem hægt er að benda á sem ýtti undir það að Össur fór að ganga vel, en engin ein vara eða einn atburður sem ég get nefnt.“
Líkt og áður kom fram fer mesta salan á vörum Össurar fram í Bandaríkjunum. Jón segir það verða sífellt flóknara að fá leyfi fyrir vörunum á mörkuðum úti í heimi. „Reglugerðirnar eru að verða fleiri og flóknari. Okkar velgengni byggir líka á því að við höfum verið með okkar dreifileiðir sjálfir en höfum ekki þurft að fara í gegnum þriðja aðila, nokkurs konar umboðsaðila, líkt og var áður. Við einblínum á nýsköpun og erum oft í þeirri stöðu að vera að kúvenda markaðnum með nýjum vörum. Vörurnar eru oft flóknar og þarfnast mikillar þjálfunar í byrjun. Markaðsstarfið er afar mikilvægt því verið er að selja vörur og lausnir sem eru óþekktar.“
Það er einfaldlega þannig að ef Íslendingar ætla að halda uppi lífskjörum til langs tíma þá þurfum við að einbeita okkur að þeim geirum þar sem er mikil framlegð.
Fá verkefni komast í gegnum nálaraugað
Jón segir að hluti að því að standa í vöruþróun sé að oft þurfi að segja nei við góðum verkefnum. „Vöruþróunin hjá okkur fer eftir ákveðn um ferlum, það er þegar við erum að hanna nýja vöru. Það er fullt að verkefnum sem rýnt er í og svo er valið úr þeim. Raunar eru mjög fá verkefni sem komast í gegnum nálaraugað. Verkefnin geta tekið fleiri ár og kostað hundruði milljóna og þá er eins gott að maður sé að veðja á réttan hest,“ segir Jón og brosir.
Nýsköpun er lífsnauðsynleg
Jón segir aukinn kraft í nýsköpun skipta höfuð máli á Íslandi til framtíðar. „Það er einfaldlega þannig að ef Íslendingar ætla að halda uppi lífskjörum til langs tíma þá þurfum við að einbeita okkur að þeim geirum þar sem er mikil framlegð. Íslenskt atvinnulíf byggir á náttúruauðlindum, sem við erum rík af og dreifast á mjög fáa. Okkar eina sérstaða er hvað við erum fá og hvað þarf í raun lítið til að það skipti máli fyrir einstaklinginn. Til þess að halda þessum lífskjörum til langs tíma þá þurfum við að breikka sviðið. Þó ég vilji ekki hnýta í ferðaþjónustu, er það samt þannig að ef við breytumst alfarið í ferðaþjónustuland þá er framlegðin ekki næg til þess að halda þessum lífsgæðum,“ skýrir hann frá.
„Ég er alls ekki að kvarta yfir uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi enda finnst mér hún hið besta mál. En nýsköpun og hátækniiðnaður eru gríðarlega mikilvæg og þar er mikil framlegð. Ný sprotafyrirtæki eru ómet an leg. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því hversu erfitt það er að reynast litlum fyrirtækjum að komast í gegnum regluverksbáknin sem eru að byggjast upp og taka gildi um allan heim. Ef ég tek dæmi af okkar fyrirtæki þá er reglugerðarumhverfið í kringum lækningavörur margfalt flóknara en þegar Össur var að stíga sín fyrstu skref í þessu. Það þarf miklu meira afl og meiri þekkingu til þess að koma sínum vörum í gegnum það allt saman en fyrir tuttugu eða þrjátíu árum síðan. Ég er ekki viss um að Össur hefði getað komist í gegnum þetta ef við værum að stíga okkar fyrstu skref núna. Þar eru íslenskar reglur ekkert endilega vandamálið, heldur erlendar.“
Tenging við erlenda markaði skiptir öllu
Hann tekur dæmi af nýlegri löggjöf um persónuvernd. „Þetta er orðinn mikill frumskógur. Ég ætla ekki að segja að þetta sé óþarft, en afleiðingarnar geta orðið þær að nýsköpun lítilla aðila getur orðið miklu erfiðara. Við erum að uppfylla allar kröfur, vitaskuld, og við setjum mannafla og tíma í það. Það sér hver maður í hendi sér að fyrirtæki með fimm starfsmönnum hefur hvorki aflið né dýptina sem þarf til að hafa þetta allt í lagi. EES gerir það þó fyrir okkur að sömu reglur gilda alls staðar. Ég myndi ekki bjóða í það ef hvert einasta land færi að setja sínar eigin reglur. Það er eiginlega bara hræðileg tilhugsun,“ segir Jón og hlær.
„Nú sjáum við til dæmis að Bretland er að fara út úr Evrópusambandinu og við það myndast aðrar reglur þar sem við þurfum að fara eftir – í það fer dýrmætur tími, mannafli og peningar. En það að vera innan þessara bandalaga er algjör forsenda þess að geta gert eitthvað, sprotafyrirtæki eins og Össur hefði aldrei getað lifað af án þess að sækja á erlenda markaði. Smæð samfélagsins á Íslandi gerir það að verkum að við hefðum aldrei selt nóg. Tengingin við markaðina og það að vera þátttakandi í stærra markaðssvæði skiptir öllu máli. Það er svo lítill heima markaður.“
Aðspurður segir Jón að tvennt þurfi að koma til, til að bæta umhverfi frumkvöðla með tilfinnanlegum hætti. „Þekking og fjármagn. Aðgangur að hvoru tveggja. Þetta kann að vera gömul tugga, en fjármagn eitt og sér gerir ekki mikið ef þekking og sambönd fylgja ekki í pakkanum. Þetta hefur tekist vel í sérstökum „frumkvöðlaklösum“ í Kísildalnum, til dæmis. Bæði eru ákveðnir sjóðir sem hafa innanborðs mikil sambönd og þekkingu og taka frumkvöðla hreinlega að sér; skaffa þeim fjármagn og þekkingu. Ef þetta tvennt kemur til er það ávísun á mjög góða hluti. Fjármagnið er til staðar, en þekkingin er ekki til í nógu miklum mæli á Íslandi. Við þurfum að breyta þessu.“
Fjármagnið er ekki nóg
Aðspurður segist Jón ráðleggja ung um frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref að fara ekki af stað nema hafa trú á verkefninu. „Þetta er spurn ing um að byrja, gera sér grein fyrir því að þetta getur verið mjög erfitt – en ef menn hafa trúna, þá verður umbun,“ segir hann. „Ég held að þekking og sam bönd skipti jafn miklu máli og fjármagnið – því fjármagnið er ekki nóg. Að komast í samband við ein hverja í þínum geira, þekkja umhverfið og geta séð fyrir og yfirstigið hindranir á auðveldan hátt með samböndum og þekkingu. Það er held ég besta ráðið sem ég get gefið. Þetta er gefandi þegar það heppnast, en hins vegar er þetta áhættusamt og þá sérstaklega í upphafi. Það er svo mikilvægt í byrjun að taka réttar ákvarðanir. Ef þú hefur bolmagn í að hrinda af stað 10 verk efnum þá mun sennilega að minnsta kosti eitt heppnast, en ef þú ert með eitt verkefni, þá segir það sig sjálft að áhættan er gríðarleg. Ekki vera hrædd við að leita eftir aðstoð til þeirra sem hafa meiri reynslu.“
VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir
LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson