Fréttasafn



4. júl. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun lykill að aukinni verðmætasköpun

„Við erum að mörgu leyti á góðum stað efnahagslega í dag en til þess að viðhalda þeim lífskjörum sem við búum við og bæta þau enn frekar til framtíðar er nýsköpun nauðsynleg. Nýsköpun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og hún mun eiga sér stað í atvinnulífinu og að stórum hluta í iðnaði og innan rótgróinna fyrirtækja. Þegar við tölum til dæmis um nýsköpun í sjávarútvegi þá eru það iðntæknifyrirtæki að þróa nýjar lausnir til að vinna fiskinn betur og búa til meiri verðmæti,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í sérblaði um nýsköpun sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

Ísland ekki samkeppnishæft þegar kemur að skattalegum hvötum til nýsköpunar

Sigríður segir að stjórnvöld þurfi að marka skýra stefnu og áherslur í nýsköpunarmálum. Hvetja þurfi til rannsókna, þróunar og nýsköpunar á öllum sviðum og búa fyrirtækjum ákjósanlegt umhverfi til vaxtar. Sigríður segir Ísland ekki samkeppnishæft þegar kemur að skattalegum hvötum til nýsköpunar og að allt of mörg fyrirtæki með nýjar hugmyndir hverfi úr landi þegar þau hafi náð ákveðnum þroska. „Framlög til rannsókna og þróunar koma að stærstu leyti úr einkageiranum, eða um 50-60%, og nema nú um 2% af landsframleiðslu. Til að markmið stjórnvalda um að framlög til rannsókna og þróunar verði 3% af VLF árið 2024 þarf skýra hvata. Önnur ríki bjóða slíka hvata í formi endurgreiðslu kostnaðar. Þar með eru tvíþætt rök fyrir slíkum hvötum, annars vegar alþjóðleg samkeppni um hugvit og hagnýtingu þess og hins vegar markmið stjórnvalda um að auka rannsóknir og þróunarstarf á Íslandi. Því miður, þrátt fyrir mikla grósku og stofnun fyrirtækja, þá erum við ekki samkeppnishæf þegar kemur að skattalegum hvötum og rekstrarumhverfi fyrirtækja, ef við berum okkur saman við löndin í kringum okkur. Við eigum að geta sameinast í því markmiði að stuðla að umgjörð sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum. Ísland á að vera ákjósanlegt fyrir fólk með góðar hugmyndir sem vill stofna fyrirtæki og fyrirtæki þurfa að geta vaxið hér á landi. Við erum lítil þjóð og einmitt þess vegna þurfum við ennþá sterkari hvata til þess að laða til að mynda erlenda sérfræðinga hingað til lands í hátæknistörf. Ef við ætlum okkur að keppa um fyrirtæki og verðmæt störf þurfum við að búa til heildstætt plan eða atvinnustefnu og horfa þarf til annarra landa eftir fyrirmyndum. Bretar hafa til dæmis sett sér atvinnustefnu þar sem mismunandi stefnur koma saman og mynda heild. Stefna í nýsköpun er þar mikilvægur hlekkur.“ 

Vonir bundnar við nýja nýsköpunarstefnu stjórnvalda

Árið 2016 voru gerðar breytingar á nýsköpunarlögum á Íslandi. Sigríður segir breytingarnar hafa verið framfaraskref en gera þurfi enn betur og gefa í. Vonir séu bundnar við nýja nýsköpunarstefnu stjórnvalda sem eigi að líta dagsins ljós vorið 2019. „Það stendur til að nýsköpunarstefna fyrir Ísland verði tilbúin í maí 2019. Það skiptir miklu máli að stjórnvöld leggi við hlustir og að við náum saman um það sem þarf að gera. Ný áætlun þarf að ná út fyrir flokkadrætti og pólitík og lengra en eitt kjörtímabil. Í dag er stöðugleiki í stjórnmálum og nú er tækifærið til þess að móta framtíðarsýn í nýsköpun,“ segir Sigríður. „Komið hefur fram að afnema eigi þök á skattaendurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar en enn er óljóst hvenær það verður gert. Við viljum ítreka við stjórnvöld að það þurfi að gerast sem fyrst. Skattaendurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar þarf að hugsa fyrst og fremst sem fjárfestingu til framtíðar sem skilar sér margfalt til baka en ekki sem útgjöld hins opinbera.“ 

Stefna í nýsköpun snúist um umgjörð og hvata

Sigríður segir mikilvægt að stefna stjórnvalda í nýsköpun snúist um umgjörð og hvata til nýsköpunar en ekki um stofnanir og hvernig eigi að útdeila fjármunum. „Í stefnunni þarf rauði þráðurinn að snúa að því hvernig efla megi skattalega hvata, stuðla að ákjósanlegu fjármögnunarumhverfi frá upphafsstigum til vaxtar fyrirtækja og efla rannsóknir og þróun með auknu samstarfi háskóla og atvinnulífs. Endurskoða ætti styrkjakerfið í heild sinni og skilgreina markmið út frá því hvernig við viljum sjá Ísland eftir 10-20 ár.“ Að lokum segir Sigríður að nýsköpun muni leysa helstu framtíðaráskoranir, til dæmis í heilbrigðis- og umhverfismálum. Til þess að svo megi verða þurfi að búa fyrirtækjum rétt skilyrði og hvata.

Frettabladid-04-07-2018

Fréttablaðið, 4. júlí 2018.