Fréttasafn25. okt. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nýsköpun og gæði í málmiðnaði

„Greininni vegnar vel og það er mikið að gera hjá fyrirtækjum innan málmiðnaðar. Veltan í greininni hefur t.d. aukist um 28,3% frá árinu 2008.“ Þetta segir Patrick Karl Winrow, starfsmaður Marel og stjórnarmaður í Málmi, samtökum fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, sem er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins, í viðtali í Fréttablaðinu. Patrick segir að nú starfi starfsmenn í málmiðnaði við forritun og uppsetningu á búnaði þó handverkið lifi auðvitað einnig góðu lífi. Hann segir að tækniframfarir séu mjög örar í greininni sem sé í raun að breytast í hátækni-iðnað. „Það hefur tekist að skapa verðmætari og áhugaverðari störf í greininni og sem dæmi má nefna að aukin ferðaþjónusta hér á landi hefur kallað á enn meiri hönnun og sérsmíði úr stáli. Áherslan er á nýsköpun og gæði þar sem verið er að sérsmíða jafnvel í miklu magni.“ 

Aðspurður um stöðu málmiðnaðar á Íslandi, samanborið við nágrannalöndin, segir hann Ísland hafa búið við viðvarandi skort á menntuðu fólki í greininni sem hafi auðvitað áhrif á möguleika greinarinnar til að stækka og dafna. „Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir iðnaðinn og við verðum að leita leiða til að nálgast ungt fólk og kynna fyrir þeim hvað það eru fjölbreytt og spennandi störf í málmiðnaði. Við stöndum okkur að öðru leyti mjög vel í samanburði við nágrannalöndin okkar.“ 

Málmur hefur hitt systursamtök undanfarin 90 ár

Patrick segir að samtökin Málmur hitti á hverju ári systursamtök sín á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að bera saman bækur og læra hvert af öðru. „Fundirnir hafa átt sér stað undanfarin 90 ár og það er stórskemmtilegt að sjá hvað greinin í heild hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár.“ 

Tilgangur Málms er að vinna að framgangi málmtæknifyrirtækja, efla samkeppnishæfni þeirra og arðsemi. „Helstu verkefnin og áskoranirnar snúa að viðhorfi til greinarinnar, menntamálum, tækniframförum og framleiðni. Við höfum nýlokið öflugri stefnumótunarvinnu og sett fram skýra stefnu og markmið sem við erum að vinna í sameiningu að með okkar helstu hagsmunaaðilum.“

Tækniframfarir fjórðu iðnbyltingarinnar tengdar málmiðnaði

Í viðtalinu segir Patrick frá því að miklar tækniframfarir hafi aukið afköst í málmiðnaði, skapað tækifæri til vöruþróunar og bætt hraða og gæði framleiðslunnar og að raunar megi tengja helstu tækniframfarir fjórðu iðnbyltingarinnar við málmiðnað. „Um þessar mundir er þróun í framleiðslutækni hraðari en nokkru sinni fyrr og róbótar og aðrar tækniframfarir sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni gegna sífellt stærra hlutverki.“ Þá segir hann að fjórða iðnbyltingin sé komin á fullan skrið og það sé spurning hvort við ætlum að fylgja henni eða eiga það á hættu að sitja eftir. „Ísland verður að taka þátt í þessari byltingu og við verðum að tileinka okkur nýjan hugsunarhátt. Fram undan eru miklar tækniframfarir og til þess að lifa af verðum við að styrkja enn frekar málmiðnaðinn, þessa mikilvægu stoð í atvinnulífi okkar.“ 

Hér fyrir neðan er hægt að lesa viðtalið í heild sinni:

Fréttablaðið, 13. október 2017.