Fréttasafn16. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun tryggir samkeppnisforskot

Framleiðsluráð Samtaka iðnaðarins er samstarfsvettvangur framleiðslugreina innan samtakanna og er markmið ráðsins að ná utan um framleiðsluiðnaðinn sem heild, mynda breitt bakland og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrirtækjanna. STEFÁN MAGNÚSSON, markaðsstjóri Coca Cola European Partners á Íslandi, hefur gegnt formennsku Framleiðsluráðs SI síðustu tvö ár. Ásamt Stefáni sitja sjö stjórnendur ólíkra framleiðslufyrirtækja innan samtakanna í stjórn ráðsins en um 230 fyrirtæki tilheyra framleiðslusviði. GUNNAR SIGURÐARSON, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, ræddi við Stefán um með hvaða hætti framleiðsluiðnaðurinn hefur verið að fást við nýsköpun.

Framleiðsluiðnaðurinn er mikilvæg stærð í hagtölum á Íslandi en fyrirtækin í þeim iðnaði velta 685 milljörðum króna á ári, eru með um 14.500 starfsmenn í vinnu og flytja út iðnaðarvörur fyrir 331 milljarð króna árlega. Dæmi um framleiðslu sem aðildarfyrirtæki á framleiðslusviði SI fást við eru matvæli, fóður, umbúðir, húsgögn, innréttingar, byggingarvörur, tæki og vélar, prentverk og vinnsla úr endurvinnsluefnum og málmum. 

Gunnar: Í framleiðsluiðnaði hér á landi er mikill fjöldi ólíkra fyrirtækja, allt frá litlum gamalgrónum fjölskyldufyrirtækjum til stærstu og fjölmennustu fyrirtækja landsins. Leiðir þessi fjölbreytni ekki af sér aukið flækjustig þegar settar eru fram sameiginlegar áherslur til að mynda í nýsköpun? 

Stefán: Þrátt fyrir þennan mikla fjölda ólíkra fyrirtækja sem heyra undir framleiðsluiðnaðinn þá eru eiginlega undantekningarlaust sömu málefni sem brenna á fyrirtækjum. Segja má að þær áherslur sem Framleiðsluráð SI hefur sett fram séu samnefnari yfir helstu áskoranir og áherslur langflestra fyrirtækja á Íslandi. Mikilvægi þess að einfalda regluverk hins opinbera er til að mynda eitthvað sem öll framleiðslufyrirtæki taka undir. Bætt ímynd íslenskrar framleiðslu er annað dæmi sem Framleiðsluráð SI hefur sett á oddinn og hefur til að mynda sést í markaðsverkefninu Íslenskt gjörið svo vel. 

Gunnar: Þetta á væntanlega einnig við þegar kemur að nýsköpun? Eins og fram kom á Framleiðsluþingi SI þá er mjög áhugavert að sjá hversu stór þáttur nýsköpun er í rekstri fyrirtækja og hvað það kom skýrt fram að ný hugsun og ný tækni getur ráðið úrslitum um framtíðarvöxt framleiðsluiðnaðar á Íslandi.

Stefán: Algjörlega, ég tel að áherslur ráðsins til nýsköpunarmála komi við flest ef ekki öll framleiðslufyrirtæki landsins. Öll fyrirtæki eru að vinna með birgðastjórnun og gæðastýringu og auðvitað vöruþróun á hverjum tíma. Nýsköpun í þessum efnum er oftar en ekki lykillinn að aukinni verðmætasköpun. Nýsköpun er alltaf efst á blaði fyrirtækja. Spurningar um hvernig er hægt að gera hlutina með hagkvæmari hætti, hvernig auka megi geymsluþol vörunnar og hvernig framleiðslufyrirtæki hafa verið að bregðast við umhverfis- og loftslagsmálum, bregðast við kröfum neytenda, eru allt dæmi um nýsköpun. Það endurspeglaðist einnig á þinginu hversu vítt málefni nýsköpunar er meðal framleiðslufyrirtækja. Þar fengum við ótrúleg dæmi um hvernig fyrirtæki hafa tekist á við vandamál og snúið þeim upp í viðskiptatækifæri. 

Gunnar: Það er áhugavert að þú nefnir þetta. Það vill oft brenna við að þegar verið að ræða nýsköpun þá felist í því að verið sé að finna upp ný hjól. 

Stefán: Alveg rétt. Þegar rætt er um nýsköpun þá er það oftar en ekki tengt sprotafyrirtækjum og því hefur nýsköpun innan gamalgróinna fyrirtækja ekki verið nægjanlega uppi á borði. Það er litið á nýsköpun of þröngt, en eins og ég sagði þá er nýsköpun eitthvað sem er samgróið fyrirtækjarekstri enda vilja öll fyrirtæki framleiða sínar vörur með hagkvæmari hætti. Að sama skapi tel ég að sökum þess hversu þröng nýsköpun er skilgreind þá hafa mörg framleiðslufyrirtæki ekki nýtt sér sístækkandi styrkjaumhverfi, til að mynda hjá Tækniþróunarsjóði. Fyrir mörgum er styrkjaumhverfið framandi og þar af leiðandi verður það óhjákvæmilega ekki eitthvað sem er skoðað. Það þarf að opna umræðuna og fjalla meira um nýsköpun og mikilvægi hennar. 

Gunnar: Eru þetta ekki meðal annars áherslur Framleiðsluráðs SI? 

Stefán: Framleiðsluráð SI hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun. Dæmi um þetta eru kynningarfundir sem haldnir eru tvisvar á ári í samstarfi við Rannís. Þar er farið yfir mismunandi styrkjaflokka til nýsköpunarverkefna og endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar. Okkar markmið er að fjölga til muna hlutfalli framleiðslufyrirtækja í umsóknum í sjóðinn. 

Gunnar: Það er því mjög mikilvægt að leggja aukna áherslu á nýsköpun, enda viljum við að íslensk framleiðslufyrirtæki auki samkeppnishæfni sína? 

Stefán: Það skiptir öllu máli, einnig að líta á þetta út frá víðara samhengi. Íslensk fyrirtæki eru í mikilli samkeppni við erlend fyrirtæki, hvort sem litið er til útflutnings á aðra markaði eða til innflutnings. Íslensk fyrirtæki verða að þróast og vera samkeppnishæf. Með því að leggja meiri áherslu á nýsköpun er verið að tryggja samkeppnisforskot. 

Gunnar: Í þessu samhengi er þá ekki ljóst að hlutverk hins opinbera er að ganga í takt, til að mynda með skattalegum hvötum og auknum fjármunum í samkeppnissjóði? 

Stefán: Eitt af því sem ákall er eftir eru auknir hvatar í skattkerfinu. Ef við horfum til að mynda til umhverfis- og loftslagsmála þá eru nágrannalöndin mörgum skrefum á undan okkur þegar kemur að nýsköpun. Norðmenn settu á stofn sjóð, Enova, fyrir tæpum 20 árum til að ýta áfram breytingum í umhverfisvænni orkunotkun. Þrátt fyrir góð áform stjórnvalda hér á landi, til að mynda með stofnun loftslagssjóðs, þá þarf að gera betur. Þær 500 milljónir sem eru til skiptanna í sjóðnum á næstu 5 árum til að styðja við nýsköpunarverkefni eru hvergi nærri nóg. Í þessu samhengi þá má ég til með að benda á að Coca Cola European Partners á Íslandi þurfti að fara í 400 milljóna króna fjárfestingu í vatnshreinsistöð fyrir allt okkar frárennsli. Í mörgum borgum nágrannalanda okkar eru slíkar vatnshreinsistöðvar á höndum sveitarfélaga. 

Gunnar: Það er því ljóst að hið opinbera verður að gefa betur í? 

Stefán: Það er engum blöðum um það að fletta að innviðir hér á landi eru lakari en víða. Ef við ætlum að framleiða íslenskar vörur þá verða innviðir að vera í lagi. Það er deginum ljósara að ef við horfum áfram til umhverfis- og loftslagsmála þá eru kröfurnar ekki að hverfa. Þær munu koma til okkar og mikilvægt að ekki verði brugðist við of seint. Vandamálið fyrir mörg framleiðslufyrirtæki er að það er enginn fjárhagslegur ávinningur þegar farið í fjárfestingar þrátt fyrir að það sé klárlega mikill ávinningur fyrir umhverfið. Þær kröfur sem neytendur hafa sett á oddinn eru að vörur séu heilnæmari, betri og umhverfisvænni. Ef fyrirtæki mæta ekki þessum kröfum þá snúa neytendur sér í aðrar áttir. Samkeppnishæfnin er því lykilatriði og er nýsköpun ein af meginstoðum þegar kemur að því að efla samkeppnisforskot. 

LJÓSMYND Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_