Fréttasafn



21. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpunaraðgerðir sem styðja fjármögnunarumhverfið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu á Iðnþingi 2020 að stærstu og mikilvægustu aðgerðirnar í nýsköpun beinist að tveimur markmiðum. Annars vegar því markmiði að styrkja fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja með Kríu, hvatasjóði til vísifjárfestinga og hins vegar aðgerð sem styrkir fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja sem eru rýmri heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í fjárfestingasjóðum og miðast heimildin nú við 35% hámarksfjárfestingu í hverjum sjóði í stað 20% áður. Hún sagði þessar tvær aðgerðir styðja hvor aðra í því að bæta fjármögnunarumhverfið til muna.

Hér fyrir neðan er ávarp ráðherra flutt á Iðnþingi 2020: 

Kæru gestir

Það er alltaf mikill heiður að fá að ávarpa Iðnþing. Að þessu sinni á þingið óvenjulega stórt erindi við okkur, á þeim óvissu- og umbrotatímum sem við erum að ganga í gegnum.

Ég vil nota tækifærið hér í upphafi til að óska Árna Sigurjónssyni til hamingju með kjör sitt til formanns samtakanna síðastliðið vor. Um leið og ég hlakka til áframhaldandi samvinnu við hann vil ég líka þakka Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrrverandi formanni fyrir gott og ánægjulegt samstarf á undanförnum árum, og fyrir hennar öfluga framlag í þágu íslensks iðnaðar.

Góðir gestir

Ég hef í tvígang á Iðnþingi minnst á þá óbilandi bjartsýni sem ríkti á Vesturlöndum í kringum aldamótin 1900, sem Stefan Zweig lýsir svo vel í bókinni Veröld sem var. Á þeim tíma trúðu flestir því að fátt annað væri fram undan en ljúfur friður og viðstöðulausar framfarir, sem myndu tryggja öllum gott og sífellt betra líf. Annað kom á daginn. Mannkynið átti í vændum tvær blóðugar heimsstyrjaldir á tiltölulega skömmum tíma.

Inntakið í þessum orðum mínum var spurningin: Liggur kannski eitthvað í loftinu í dag sem mun ógna grundvelli okkar? Eitthvað sem mun höggva að rótum lífsgæða okkar og lífskjara; jafnvel umbylta daglegu lífi okkar?

Ekki ætla ég að standa hér og halda því fram að ég hafi spáð fyrir um heimsfaraldur. Ýmsar áskoranir samtímans komu til greina sem slík framtíðar-ógn, til að mynda loftslagsbreytingar og fjórða iðnbyltingin. Fáum datt í hug að skæð veira væri handan við hornið, sem myndi valda hagkerfum heimsins meira efnahagstjóni en dæmi eru um á síðari áratugum, og setja daglegt líf almennings víðs vegar um heim í algjört uppnám mánuðum saman. Við vonum auðvitað að sú vá gangi yfir á sem skemmstum tíma, en ennþá sér ekki fyrir endann á skaðanum sem hún mun valda eða hvenær hún líður hjá.

Við Íslendingar eigum eins og aðrar þjóðir fullt í fangi með að ráða niðurlögum þessa vágests. Þó að við styðjumst við bestu þekkingu bjóða vísindin ekki upp á afdráttarlaus svör. Það er engin formúla til um hárrétt viðbrögð til að lágmarka skaðann.

En það er þó huggun harmi gegn að leiðin til að bæta skaðann og rísa aftur upp, er nákvæmlega sú sama og við höfum talað fyrir áður og verið sammála um. Sú leið er rauði þráðurinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, hún var inntakið í fyrri ávörpum mínum hér á þessum vettvangi, og hún er ein af grundvallar-áherslum Samtaka iðnaðarins og meginumfjöllunarefni okkar hér í dag. Sú leið er að sjálfsögðu nýsköpun.

Öll þekkjum við orðatiltækið: Það er óþarfi að finna upp hjólið.

Reyndar tókst sniðugum lögfræðingi í Ástralíu að fá einkarétt á hjólinu árið 2001 – eða því sem hann kallaði í einkaleyfisumsókn sinni: „hringlaga tæki til samgöngunota“. En þetta gerði hann bara í þeim tilgangi að sýna fram á að glænýtt sjálfvirkt einkaleyfakerfi stjórnvalda væri meingallað og auðvelt að svindla á því!

Ef við lítum fram hjá þessari skemmtilegu undantekningu eigum við alls ekki að finna upp hjólið. Við eigum ekki að strita við að leysa hluti sem er búið að leysa. Við eigum að nýta þær lausnir sem þegar hafa sannað sig. En þetta þýðir ekki að við getum lagt árar í bát. Við þurfum stöðugt að leitast við að finna upp nýja hluti – nýjar lausnir – næsta hjól. Sú viðleitni er lykillinn að verðmætasköpun. 

Efnahagsáfallið sem við göngum nú í gegnum hefur kannski þann kost, að það hefur sett verðmætasköpun aftur á dagskrá. Það væri auðvitað of djúpt í árinni tekið að segja að verðmætasköpun hafi einhvern tímann farið af dagskrá. En það blasir við að hin klassísku átök tuttugustu aldar um hagfræði og efnahagslíf – um hægri og vinstri – um frjálshyggju og félagshyggju – um hlutverk ríkisins í atvinnulífinu – þessi klassísku átök eru ekki eins hörð og áberandi og áður. Þau hafa að talsverðu leyti vikið til hliðar fyrir öðrum viðfangsefnum sem hafa knúið dyra og krafist athygli, umræðu og svara við nýjum spurningum – og það með réttu. Viðfangsefnum á borð við mannréttindi, jafnrétti, fjölmenningu, alþjóðahyggju, þjóðerni og landamæri, friðhelgi einkalífs, sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, persónuvernd, málfrelsi, umhverfismál og þannig mætti lengi telja.

Þetta eru allt mikilvæg viðfangsefni sem eiga að vera áfram á dagskrá. Samhliða þeim tel ég að við þurfum að skerpa aftur á umræðu um verðmætasköpun, og setja verðmætasköpun aftur rækilega á dagskrá. Að sjálfsögðu á forsendum nútímalegra sjónarmiða sem taka tillit til alls sem við höfum lært.

Það vill svo til að við vitum hvað þarf til að skapa efnahagsleg verðmæti í frjálsu samfélagi. Það þarf hugvit, það þarf einkaframtak, það þarf réttarríki, og það þarf frjáls viðskipti. Þetta eru þeir þættir sem verða að vera til staðar. Ef einhver þessara lykilþátta er ekki fyrir hendi er einfaldlega útilokað að hjól verðmætasköpunar og hjól atvinnulífsins geti snúist. Við þekkjum hvað þarf til.

Með öðrum orðum: Hjól atvinnulífsins eru hjól sem við þurfum ekki að finna upp.

En þrátt fyrir það er ekki öllum spurningum svarað um það hvernig við látum þessi hjól snúast með sem mestum afköstum; með sem mestum ávinningi; með sem mestum árangri fyrir markmið okkar.

Þetta var reyndar líka raunin með hjólið þegar það var fyrst fundið upp. Mönnum datt ekki strax í hug að setja það undir vagna og nýta það í samgöngur. Til þess þurfti viðbótar-hugvit og meiri vinnu. Það þurfti að smíða vagna. Og til að hægt væri að nota vagnana þurfti að leggja vegi. Þetta var slík áskorun að það var ekki endilega sjálfsagt að mönnum myndi hugkvæmast það – eða að þeir myndu einfaldlega leggja það á sig. Talið er að hjólið hafi í mörg hundruð ár eingöngu verið notað til leirkerasmíði fyrst eftir að það var fundið upp, fyrir meira en fimm þúsund árum. Menn settu það ekki undir vagna fyrr en löngu seinna. Og það tók einhver þúsund ár í viðbót áður en Grikkir fengu þá snjöllu hugmynd að setja það undir hjólbörur. Það var ekki nóg að finna upp hjólið. Það þurfti líka að finna bestu leiðirnar til að nýta það. Á nákvæmlega sama hátt er ekki endilega augljóst hvernig við virkjum best sköpunarkraft hugvits, einkaframtaks og frjálsra viðskipta til verðmætasköpunar.

Ein stærsta spurningin snýst um hlutverk ríkisvaldsins.

Við sem erum hægra megin í stjórnmálum höfum litið svo á að hlutverk ríkisvaldsins sé aðallega að leggja breiða og greiða vegi til að hjól verðmætasköpunar og atvinnulífs geti runnið greiðlega áfram, með sem minnstri mótstöðu. Þetta gerum við með því að tryggja athafnafrelsi, lágmarka skriffinnsku og skrifræði, og síðast en ekki síst með því að halda skattlagningu í hófi.

Við höfum þó líka viðurkennt að ríkið eigi að gera meira en bara að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. Ríkið eigi líka að glæða og örva gangverkið með beinum hætti og beinlínis ýta á eftir vagninum.

Þetta gerum við til dæmis með því að fjármagna menntakerfið, eina mikilvægustu grunnstoð hugvits, og með því að styðja við rannsóknir og þróun, bæði í gegnum háskóla, annað stuðningsumhverfi, samkeppnissjóði og með beinum endurgreiðslum á kostnaði fyrirtækja við rannsókna- og þróunarstarf. Í einstaka tilvikum beitum við ívilnunum eða ríkisstyrkjum til ákveðinna atvinnugreina, ef alveg sérstök rök mæla með því.

Á sama tíma og ég tel að þessi stuðningur geti verið skynsamlegur, þá eigum við líka alltaf að hafa augun á þeirri staðreynd, að áhrifin af miklum umsvifum ríkisins geta verið fljót að breytast úr því að glæða yfir í það að kæfa. 

Kæru gestir – nýsköpun var fyrirferðarmikil í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hún var þar ekki upp á punt, til skrauts, heldur höfum við látið verkin tala. Þegar ég stóð hér í fyrra nefndi ég að stutt væri í að við kynntum til sögunnar nýja og metnaðarfulla nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, framtíðarsýn um hvernig við vildum að „nýsköpunarlandið Ísland“ liti út. Stefnan var kynnt síðastliðið haust og nokkrar veigamiklar aðgerðir á grundvelli hennar eru nú þegar í höfn.

Stærstu og mikilvægustu aðgerðirnar beinast að tveimur markmiðum. Annars vegar því markmiði að styrkja fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja. Það hefur verið veikur hlekkur sem var mikilvægt að styrkja, og það höfum við gert með tvennum hætti.

Frumvarp um Kríu, hvatasjóð til vísifjárfestinga, varð að lögum í sumar. Sjóðurinn fær fjármagn þegar á þessu ári og meira á því næsta og árunum þar á eftir. Reynsla annarra þjóða sýnir að vísisjóðir hafa mikla þýðingu fyrir vöxt og viðgang hugvitsdrifinnar nýsköpunar. Reynslan sýnir líka að aðkoma hins opinbera hefur iðulega skipt sköpum við að koma slíku umhverfi á fót.

Tilgangur Kríu er ekki að leiða markaðinn heldur elta markaðinn, með því að leggja lóð á vogarskálarnar þar sem markaðurinn sjálfur vill vera. Það rímar vel við áherslur nýsköpunarstefnunnar, en stýrihópur hennar mælti ekki með að stjórnvöld beindu með afgerandi hætti fjármagni og stuðningi til tiltekinna atvinnugreina.

Ég hef sjálf oft lýst þeirri sömu skoðun, og bæði formaður og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins tóku í sama streng í ræðu hér í dag og áður í nýlegu viðtali, þar sem sagt var að stjórnvöld ættu ekki að „velja sigurvegara“.

Hin aðgerðin sem styrkir fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja eru rýmri heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í fjárfestingasjóðum. Hún varð að lögum í vor og miðast heimildin nú við 35 prósenta hámarks-fjárfestingu í hverjum sjóði í stað 20 prósenta áður.

Þessar tvær aðgerðir styðja hvor aðra í því að bæta fjármögnunarumhverfið til muna.

Hitt stóra markmiðið var að efla rannsóknar- og þróunarstarf, og þar höfum við líka náð fram tveimur mikilvægum aðgerðum.

Ákveðið hefur verið að hækka hlutfall endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar úr 20 prósentum upp í allt að 35 prósent, og hækka þak á greiðslur til einstakra aðila úr 600 milljónum upp í allt að ellefu hundruð milljónir.

Í öðru lagi hefur Tækniþróunarsjóður verið efldur um 700 milljónir króna og afgreiðsluferli umsókna stytt. Það er í samræmi við nýja þriggja ára stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem var kynnt í upphafi þessa mánaðar. Hún felur í sér tíu aðgerðir til að efla vísindi og nýsköpun, meðal annars að fjármagn í samkeppnissjóði aukist um 50% strax á næsta ári samanborið við fjárlög þessa árs.

Margt fleira er í farvatninu.

Vegna kórónuveirufaraldursins ákváðum við að stofna tímabundið úrræði, „Stuðnings-Kríu“, til að liðka fyrir sprotafyrirtækjum sem lentu í því að fjármögnun þeirra fór í uppnám vegna faraldursins.

Við erum að vinna að því að einfalda umsóknarferli um atvinnuleyfi fyrir sérfræðinga utan EES, sem er mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið, ekki síst nýsköpunarumhverfið, og felur í sér dýrmæt sóknarfæri fyrir okkur. Vinna við þetta er í fullum gangi í samvinnu nokkurra ráðuneyta og ég tel töluverðar líkur á því að við getum stigið þýðingarmikil skref í þessa átt tiltölulega hratt.

Hið opinbera er síður en svo undanskilið þegar kemur að vægi nýsköpunar og því kynntum við í mars síðastliðnum aðgerðaáætlun um nýsköpun hjá hinu opinbera.

Þá var nýlega tilkynnt um fjárfestingarátak um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu, í samvinnu opinberra aðila og einkaaðila.

Eins og ég nefndi hér að framan er eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins að fjarlægja óþarfa hindranir í vegi framtaks og framfara. Stórt verkefni á þessu sviði er samstarf stjórnvalda við OECD um að greina samkeppnishindranir á tveimur sviðum: ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Hið síðarnefnda getur auðvitað haft mikla þýðingu fyrir framboð á nýbyggingum og vísbendingar eru um að við þurfum vissulega að taka til hendinni í því regluverki. Niðurstöður úr þessari vinnu verða kynntar í lok þessa mánaðar.

Annað stórt verkefni sem nú er unnið að í ráðuneytinu er endurskipulagning á verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar, sem felur í sér að hún verði lögð niður. Sum verkefni hennar verða aflögð en önnur fá nýtt heimili til að straumlínulaga stjórnkerfið, til að mynda byggingarannsóknir.

Það gerist ekki nógu oft að við endurhugsum stofnanakerfi hins opinbera og gera eitthvað í því. Verkefni breytast, áherslur breytast, ný verkefni koma á borðið. Þá verðum við að geta horft á það sem fyrir er og spurt: Getum við gert þetta öðruvísi? Er forgangsröðunin skýr? Á hún eins vel við og áður? Ef slík hugsun á einhvers staðar vel við þá hlýtur það að vera á málefnasviði nýsköpunar.

Við Íslendingar eigum mörg spennandi tækifæri á ýmsum sviðum. Það er oft sagt að vöxturinn muni kannski síst koma frá greinum sem byggja á takmörkuðum auðlindum, eins og sjávarútvegi og orkuframleiðslu, en þar eru þó líka tækifæri. Og með hugviti í bland við takmörkuðu auðlindirnar eru mikil tækifæri til að gera meira úr því sama.

Fyrsta langtíma-orkustefnan fyrir Ísland verður kynnt á næstu dögum. Það eru mikil tímamót. Stefnan er unnin í þverpólitísku samráði, hún er framsýn og skýr, með tólf höfuðmarkmið, og einkennist af jafnvægi sem ég tel að geti orðið langlíft, óháð því hvaða ríkisstjórn situr í landinu hverju sinni. Við höfum aldrei fyrr klárað það verk að setja okkur orkustefnu fyrir Ísland. Heiti hennar er „Sjálfbær orkuframtíð til 2050“ þannig að hér er verið að horfa til langs tíma.

Í fyrra stóð ég hér og nefndi að nýsköpunarstefna væri væntanleg og aðgerðir á grundvelli hennar. Það hefur gengið eftir og ég hef jafnmiklar væntingar til orkustefnunnar. Á grundvelli hennar munum við ráðast í aðgerðir sem skipta máli.

Sumar eru raunar langt komnar nú þegar. Ég vil hér vekja sérstaka athygli á því að í þessari viku var sett í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um einföldun leyfisveitinga vegna framkvæmda við raflínur. Þar er tekið á stóru vandamáli í uppbyggingu raforkukerfis okkar, sem er svo sannarlega tímabært.

Nýlega birtum við skýrslu og tillögur um hvernig tryggja megi framboð á raforku til almennings og fyrirtækja sem ekki eru stórnotendur. Í dag ber enginn ábyrgð á orkuframboði til almenna markaðarins. Það er að mínu mati óviðunandi staða og í skýrslunni eru lagðar til nokkrar áhugaverðar leiðir til að bæta úr þessu.

Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að gefa grænt ljós á þriðja gagna-sæstreng Farice. Aukið öryggi sem felst í slíkum streng ætti að gera Ísland að enn álitlegri kosti fyrir gagnaver. Gagnaver eru auðvitað spennandi kostur sem raforkukaupendur. Samkvæmt greiningu sem Samtök iðnaðarins létu vinna fyrir tveimur árum telja stóru gagnaversfyrirtækin að Ísland sé ágætlega samkeppnishæft nema einna helst hvað varðar gagnatengingar, ekki síst verð fyrir gagnaflutninga, sem helgast að einhverju leyti af þeim miklu vegalengdum sem lega landsins felur í sér. Þetta gefur vísbendingu um að við gætum af þessum sökum átt á brattann að sækja með að laða til okkar gagnaver sem reiða sig á mikla gagnaflutninga, fremur en mikla reiknigetu. Viðskipti við stórt gagnaver gætu þó gert okkur kleift að lækka gagnaflutnings-verð, þannig að þetta er að einhverju leyti klassíska spurningin um eggið og hænuna.

Ljóst er að í það minnsta sum stór gagnavers-verkefni á hinum Norðurlöndunum hafa fengið ríkisstyrki sem skipta milljörðum, sem er vissulega vafamál hvort við getum eða hreinlega viljum keppa við. – Það myndi ekki ríma vel við þá stefnu að velja ekki sigurvegara.

En við gerum það þó vissulega í sumum tilvikum. Dæmi um það eru endurgreiðslur á einum fjórða af framleiðslukostnaði kvikmynda og sjónvarpsþátta. Þær endurgreiðslur hafa verið eftirsóttar af erlendum framleiðendum, svo mjög reyndar að áætlaðar endurgreiðslur þessa árs nema hátt í þremur milljörðum, sem sprengdi fjárheimildir okkar margfalt. Ég beitti mér fyrir því að það sem upp á vantaði yrði fjármagnað, af því að ég tel að kerfið eigi rétt á sér. En ég leyfi mér að segja að ég hef efasemdir um að við eigum að hækka styrkhlutfallið frekar. Í fyrsta lagi vegna þess að kerfið er alþjóðlega samkeppnishæft nú þegar, og í öðru lagi vegna þess að ég hef almennt séð efasemdir um mikinn ríkisstuðning við atvinnustarfsemi.

Við sjáum vaxandi þróun í átt til aukins ríkisstuðnings, sem setja má spurningarmerki við. Styrkjakerfi kvikmynda hefur nú þegar verið innleitt í útgáfu á tónlist og nú síðast í bókaútgáfu, og fjölmiðlar eru líka komnir á styrki. Endurgreiðslur á kostnaði fyrirtækja við rannsóknir og þróun eru mjög viðamiklar og vaxandi. Mér finnst ég heyra of margar raddir úr atvinnulífinu um sífellt meiri ríkisstuðning, og ég hlýt að spyrja mig hvert þessi þróun muni leiða.

Ég vil taka Covid-aðgerðir út fyrir sviga í þessu sambandi, því að þar er um að ræða fordæmalaust slökkvistarf sem miðar að því að koma í veg fyrir algjörlega sviðna jörð. Það er björgunarstarf.

En að því slepptu er full ástæða til að spyrja hvort við séum að stefna í þá átt að áhersla ríkisins verði í of miklum mæli á að ýta vagninum, fremur en að taka hindranir úr veginum.

Kæru gestir, ég nýt þeirra forréttinda að fá að heimsækja ótal frumkvöðla í stórum og smáum fyrirtækjum bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt um landið. Það bregst ekki að í hverri heimsókn fyllist ég aðdáun á hugvitsseminni, metnaðinum og þrautseigjunni sem einkennir íslenskt athafnafólk á öllum sviðum. Ég fyllist bjartsýni fyrir hönd Íslands. Og ég eflist í þeim ásetningi mínum að greiða götu frumkvöðla og fyrirtækja, sem eru með viðleitni sinni ekki aðeins að vinna að eigin hag heldur að framtíð þjóðarinnar, bættum lífskjörum okkar allra og aukinni velferð.

Ég vil þakka Samtökum iðnaðarins fyrir öflugt og ötult starf í þágu nýsköpunar og verðmætasköpunar á Íslandi. Ég hlakka til að halda áfram samvinnu við ykkur um að skapa úr þeirri veröld sem er, ennþá betri veröld sem verður.

Radherra3Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á ávarp ráðherra: