Fréttasafn28. apr. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Nýsköpunaraðgerðir stjórnvalda skapa von um bjartari tíma

Bjart framundan í nýsköpun á Íslandi er yfirskrift greinar sem Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Marel, Finnur Oddsson, forstjóri Origo, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, skrifa og birt er í Fréttablaðinu í dag þar sem þau fagna þeim áherslum og aðgerðum sem boðaðar voru til að efla nýsköpunarumhverfið hér á landi, þær skapi von um bjartari tíma. Í greininni segja þau að þegar stjórnvöld tilkynntu frekari aðgerðir vegna þeirra áfalla sem COVID-19 hefur leitt yfir heimsbyggðina og hagkerfið hafi verið sleginn nýr tónn, viðspyrna var tilkynnt og þrátt fyrir að stjórnvöld væru skýr um að áfallið yrði mikið og enn væri langt í land þá hafi verið lögð áhersla á mikilvægi þess að ráðast einnig í sókn. 

Hvetja stjórnvöld til enn frekari dáða 

Í greininni segir að ummæli fjármálaráðherra um Ísland 2.0 fyrir skömmu ásamt þeim aðgerðum sem boðaðar hafi verið beri þess merki að til standi að skapa forsendur fyrir öflugri efnahagslegri viðspyrnu á grundvelli hugvits og þekkingar. Í raun megi segja að hækkun þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar, ásamt hækkun hlutfalls endurgreiðslu, sé vísir að því, að því glerþaki sem hefur verið á nýsköpun verði lyft. Þau hvetja stjórnvöld og Alþingi til enn frekari dáða í þessum efnum. 

Hækkun á endurgreiðslu R&Þ hvetji fyrirtæki til að halda starfsfólki í vinnu

Þá segir í greininni að með endugreiðslum á útgjöldum fyrirtækja til rannsókna og þróunar sé hvatt til fjárfestingar í nýsköpun. Sú fjárfesting sé hagkvæm fyrir þjóðarbúið í heild sinni þar sem hún skapi sérfræði- og þekkingarstörf og leiði til verðmætasköpunar. Sú hækkun sem boðuð hafi verið hvetji þannig til fjárfestinga í arðsömum verkefnum og þar með fyrirtæki til að halda starfsfólki í vinnu á tímum samdráttar. Hafa beri í huga að meirihluti kostnaðar vegna rannsókna- og þróunar séu laun sérfræðinga. 

Auka líkur á að hér byggist upp fleiri burðug hugverkafyrirtæki

Greinarhöfundar segja að þó Marel, Össur, CCP og Origo séu gjörólík eigi fyrirtækin það sameiginlegt að hafa verið byggð upp á hugviti, sem sé jafnframt þeirra helsta auðlind. Aðgerðir stjórnvalda nú skapi rétta hvata og auki líkurnar á því að hér á landi byggist upp fleiri burðug hugverkafyrirtæki, með tilheyrandi fjölgun starfa og verðmætasköpun. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu fjárfesting í fólki, hugviti og þekkingu og öflug virkjun á sköpunarkrafti Íslendinga sem hafi svo oft reynst vel á erfiðum tímum. 

Aðgerðirnar munu leiða til nýrra verkefna á Íslandi

Í niðurlagi greinarinnar kemur fram að aðgerðirnar komi til með að gera íslenska hagkerfið samkeppnishæfara á alþjóðavettvangi en það sem skipti þó líklega mestu máli sé að hvatarnir sem aðgerðirnar mynda munu leiða til nýrra verkefna á Íslandi, nýrra fyrirtækja, nýrra starfa, aukinnar fjárfestingar og meiri gjaldeyristekna til framtíðar. Það sé því bjart fram undan í nýsköpun á Íslandi. Um það séu þau sannfærð.

Fréttablaðið, 28. apríl 2020.