Fréttasafn



12. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýsköpunaráherslur stjórnvalda til hagsbóta fyrir sprotafyrirtæki

Margret-Juliana-SigurdardottirÞað var mikið ánægjuefni að sjá nýsköpunráherslur í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var á dögunum. Þeim aðgerðum er ætlað að greiða leið fjármagns inn í nýsköpunarumhverfið sem yrði til mik­illa hagsbóta fyrir sprotafyrirtæki í hugverka- og hátækniiðnaði en mörg þeirra standa þessa dagana frammi fyrir alvarlegu stoppi í fjármögnun. Þetta segir Margrét Júlíana Sigurðardóttir í grein sinni á Kjarnanum, Horft til framtíðar – Hugverka og hátækniiðnaður í ljósaskiptum. Margrét Júlíana er stofnandi Mussila og situr í Hugverkaráði SI og IGI, Samtökum leikjaframleiðenda hjá Samtökum iðnaðarins. 

Hún segir í grein sinni að rétt eins og að veiran fari ekki í manngreinarálit ráðist örlög sprotafyrirtækjanna í þessum aðstæðum ekki af þeim tækifærum sem þau standi fyrir heldur ráði hér sú einfalda staðreynd hvort þau hafi náð að ljúka fjármögnun áður en heimsfaraldurinn skall á eða hvort stjórnendur þeirra hafi ætlað sér að hefja slíka fjármögnun síðar á árinu. Það að efnileg sprotafyrirtæki falli í valinn sé samfélaginu dýrkeypt. Fyrirtæki í hugverka- og hátækniiðnaði geti skapað gífurlegar tekjur en þróunarkostnaðurinn sé sömuleiðis mikill og þar með fyrstu vaxta­stig þessara fyrirtækja. Þá sé ótalinn fórnarkostnaður nýsköpunar en fyrir hvert sprotafyrirtæki í vexti hafi fjöl­mörg önnur verið fjármögnuð sem komust ekki á legg.

Lífeyrissjóðum gert skylt að fjárfesta í nýsköpun

Þá skrifar Margrét Júlíana að meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru sé aukið svigrúm lífeyrissjóðanna til fjárfestingar í vaxtasjóðum. Hér beri að hafa í huga að megnið af íslensku fjármagni sitji í lífeyrissjóðunum. Regluverk þeirra hafi hingað til mun fremur leitt til íhaldssamra fjárfestinga sem geti verið af hinu góða en nú sé beinlínis nauðsynlegt fyrir þjóðarhag að skipta um kúrs. „Aukið svigrúm lífeyrissjóðanna getur þannig haft mikið að segja en hætta er á að svigrúmið eitt dugi ekki til og biðin eftir fjármagni verði mörgum sprotafyrirtækjum að falli. Því ríður á að stjórnvöld stígi skrefinu lengra og lífeyrissjóðum verði gert skylt að setja 10-15% af sinni fjárfestingu í vaxtasjóði nýsköpunar. Slík breyting myndi auka verulega líkurnar á því að þau sprotafyrirtæki sem starfa í hugverka- og hátækniiðnaði verði að því sem þeim var ætlað. Oft vantar aðeins herslumuninn á en þeim mun fleiri þeirra sem komast í gegnum þennan heimsfaraldur og ná flugi, þeim mun meiri líkur eru á að við munum á næstu árum, fremur en næstu áratugum, eiga hér á landi öflugt og atvinnuskapandi samfélag byggt á hugviti og þekkingu til framtíðar.“

Á vef Kjarnans er hægt að lesa greinina í heild sinni.