Fréttasafn



23. apr. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýsköpunarárið 2020 líklega metár í fjárfestingum í nýsköpun

Í nýrri greiningu SI um fjárfestingar í nýsköpun leiða Samtök iðnaðarins að því líkum að á síðasta ári hafi náðst markmið um að fjárfestingar í rannsóknum og þróun hafi verið 3% af landsframleiðslu. Í greiningunni kemur fram að hugverkaiðnaður sé í sókn og margt bendi til þess að þriðji áratugur aldarinnar verði áratugur nýsköpunar. Hugvitið sé okkar vermætasta auðlind og með því að virkja hana í meiri mæli verði til ný, eftirsótt störf og aukin verðmæti. 

Þar segir að vísbendingar séu um að fjárfestingar í nýsköpun hafi aukist talsvert árið 2020 en með því séu fyrirtæki landsins og fjárfestar að fjárfesta í hagvexti framtíðar og styrkja hugverkaiðnað, fjórðu stoð útflutnings, enn frekar í sessi. Mörg ríki heims hafi sett sér markmið í þessum efnum og er þar gjarnan horft til fjárfestinga í rannsóknum og þróun (R&Þ) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, enda sé það skýr mælikvarði á stig nýsköpunar í hagkerfinu. Algengt sé að þjóðir setji sér markmið um að það hlutfall sé 3% og var það svo í stefnu og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2017-2019. Fjárfesting í R&Þ nam 2,35% af landsframleiðslu árið 2019 og Samtök iðnaðarins leiða líkum að því að 3% markmiðinu hafi verið náð árið 2020. Þessu til viðbótar komi fjárfestingar í sprotafyrirtækjum en þær námu að minnsta kosti um 30 milljörðum króna árið 2020 sem síni áhuga fjárfesta á íslenskum sprotum.

Aukinn áhugi lífeyrissjóða og fleiri vísisjóðir

Í greiningunni er einnig fjallað um aukinn áhugi fjárfesta á nýsköpun og hugverkaiðnaði. Lífeyrissjóðir hafi sýnt því áhuga að fjárfesta á þeim vettvangi enda þjóni það langtímahagsmunum sjóðfélaga um framtíðarhagvöxt. Einnig er sagt frá því að rekstraraðilum vísisjóða fjölgi og reynsla á sviði fjárfestinga í nýsköpun og hugverkaiðnaði sé að byggjast upp. Líklegt sé að fimm slíkir sjóðir verði stofnaðir á þessu ári með fjárfestingagetu upp á um 40 milljarða króna.

Hvatar vegna endurgreiðslu R&Þ virka vel

Í greiningunni segir að frá árinu 2009 hafi stjórnvöld hvatt til fjárfestinga í R&Þ með efnahagslegum hvötum sem felist í að greiða fyrirtækjum hluta af fjárfestingum sínum í R&Þ. Þetta fyrirkomulag sé að erlendri fyrirmynd og þekkist víða. Kostir þessa séu að markaðurinn velur verkefni en ekki ríkið og megi ætla að fyrirtæki fjárfesti í þeim verkefnum sem skili þeim mestum framtíðarávinningi. Á síðasta áratug hafi þessir hvatar verið auknir á Íslandi, bæði með auknu endurgreiðsluhlutfalli og með hærra þaki á endurgreiðslur. Algjör bylting hafi orðið á síðustu tveimur árum en þakið hafi nær fjórfaldast og endurgreiðsluhlutfallið farið úr 20% í allt að 35%. Þá segir að metfjárfestingar í R&Þ árið 2019 sýni svart á hvítu að þessir hvatar virki vel og þjóna því markmiði að auka fjárfestingar í R&Þ – og þar með í nýsköpun og hagvexti framtíðar með því að styðja vöxt nýrrar útflutningsstoðar ásamt því að efla þær sem fyrir séu.

Utgjold-til-rannsoknar-og-throunarstarfs

*Mat SI. Hagstofan mun birta rauntölur árið 2022.

 

Hér er hægt að nálgast greininguna.

Viðskiptablaðið, 23. apríl 2021.