Fréttasafn



3. jún. 2016 Nýsköpun

Nýsköpunarfrumvarp samþykkt á Alþingi

Samtök iðnaðarins fagna því að nýsköpunarfrumvarp fjármálaráðherra var samþykkt á Alþingi í gær en frumvarpið felur í sér breytingar á lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir umbæturnar sem felast í þessum nýju lögum mikið framfaraskref. „Breytingarnar fela í sér verulegar umbætur í þá átt að bæta starfsskilyrði nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi í samanburði við samkeppnislönd okkar. Lögin taka á mikilvægum stefnumálum sem hafa vegið þungt í forgangsröðun starfsgreinahópa fyrirtækja í tækni- og hugverkagreinum innan Samtaka iðnaðarins.  Það er því sérstakt fagnaðarefni að frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust með stuðningi fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Þá er það til fyrirmyndar að efnahags- og viðskiptanefnd sem fór með málið í þinginu gerði ýmsar lagfæringar á frumvarpinu í samræmi við umsögn samtakanna í þingmeðferðinni, m.a. var tekið tillit til þess að auka sveigjanleika varðandi aldur fyrirtækja, lágmarksfjárhæð fjárfestinga var hækkuð og frádráttarhlutfall fjárfestinga í hlutabréfum var hækkað.“

Almar segir að Samtök iðnaðarins hafi vissulega lagt til ýmsar mikilvægar umbætur á frumvarpinu sem ekki náðust í gegn að þessu sinni og þurfi þær að bíða betri tíma. „Við hefðum viljað sjá að þök væru aflétt og endurgreiðsluhlutfall kostnaðar vegna rannsókna- og þróunarverkefna væri hækkað. Einnig vildum við gera starfsmönnum og tengdum aðilum kleift að nýta heimildir varðandi skattalega hvata til hlutabréfakaupa. Þá fannst okkur mikilvægt að heimildir væru rýmkaðar varðandi stærð, starfsmannafjölda og starfsgreinar þeirra fyrirtækja sem mega nýta heimildir varðandi skattalega hvata við hlutafjárútboð. En jafnvel þó ekki hafi tekist að ná öllu fram er mikilvægt að horfa til þess að núna er hægt að taka til við að innleiða lögin og síðan að vinna að frekari umbótum við fyrsta tækifæri.”