Fréttasafn



1. júl. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi

Nýta tæknilausn CRI til að búa til rafmetanól

Íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International, CRI, og samstarfsaðilar hafa nú formlega lokið MefCO2 rannsóknarverkefni sem staðið hefur yfir frá árinu 2015. Í verkefninu, sem að hluta til var fjármagnað af Nýsköpunar- og rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, var tilraunaverksmiðja sem byggir á ETL tæknilausn CRI (Emissions-to-Liquids) reist við orkuver RWE nærri Köln í Þýskalandi. Með rekstri verksmiðjunnar á síðastliðnu ári var sýnt fram á að nýta má tæknilausn CRI til að umbreyta vind- og sólarorku ásamt fönguðum koltvísýringi jafnóðum yfir á fljótandi form. Afurðin nefnist þá rafmetanól eða e-methanol sem auðvelt er að geyma, flytja og nýta með margvíslegum hætti. 

CRI sem er meðal aðildarfyrirtækja SI hefur byggt og starfrækt í Svartsengi, Grindavík, einu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum þar sem koltvísýringi og vetni rafgreint úr vatni með grænni orku er umbreytt í endurnýjanlegt eldsneyti fyrir bíla eða skip og umhverfisvænt hráefni fyrir efnaiðnað. 

Nýting vind- og sólarorku til raforkuframleiðslu hefur vaxið verulega

Í fréttatilkynningu frá CRI segir að nýting vind- og sólarorku til raforkuframleiðslu hafi vaxið verulega undanfarin ár. Þessi þróun sé drifin áfram af verulegri lækkun framleiðslukostnaðar auk skuldbindinga Evrópuríkja um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Þar sem slík raforkuframleiðsla sé í eðli sínu sveiflukennd sé ein helsta áskorunin að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Flutnings- og dreifikerfi séu illa í stakk búin til að mæta auknum sveiflum í framleiðslu og því færist í aukana að stöðva þurfi raforkuframleiðslu og raforkuverð á heildsölumarkaði falli jafnvel niður fyrir núll. Áframhaldandi aukin innleiðing endurnýjanlegrar orku sé þannig háð lausnum sem geta jafnað orkuframboð og gera geymslu og nýtingu umframorku mögulega. 

Í fyrsta sinn sem orkugeymsla af þessu tagi hefur verið framkvæmd á iðnaðarskala

Þá kemur fram að CRI hafi í yfir áratug verið leiðandi að þróa tækni til hagnýtingar koltvísýrings og grænnar orku í iðnaði. Tæknilausn fyrirtækisins byggi á að umbreyta koltvísýringi og vetni, sem framleitt sé með raforku, í metanól. MefCO2 verkefnið hafi sýnt að aðlaga megi framleiðsluna með sjálfvirkum hætti að sveiflukenndu framboði raforku og þetta sé í fyrsta sinn sem slík orkugeymsla hafi verið framkvæmd á iðnaðarskala.

Opnar fyrir frekari tækifæri til að nýta tæknina

Ennfremur segir í tilkynningunni að niðurstöður óháðra matsaðila á vegum Evrópusambandsins séu þær að verkefnið hafi aukið skilning á orkugeymslu í efnaformi og opni fyrir frekari tækifæri til nýtingar á tækninni á stærri skala. Í kjölfar þess hafi framkvæmdastjórn ESB útnefnt fyrirtækið sem Lykilfrumkvöðul (e. Key Innovator) vegna framlags þess í verkefninu. CRI sé þar með fyrst íslenskra fyrirtækja að hljóta slíka viðurkenningu en áður hafi Háskóli Íslands komist á listann. Haft er eftir Ingólfi Guðmundssyni, forstjóri CRI, að umbreyting umframorku í rafeldsneyti eins og metanól sem auðvelt sé að geyma og flytja með innviðum sem þegar séu til staðar sé ein lykilforsenda áframhaldandi vaxtar framleiðslu á grænni raforku. „Jákvæðar niðurstöður MefCO2 verkefnisins eru mikilvæg staðfesting á leiðandi stöðu CRI á sviði rafeldsneytis og endurnýtingu koltvísýrings.“

Myndin hér fyrir ofan er tekin frá uppsetningu á tilraunaverksmiðju CRI í Þýskalandi.