Fréttasafn



26. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýtir þorskroð svo ekki komi til aflimunar

GUÐMUNDUR FERTRAM SIGURJÓNSSON, forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis sem sérhæfir sig í meðferðum við sárum, segir áhugann á sárum hafa kviknað þegar hann starfaði hjá Össuri á Íslandi, eftir að hafa lært verkfræði í Danmörku.

Það má segja að í Kerecis komi saman reynslan frá öllum þessum skemmtilegu verkefnum sem og reynsla og áhugi á því að byggja upp fyrirtæki með nýja tækni á markaði þar sem mikil þörf er fyrir nýjar lausnir.

„Margir halda að viðskiptavinir Össurar séu ungt fólk sem lendir í bílslysum eða slasast í hernaði. Það er rangt. Langflestir viðskiptavinir eru gamalt fólk sem þjáist af sykursýki, offitu og æðasjúkdómum. Háræðar í fótum sykursjúkra deyja, þá deyja taugarnar og fólk verður tilfinningalaust í fótunum. Tilfinningaleysið í fótunum leiðir svo til þess að fólk rekur sig frekar í og þannig verða til smá skeinur sem svo vaxa upp í stór sár vegna skerts blóðflæðis. Stundum stækka þessi sár þannig að þau ná inn að beinum og liðböndum og þá er eina úrræðið oft að aflima fólk. Og þá verða menn viðskiptavinir Össurar. Áhugi minn á því að stöðva þetta ferli og þróa betri úrræði fyrir stór sár vaknaði þegar ég sá hvernig var í pottinn búinn,“ útskýrir Guðmundur, en afurð Kerecis er affrumað þorskroð sem fellur til við roðflettingu á þorskflökum og inniheldur meðal annars ómega -3 fitusýrur. Roðið hefur mikinn lækningamátt, en það örvar svokallaðan frumuinnvöxt. Roðið er m.a. selt til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum. 

Markmið okkar er að vera kominn með 5% markaðshlutdeild eftir tvö ár og til að ná því þá þurfum við að vel rúmlega tvöfalda söluna okkar árlega. Það lítur allt út fyrir að það muni ganga upp.

Frumkvöðull alla tíð 

Guðmundur hefur allan starfsferilinn verið viðriðinn nýsköpun. Hann lærði verkfræði í Danmörku og segir að alla tíð hafi í honum blundað frumkvöðull. „Samhliða náminu í Danmörku og eftir að ég lauk námi rak ég fyrirtæki þar og þegar ég kom heim fór ég til Össurar. Þar var ég svo heppinn að fá að kynnast lækningavöruiðnaðinum og kynnast virðisaukakeðjunni sem Össur starfar í. Allt frá sjúklingum til vöruþróunar, framleiðslu og sölu.“ 

Frá Össuri lá leið Guðmundar til liðs við framleiðslufyrirtæki á Nýja-Sjálandi sem framleiddi prótein úr ull sem selt var sem íblöndunarefni í snyrtivörur. Fyrirtækið hafði þróað nýja tækni í sára- og bæklunarlækningum. „Þar var mér falið að klára vöruþróunina og finna samstarfsaðila i lækningavörugeiranum til að markaðssetja tæknina. Ég varð síðar ábyrgur fyrir allri alþjóðlegri sölu fyrirtækisins sem var einkum í Asíu.“ 

Frá Nýja Sjálandi flutti hann enn búferlum, þá aftur heim, til þess að taka þátt í nýsköpun. „Í kringum efnahagsáfallið árið 2008 var ég að vinna í afskaplega skemmtilegum nýsköpunarverkefnum tengdum íslenskri jarðhitatækni og hagnýtingu hennar í Flippseyjum, Indónesíu og Kína. En þar reynist mér þekkingin á Asíu frá ný -sjálenska fyrirtækinu einkar vel.“ 

En það var svo árið 2010 sem hugmyndin kviknaði um að nota þorskroð til að lækna sár í stað líkhúðar sem var og er enn talsvert notuð. Ég var svo heppinn þá að fá strax til liðs við mig Baldur Tuma Baldursson, húðlækni og fyrrverandi vinnufélaga minn frá Össuri, og Hilmar Kjartansson, bráðalækni, sem ég hafði kynnst á Nýja-Sjálandi þar sem hann var í sérfræðinámi,“ segir Guðmundur og heldur áfram. 

„Það má segja að í Kerecis komi saman reynslan frá öllum þessum skemmtilegu verkefnum sem og reynsla og áhugi á því að byggja upp fyrirtæki með nýja tækni á markaði þar sem mikil þörf er fyrir nýjar lausnir,“ útskýrir hann, en aflimunum vegna sykursýki, offitu og æðasjúkdóma fer ört fjölgandi í heiminum. 

Gudmundur-Fertram-Sigurjonsson2

Þorskroðið hafi mikla yfirburði 

„Það tók okkur fimm ár að fá markaðsleyfi fyrir þorskroðið frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna og í Evrópu. Hluti af því ferli voru stórar blindar samanburðarrannsóknir sem sýndu fram á lækningarmátt þorskroðsins samanborið við líkhúð úr spendýrum. Í fyrra birtum við svo samanburðarrannsókn á þorskroðinu og húðlíki úr mannsvef. Báðar rannsóknirnar sýndu fram á yfirburði þorsksins. En Kerecis er ekki lengur rannsóknarfyrirtæki, heldur sölu - og markaðsfyrirtæki. Tilgangur rannsókna sem við gerum er ekki lengur að afla markaðsleyfa, heldur að búa til gögn sem auka kaup sjúkrahúsa á vörum okkar og greiðslur sjúkratrygginga á þeim. Rannsóknarniðurstöður eru okkar markaðsefni. Við erum að vinna að fjölmörgum rannsóknum sem við ýmist fjármögnum sjálf eða í samvinnu við samstarfaðila eins og bandaríska herinn, Evrópusambandið og Tækniþróunarsjóð,“ útskýrir hann. „Tækniþróunarsjóður hefur frá upphafi verið okkur afskaplega mikilvægur og í raun honum að þakka ásamt Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins að svona vel hefur tekist að ýta rekstri Kerecis úr vör.“ 

Lagarammi um lækningavörur er flókinn en vel skilgreindur og við höfum frá upphafi búið að góðum starfsmönnum á þessu sviði.

Markmiðið að stórauka sölu 

Um 120 einstaklingar starfa hjá fyrirtækinu í dag, á Íslandi, í Bandaríkjunum, Sviss og Þýskalandi. Framleiðslan og gæðaeftirlit fer fram á Ísafirði, en rannsóknir og þróun í Reykjavík. Sölu - og markaðsstarf er svo rekið út frá skrifstofu okkar á Washington D.C. svæðinu fyrir Bandaríkin og Zürich fyrir Evrópu og Asíu. Tekjur fyrirtækisins fara ört vaxandi og voru tekjur fyrstu þriggja mánaða ársins til dæmis meira en tvisvar sinnum hærri en á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Fyrirtækið hefur um 2% markaðshlutdeild, á markaði sem vex um 20–25% á ári. Tekjur ársins í ár verða hátt í 3 milljarðar króna. „Markmið okkar er að vera kominn með 5% markaðshlutdeild eftir tvö ár og til að ná því þá þurfum við að vel rúmlega tvöfalda söluna okkar árlega. Það lítur allt út fyrir að það muni ganga upp,“ segir Guðmundur, en stærstu viðskiptavinir félagsins eru bandarískar sjúkrahúskeðjur. 

Hvernig hefur Kerecis glímt við þær flóknu reglur sem lækningarvörur þurfa að standast? Var það dýr og tímafrekur hluti af þróunarstarfinu? „Við höfum varið um 25 milljónum Bandaríkjadala í uppbyggingu fyrirtækisins frá stofnun sem er auðvitað dágóð upphæð. Þessari upphæð hefur verið varið í vöruþróun og rannsóknir til að uppfylla lög um lækningavörur og svo í sölu- og markaðsstarf. Lagarammi um lækningavörur er flókinn en vel skilgreindur og við höfum frá upphafi búið að góðum starfsmönnum á þessu sviði,“ segir Guðmundur og nefnir sérstaklega Dóru Hlín Gísladóttur sem hefur verið lykilstarfsmaður fyrirtækisins frá upphafi og Ástu Sverrisdóttur gæðastjóra. „Þær tvær hafa gegnt lykilhlutverki í að koma okkur í gegnum reglugerðaskóginn.“

Nýsköpunarstefna stjórnvalda framsýn

Guðmundur segir þá umgjörð sem íslensk stjórnvöld hafa búið íslenskri nýsköpun allt frá efnahagsáfallinu 2008 hafa verið afskaplega framsýna og góða. „Og hefur gagnast okkur vel. Endurbæturnar sem eru í nýrri stefnu ríkisstjórnarinnar um nýsköpun eru eðlilegt framhald og það verður gott að sjá meira fjármagn í fjárfestingarsjóðum tengdum nýsköpunarfyrirtækjum í framtíðinni. Veikleikinn í íslenska kerfinu hefur verið tengdur lengra komnum nýsköpunarfyrirtækjum en ekki þeim sem eru á tækniþróunarstigi. Lengra komin fyrirtæki þurfa aðgang að talsverðu fjármagni til að þróa sölu - og markaðsstarf og nýi fjárfestingarsjóðurinn á því stigi er mikilvægur.“

Að sögn Guðmundar vinnur Kerecis verðmæti fyrir tæplega 600.000 krónur úr hverjum þorski.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Birgir Ísleifur

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_