Fréttasafn23. jan. 2024 Almennar fréttir Menntun Nýsköpun

Nýtt rannsókna- og nýsköpunarhús HR vöggustofa hugmynda

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir veitti í dag Háskólanum í Reykjavík (HR) 200 milljóna króna stuðning til fjármögnunar undirbúnings að uppbyggingu á allt að 6.000 fermetra rannsókna- og nýsköpunarhúsi við skólann. Samningur þess efnis var undirritaður af ráðherra og Ragnhildi Helgadóttur, rektor HR, við athöfn í HR í dag. Á vef Stjórnarráðsins segir að gert sé ráð fyrir að rannsókna- og nýsköpunarhúsið verði á næstu lóð við aðalbyggingu HR, þ.e. við Menntasveig 4, en leyfilegt byggingarmagn þar er 11.300 fermetrar. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er um 3,7-4,6 ma.kr., eftir því hver sérhæfð aðstaðan verður. Stefnt er að stuttum framkvæmdatíma og standa vonir til þess að húsið geti orðið tilbúið árið 2025.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti ávarp við athöfnina og sagði meðal annars að rannsókna- og nýsköpunarhús HR verði vöggustofa hugmynda sem skapað geti mikil verðmæti. Hann sagði þetta vera sérstaklega gleðilegt fyrir iðnað á Íslandi þar sem húsið muni veita mikla möguleika til að skapa nýja tækni og ný tækifæri. Þarna muni hugmyndaflugið fá lausan tauminn og aðgengi að hátæknibúnaði muni nýtast í rannsóknir sem gætu leitt til mikilvægrar verðmætasköpunar og framþróunar. ,,Þessi fjárfesting er ekki einungis mikilvæg fyrir þann mikla fjölda nemenda sem stundar nám í byggingarfræði, iðnfræði, verkfræði, tölvunarfræði og fleiri greinum heldur er hún framfaraskref fyrir iðnað á Íslandi - stærstu atvinnugrein landsins. Þar eru ótal tækifæri fyrir hugmyndaríkt fólk. Með því að leiða saman hugvit og öflugan tækjabúnað verða stærri skref stigin á braut verðmætasköpunar.” Hann sagði að Samtök iðnaðarins leggi ríka áherslu á menntun og nýsköpun enda sé hvoru tveggja mikilvægt fyrir framþróun iðnaðar. ,,Um nokkurt skeið hefur verið ákall um aukinn kraft í rannsóknum í byggingariðnaði með áherslu á prófanir, rannsóknir, uppbyggingu rannsóknainnviða, miðlun og innleiðingu rannsóknarniðurstaða. Sú bygging sem hér mun rísa verður heimili slíkra rannsókna og þær hugmyndir sem þar verða til munu án efa stuðla að auknum gæðum í mannvirkjagerð. Til mikils er að vinna en árlegar endurbætur á mannvirkjum nema um 150 milljörðum og verðmæti alls húsnæðis á Íslandi er um 9 þúsund milljarðar króna.”

Á vef Stjórnarráðsins ef haft eftir ráðherra að um sé að ræða mikið framfaraskref, enda verði húsið eitt það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. ,,Háskólinn í Reykjavík hefur verið mikill brautryðjandi í tæknigreinum og útskrifar yfir helming allra þeirra sem ljúka háskólaprófi í raunvísinda-, verkfræði- og tæknigreinum (STEM) hér á landi. Skólinn hefur metnað til að auka fjölbreytni námsins og bæta kennslu og rannsóknir. Til að svo megi verða þarf hann fjölbreyttara húsnæði. Ekki má heldur gleyma því að góðir háskólar eru forsenda öflugs atvinnulífs sem kallar eftir því að nemendum í tæknigreinum og verkfræði fjölgi. Við vitum að það vantar þúsundir sérfræðinga á því sviði næstu ár, ef vaxtaspár hugverkaiðnaðarins eiga að ná fram að ganga, og með sókn á þessu sviði verður auðveldara að mæta þessum þörfum.”

Haft er eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor HR, að verulega sé farið að þrengja að starfsemi skólans og að nýtt rannsókna- og nýsköpunarhús muni gjörbylta allri aðstöðu til kennslu, rannsókna og nýsköpunar. ,,Okkur vantar sveigjanleg verkefnarými og nemendadrifin verkefni eins og smíði keppnisbíla og róbóta fengju stórbætta aðstöðu í slíku húsi. Við viljum hlúa betur að hagnýtu, verktengdu námi og skapa ný tækifæri, bæði hvað varðar þjálfun nemenda, gæði rannsókna og samstarf við atvinnulífið. Við fögnum því að ráðherra veiti verkefninu þennan stuðning því hann gerir okkur kleift að ljúka forhönnun hússins og í framhaldinu getur fasteignafélag skólans vonandi fjármagnað byggingaframkvæmdirnar sjálfar.”

SIG02154-Enhanced-NRRagnhildur Helgadóttir, rektor HR, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrita samninginn.

SIG02161Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR.

Sh3Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.