Of fáar nýjar íbúðir inn á markaðinn á næstu árum
Húsnæðismál voru til umfjöllunar í Kastljósi á RÚV þar sem kemur fram að líklegt sé að það náist ekki að byggja nægilega mikið af íbúðum í takt við þörf. Í þættinum kemur einnig fram að Ísland sé eitt af fjórum ríkjum OECD þar sem fjölgun íbúða heldur ekki í við fjölgun íbúa. Í Kastljósi er meðal annars rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segist hafa áhyggjur af því núna að staðan ef horft sé til áranna 2026 og 2027 verði sú að of fáar nýjar íbúðir séu að koma inn á markaðinn á sama tíma og efnahagsástandið fari batnandi og vextir lækkandi, sem þýði að kaupmáttur aukist. „Þannig að við höfum áhyggjur af því að íbúðaverð muni hækka á þeim tíma.“
Lóðaframboð og skipulagsmál eru flöskuhálsar
Þegar Sigurður er spurður hvernig hægt væri að glæða framboðið á ný segir hann að flöskuhálsarnir séu fyrst og fremst í lóðaframboði og skipulagsmálum. „Þetta er eitthvað sem sveitarfélögin sjálf hafa yfir að ráða og ríkið í dag hefur í sjálfu sér ekki mikið um nákvæmlega þessi mál að segja. Það eru sveitarfélögin sem að ráða yfirl andinu og fara með skipulagsmálin og við söknum þess að heyra ekki meira frá stjórnmálaflokkunum um það hvernig og raunar hvað þau séu tilbúin að gera til að ríkið geti gripið inn í eða einhvern vegin liðkað fyrir. Inngrip í skipulagsmál, auðvitað er það viðkvæmt umræðuefni en við þekkjum það frá öðrum löndum, þessi inngrip þurfa ekki að vera íþyngjandi, eitt dæmi um það væri að ríkið hefði eitthvað um vaxtarmörkin að segja.“ Þá kemur fram hjá Sigurði að það eigi eftir að skipuleggja byggð á þessum svæðum og veita leyfi og að í einhverjum tilvikum séu mannvirki fyrir og svo framvegis. „Þetta mun allt taka mörg mörg ár.“
Stækka þarf vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins
Sigurður: „Ef við horfum á heildarmyndina þá held að það verði að horfa til þess að stækka vaxtarmörkin og þá opnast svæði sem væri hægt að byggja tiltölulega hratt. Ef ég nefni dæmi um það er Úlfarsárdalurinn þar sem er byggð fyrir, þar sem innviðir hafa verið byggðir upp, þar er skóli, íþróttasvæði og sundlaug. Það væri fljótlegt að þróa byggðina þar ofar í dalinn.“ Þá segir Sigurður varðandi byggingarhæfar lóðir á þéttingarreitum að það hafi verið skoðað í vor. „Þá kom í ljós að það eru sárafáar lóðir sem voru byggingarhæfar og tilbúnar til framkvæmdar þar sem ekki var verið að byggja.“
Hér er hægt að ná horfa á umfjöllun Kastljóss um húsnæðismál frá mínútu 6:40.
RÚV, 21. nóvember 2024.