Öflugur iðnaður grundvöllur öryggis og stöðugleika
Við lifum á óvissutímum – heimsfaraldur, stríð, náttúruhamfarir, tollastríð, truflanir í aðfangakeðjum og orkuskortur hafa sýnt okkur að stöðugleiki krefst meira en góðs ásetnings. Hann krefst skipulags, samstarfs, undirbúnings og skýrrar stefnu til framtíðar. Þetta kom fram í inngangi hjá Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasvið SI, á Iðnþingi 2025. Þar stýrði hún umræðum með þátttöku eftirtaldra: Gunnar Sverrir Gunnarsson, forstjóri COWI á Íslandi, Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar, og Þorvarður Sveinsson, forstjóri Farice.
Viðnámsþróttur felur í sér að vera undirbúin
Jóhanna Klara sagði jafnframt að viðnámsþróttur Íslands og seigla feli ekki bara í sér að bregðast við áföllum heldur í því að vera undirbúin og að tryggja öfluga innviði, efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í málaflokknum og huga að framleiðslugetu og birgðastýringu. Hún sagði íslenskan iðnað í öllum sínum fjölbreytileika vera lykillinn að því að Ísland geti staðið af sér áföll. „Við höfum þegar séð hvernig iðnaðurinn hefur sýnt þessa seiglu í verki. Þegar eldgos og jarðhræringar á Reykjanesi ógnuðu samfélögum og innviðum, þá brást iðnaðurinn hratt við með uppbyggingu varnargarða, styrkingu innviða og skjótri aðlögun að breyttum aðstæðum. Þetta sýnir skýrt að öflugur iðnaður er ekki bara grundvöllur hagvaxtar, heldur líka forsenda öryggis og stöðugleika.“
Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda til að styrkja viðnámsþrótt
Í umræðunum var farið inn á hvernig kraftar iðnaðarins verði nýttir til að tryggja seiglu og viðnámsþrótt á þessum óvissutímum og hvar veikleikarnir liggja. Auk þess spannst umræða um innviði, birgðahald, aðfangakeðjur, öryggismenningu, tæknitengingar við útlönd og innlenda framleiðslu. Einnig var komið inn á mikilvægi samstarfs atvinnulífs og stjórnvalda til að styrkja viðnámsþrótt Íslands.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, Gunnar Sverrir Gunnarsson, forstjóri COWI á Íslandi, Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar, og Þorvarður Sveinsson, forstjóri Farice.
Hér er hægt að nálgast upptöku af umræðunum: