Fréttasafn17. ágú. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Óljóst orðalag um kröfur um tengibúnað vegna hleðslu rafbíla

Það þarf að liggja ljóst fyrir hvaða kröfur eru gerðar í sambandi við tengibúnað vegna hleðslu rafbíla í nýbyggingum og við endurbyggingu þar sem huga þarf að því að halda byggingarkostnaði í lágmarki og tryggja að ekki verði rými til að túlka ákvæði með of víðtækum og íþyngjandi hætti. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að 7. breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem lagt er til að gert skuli ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla í nýbyggingum og við endurbyggingu. 

Samtök iðnaðarins telja óljóst hvað er átt við með orðunum „skal gert ráð fyrir tengibúnaði“ og er það mat samtakanna að það verði að vera skýrt hvaða kröfur eru gerðar um fjölda tengibúnaða við önnur mannvirki en einbýli, t.a.m. við fjölbýlishús. Til að halda byggingarkostnaði í lágmarki en um leið auðvelda rafbílavæðingu ætti, að mati samtakanna, að leggja lagnaleiðir að bílastæðum svo eigandi viðkomandi stæðis gæti, ef hann kysi, á eigin kostnað lagt og gengið frá tengingum sem tengdar væru mælum viðkomandi. Þá þurfi að tryggja að heimtaug sé nægilega stór til að ráða við aukið afl vegna rafbílahleðslu. Samtökin telja æskilegt að tekið verði á stærð heimtaugar í byggingarreglugerð og hún skilgreind sérstaklega, gerð verði krafa um að lagnaleiðir séu til staðar og að stærð dreifiskápa verði í samræmi við aukna notkun.