Orkuríkur og samkeppnishæfur iðnaður
Frjáls samkeppni er öflugasta tækið til að draga fram það besta og hagkvæmasta út úr allri atvinnustarfsemi. Þannig er hag kaupenda og seljenda best borgið og ábati samfélagsins hámarkaður. Vegna þessa er skynsamlegt að leita allra leiða við að koma á samkeppni þar sem henni verður við komið.
Samtök iðnaðarins fengu hinn kunna danska hagfræðing Lars Christensen til að skrifa skýrsluna, Our Energy 2030, sem fjallar um orkumarkaðinn á Íslandi, skilvirkni hans, samkeppnishæfni og gagnsæi. Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á stöðu þessa mikilvæga markaðar. Ekkert land í heiminum framleiðir jafnmikla orku á hvern íbúa og íslenskur iðnaður nýtir langstærstan hluta þessarar orku til að skapa tæpan fjórðung útflutningstekna landsins. Orkan skiptir flest fyrirtæki miklu máli enda lykilaðfang. Öll erum við svo eigendur enda eru orkufyrirtækin að mestu í eigu hins opinbera. Fyrirkomulag þessa mikilvæga markaðar skiptir því miklu máli fyrir samkeppnishæfni okkar.
Raforkumarkaðurinn er einn af þeim mörkuðum þar sem samkeppni hefur enn ekki náð að ryðja sér til rúms á Íslandi, jafnvel þó að öll löggjöf þar að lútandi hafi verið fyrir hendi síðan 2003. Landsvirkjun framleiðir um 70% af öllu rafmagni í landinu. Það setur fyrirtækið í sterka ráðandi stöðu á markaðnum og er nánast útilokað að kraftar frjálsrar samkeppni fái að njóta sín. Lars leggur áherslu á í skýrslu sinni að Landsvirkjun verði skipt upp og einkavædd. Það kann að vera róttæk og umdeild hugmynd, ekki síst í ljósi umræðu um eignarhald á auðlindum. Hins vegar er mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað og skoðað hvort núverandi skipan eignarhalds á raforkufyrirtækjum sé sú sem þjónar best hagsmunum Íslendinga. Núverandi skipan er í það minnsta ekki til þess fallin að auka samkeppni.
Ennfremur er uppi sú einkennilega staða að Landsvirkjun er stærsti hluthafi í Landsneti sem flytur allt rafmagn í landinu. Það er náttúruleg einokunarstarfsemi en stór hluti af raforkureikningi fólks og fyrirtækja verður til þar. Nauðsynlegt er að þarna verði skilið á milli enda eru þessi tengsl ekki til þess fallin að skapa traust og gagnsæi.
Önnur hugmynd sem Lars leggur áherslu á er að komið verði á fót alvöru raforkumarkaði. Hugmyndin er ekki ný en það er ekki fullreynt að koma slíkum markaði á. Öll iðnfyrirtæki og stærri notendur hefðu gagn af því að til væri skilvirkur markaður með raforku.
Ljóst er að ríkið heldur á spilunum. Tengsl Landsvirkjunar og Landsnets verða ekki rofin án íhlutunar eigandans. Ríkið þyrfti einnig að koma að því að setja upp raforkumarkað og hugsanlega tryggja ákveðið framboð á raforku inn á slíkan markað og bæta þannig gagnsæi og skilvirkni.
Íslenskur iðnaður notar mikla raforku og hagstætt raforkuverð hér á landi hefur jafnan verið talið hluti af samkeppnisforskoti okkar. En lengi má gott bæta. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra til lengri tíma litið að umbætur verði á þessum mikilvæga markaði. Það er því óskandi að skýrslan Our Energy 2030 verði innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað um framtíð raforkumarkaðar á Íslandi.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI
Grein í Morgunblaðinu 11. júní 2016.