Orkusækinn iðnaður orðinn fjölbreyttari
Rætt var við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um íslenska raforkumarkaðinn í Bítínu á Bylgjunni í dag þar sem hann sagði Samtök iðnaðarins hafa verið með heilmikinn fund í gærmorgun um raforkumálin. „Við gáfum út rit um þau mál sem fjallar um níu tillögur að úrbótum varðandi raforkumálin, fjallar um stefnu Samtaka iðnaðarins í raforkumálum. Síðan er þetta líka heilmikið uppflettirit með fróðleik um raforkumálin. við erum að gera heiðarlega tilraun til að setja flókin mál fram á einfaldan hátt. Hvatinn á bak við þetta er ekki síst sá að okkar félagsmenn, íslenskur iðnaður, kaupir um 80% af raforkunni sem er framleidd á Íslandi. þannig að notendurnir eru auðvitað fyrst og fremst iðnfyrirtækinn, þá aðallega orkusækinn iðnaður. Þannig að þar eru heilmiklir hagsmunir og áhugi á þessum málum. Það er líka þannig að það hefur verið heilmikill áhugi á orkumálunum á þessu ári og mikið rætt um það í opinberri umræðu. Það er alveg ljóst að orkumálin standa almenningi nærri. Fólk hefur miklar skoðanir á þessu og eðlilega því að þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið, raforkan. Það er merkilegt að í fyrra var útflutningur vegna orkusækins iðnaður var meiri heldur en útflutningur sjávarútvegsins. Fyrir einhverjum árum hefði þurft að segja manni þetta tvisvar að þetta væri staðan. En þetta hefur gerst, verðmætin hafa aukist og orkusækinn iðnaður hefur orðið fjölbreyttari.“ Hann nefndi sem dæmi álverin, gagnaverin og þörungarækt. „Þannig að þetta er að verða fjölbreyttara. Þetta er mjög gott fyrir hagkerfið. Hagkerfið okkar hefur verið býsna sveiflukennt eins og við þekkjum en með fjölbreyttari útflutningsvörum þá auðvitað er dregið úr sveiflunum. Við sjáum það í tölum þegar við förum yfir þetta.“
Þegar Sigurður var spurður hvort Samtök iðnaðarins væru að leggja til að Landsvirkjun yrði brotin upp og seld sagði hann: „Nei, við erum alls ekki að leggja það til.“
Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.