Fréttasafn8. apr. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Orkuskipti stærsta einstaka viðfangsefnið

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs, sagði meðal annars í ávarpi sínu á ársfundi Grænvangs sem haldinn var í Háteig á Grand Hótel þriðjudaginn 5. apríl að orkuskipti væru stærsta einstaka viðfangsefnið í átt að kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. 

Hér fyrir neðan fer ávarpið í heild sinni: 

Ráðherra og aðrir góðir gestir

Loftslagsmálin eru eitt helsta viðfangsefni okkar tíma. Nú stendur yfir græn iðnbylting sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sú iðnbylting hófst seint á síðustu öld þegar stjórnvöld í mörgum ríkjum heims tóku höndum saman um að bæta heilsu jarðar og græn iðnbylting mun standa yfir næstu áratugina. Ólíkt öðrum iðnbyltingum þá er græna iðnbyltingin upphaflega að frumkvæði stjórnvalda. Aðrar iðnbyltingar hafa orðið vegna tækninýjunga sem hafa falið í sér aukna framleiðni og þar með voru efnahagslegir hvatar til umbreytinga. Með fjárfestingum var hægt að auka afköst og umbylta fyrri verkháttum. Í þessu fólust miklir hvatar og ekki þurfti atbeina stjórnvalda til aðgerða. Að þessu sinni er staðan önnur. Í árdaga grænnar iðnbyltingar voru lausnirnar ekki hagkvæmar ef þær voru yfirhöfuð til. Til að uppfylla metnaðarfull markmið, markmið sem hafa orðið metnaðarfyllri með tímanum í takt við mikilvægi viðfangsefnisins, þarf að þróa lausnir sem færa okkur nær markmiðunum og eru hagkvæmar.

Stjórnvöld setja metnaðarfull markmið. Þar stendur hæst kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Fyrirtækin finna bestu lausnirnar til að uppfylla markmiðin og ráðast í aðgerðir til að draga úr losun í sinni starfsemi. Stjórnvöld þurfa að móta réttu umgjörðina til að flýta þessari þróun, setja hvata til nýsköpunar og fjárfestinga í nýrri tækni auk þess að stuðla að orkuskiptum.

Við höfum áhugaverða sögu að segja. Með því að beisla vatnsafl og rafvæða Ísland fyrir um 100 árum síðan og með því að nýta jarðvarma til húshitunar og orkuframleiðslu fyrir um hálfri öld síðan er losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mun minni en annars væri. Þessi orkuskipti fólu ekki aðeins í sér bætta heilsu harðar heldur einnig efnahagslegar framfarir. Þetta færði okkur aukið sjálfstæði í orkumálum en mikilvægi þess er okkur mjög ljóst um þessar mundir. Með því að virkja hugvitið á þessu sviði varð til þekking og með því að vera í fararbroddi á heimsvísu vorum við í aðstöðu til að miðla þekkingunni til annarra. Þessi þekking hefur nýst í að minnsta kosti 45 löndum í öllum heimsálfum til að beisla krafta jarðar og minnka um leið kolefnislosun. Þannig höfum við haft áhrif og hjálpað öðrum að ná sínum markmiðum um leið og við sköpum verðmæti hér á landi. Við getum sannarlega gert meira.

Hér hafa orðið til aðrar merkilegar lausnir sem í senn geta hjálpað öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum og skapað verðmæti hér á landi. Aðferð Carbfix er gott dæmi um þetta en einnig má nefna byltingarkenndar aðferðir við framleiðslu á kolefnislausu áli og ammóníaki þar sem yfir hundrað ára gömlum efnaferlum er umbylt í þágu loftslagsmála. Þannig hefur græn iðnbylting líka snúist um að endurhugsa þá iðnaðarferla sem urðu til í öðrum iðnbyltingum og hanna nýja sem hafa minni áhrif á umhverfið. Þannig hafa íslensk fyrirtæki þegar náð árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Á þessum grunni varð Grænvangur til árið 2019. Þeim grunni að bæta heilsu jarðar með samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum með áherslu á aðgerðir innanlands og kynningu á þeim fjölmörgu lausnum sem hér eru til og nýst geta öðrum til að ná sínum markmiðum. Það hefur sýnt sig að Grænvangur hefur hlutverki að gegna og áhuginn á starfinu er mikill.

Erlendi hluti starfseminnar miðar að því að kynna framlag Íslands og íslenskra fyrirtækja til loftslagsmála. Á síðasta ári var markvisst unnið að því að kynna á erlendum vettvangi hvað Ísland hefði fram að færa á þessu sviði. Áhuginn hefur verið margfalt meiri en vonir stóðu til um. Sett voru metnaðarfull markmið um 50 umfjallanir í erlendum miðlum á síðasta ári. Áhuginn var slíkur að umfjallanir voru um eitt þúsund talsins við áramót. Þetta sýnir vel að við höfum margt áhugavert fram að færa.

Innanlands er einnig verk að vinna. Sex samtök atvinnugreina tóku höndum saman um að vinna Loftslagsvegvísi atvinnulífsins sem kom út um mitt ár 2021. Þar voru sett fram markmið eftir greinum, staðan var kortlögð og bent á áskoranir í vegi fyrir árangri. Þetta var fyrsta skref á langri leið en munum að fyrsta skrefið er oft það mikilvægasta. Grænvangur sá um útgáfuna en samtökin unnu kafla skýrslunnar. Það er von mín að innan skamms verði hafist handa við næstu útgáfu af Loftslagsvegvísi atvinnulífsins og að fyrirtækin komi þá beint að vinnunni.

Stjórnvöld hafa boðað greinaskipta nálgun í loftslagsáætlun sinni að danskri fyrirmynd. Það er sannarlega spennandi verkefni og er ekki eftir neinu að bíða að hefja þá vinnu. Það þarf að koma í ljós hvort og þá hvernig sú vinna fer saman við vinnu atvinnulífsins við Loftslagsvegvísi atvinnulífsins.

Það er margt jákvætt að gerast í þessum málum hér innanlands og fyrirtækin láta sitt ekki eftir liggja. Sum hafa þegar náð kolefnishlutleysi, önnur hafa sett sér markmið og vinna að þeim, enn önnur hafa farið í þróunarverkefni til að finna lausnir. Ég held því fram að það sé áhugi á umfjöllun um þessa miklu grósku sem á sér stað í öllum atvinnugreinum og Grænvangur gegnir þar því hlutverki að miðla þessum áhugaverðu sögum.

Orkuskipti, sem eru til umfjöllunar hér í dag, eru stærsta einstaka viðfangsefnið í átt að kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Til Íslands er flutt olía fyrir um 100 milljarða á ári og hún er brennd til að skapa hér verðmæti. Tækifærið felst í því að framleiða eldsneyti hér innanlands og verða um leið sjálfstæð í orkumálum. Með því að vera í fararbroddi í þriðju orkuskiptunum, rétt eins og við vorum í fararbroddi við nýtingu jarðvarma, verður til þekking hér sem verður eftirsótt víða um heim með tilheyrandi verðmætasköpun hér á landi. Þannig hjálpum við öðrum að ná sínum metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum.

Þetta er sannarlega spennandi og raunhæf framtíðarsýn en grunnforsenda þess að hún verði að veruleika er aukin orkuöflun innanlands. Í skýrslu sem starfshópur vann fyrir ráðherra orkumála og kynnt var fyrir fjórum vikum síðan kom fram að til þess að uppfylla þarfir samfélagsins um orku, ná fullum orkuskiptum og viðhalda útflutningi og verðmætasköpun til framtíðar þarf að auka innlenda orkuöflun um ríflega 120% á næstu 18 árum.

Stóra málið hér er að við þurfum að hefjast handa og taka nauðsynleg skref í átt að kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum. Það tekur mörg ár að afla nýrrar orku og áður en við vitum af verður árið 2040 komið – og farið.

Orkufyrirtækjanna er að afla meiri orku, annarra fyrirtækja er að vinna að þróun nýrra lausna og að fjárfesta í þeim. Um þetta verður rætt hér í dag og hlakka ég til að heyra af metnaðarfullum áformum fyrirtækjanna á sviði orkuskipta.

Ég fagna því hversu vel atvinnulífið hefur tekið Grænvangi eins og sjá má á ört vaxandi fjölda fyrirtækja í baklandi Grænvangs. Þá hefur stuðningur stjórnvalda, ekki síst ráðherranna, skipt miklu máli og lagt grunninn að frekari árangri á þessari grænu vegferð. Með góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs vinnast sigrar. Þeir sigrar geta orðið stórir þegar fram í sækir.

Green-37Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs, flytur ávarp sitt á ársfundi Grænvangs.