Fréttasafn21. jan. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Orkuskortur kallar á sérstakar ráðstafanir

Sú staðreynd að orkuskortur blasi við okkur hlýtur að kalla á sérstakar ráðstafanir, bæði í aukinni framleiðslu raforku og annars konar rafeldsneytis, auk uppfærslu á flutningskerfi raforku, sem á stórum köflum er úr sér gengið sem leiðir til óásættanlegrar sóunar verðmæta. Fyrir okkur sem byggjum þetta land, heimilin í landinu og fyrirtæki sem nýta þessa einstöku auðlind okkar, hlýtur að vera sjálfsögð krafa að gengið verið hratt og hreint til verks í þessum efnum. Jákvæð orkuskipti eru að raungerast og hin græna iðnbylting er í fullum gangi. Við sem samfélag getum leyst úr þessum vanda með samhentu átaki. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu þegar hann setti Útboðsþing SI sem haldið er í samstarfi við Félag vinnuvélaeigenda og Mannvirki – félag verktaka. Útboðsþing SI var í beinu streymi frá Húsi atvinnulífsins en í máli Árna kom fram að slík þing hafi verið haldin frá árinu 1997.

Hvetja til þátttöku einkafjárfesta í fjármögnun innviðaframkvæmda til að flýta fyrir

Árni sagði jafnframt í ávarpi sínu að verkefnin væru næg og tíminn til að ráðast í enn meiri framkvæmdir væri núna. „Við þurfum áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr efnahagssamdrættinum. Sem fyrr hvetjum við stjórnvöld til dáða hvað varðar aukna þátttöku einkafjárfesta, svo sem lífeyrissjóða og sérstakra innviðasjóða, í fjármögnun innviðaframkvæmda til að flýta þeim enn frekar. Fjöldi álitlegra aðkallandi verkefna eru fullhönnuð og bíða þess eins að verða sett í gang.“

Árni sagði áherslur nýrrar ríkisstjórnar í þessum málum vera lofandi og það sé mikið fagnaðarefni að heildstætt innviðaráðuneyti hafi nú tekið til starfa þar sem öll verkefni húsnæðismála, byggingamála og skipulagsmála voru færð inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. „Sú breyting mun vafalítið stuðla að auknum málshraða, færri flöskuhálsum og samræmdri stefnu í þessum málaflokkum.“ 

Samdráttur í fyrirhuguðum útboðum verulegt áhyggjuefni

Þá sagði Árni að samhliða Útboðsþingi SI gefi Samtök iðnaðarins út greiningu á helstu niðurstöðum þingsins auk samanburðar við liðið ár. Hann sagði meginniðurstöðurnar þær að útlit væri fyrir að áætluð fjárfesting í verklegum framkvæmdum aukist um 20 milljarða króna milli ára. Þó að verklegar framkvæmdir þessa árs komi til með að verða umfangsmeiri en framkvæmdir síðasta árs þá virðist umfang fyrirhugaðra útboða nú dragast saman á milli ára, eða sem nemi um 15 milljörðum króna. Árni sagði þann samdrátt  verulegt áhyggjuefni. Hann vísaði í skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem kynnt hafi verið fyrir tæpu ári síðan þar sem komi fram að víða sé mikil uppsöfnuð þörf fyrir innviðaframkvæmdir og verklegar framkvæmdir hins opinbera sem henti vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf. „Samtök iðnaðarins leggja því mikla áherslu á mikilvægi þess að fjárfesting í innviðauppbyggingu sé næg og viðhaldi innviða sinnt, en með slíkum fjárfestingum er frekari stoðum rennt undir hagvöxt og lífsgæði framtíðarinnar. Við teljum því mikilvægt að ekki sé dregið úr útboðum opinberra fjárfestinga á sviði innviða. Þvert á móti er ástæða til að auka útboð fjárfestinga í innviðum og tryggja framgang efnahagslega arðbærra verkefna á því sviði.“

Öflugt fagfólk í öllum geirum iðnaðar

Í lokaorðum ávarp sínum sagði Árni að íslenskur iðnaður hafi frá upphafi staðið að baki uppbyggingu innviða landsins í góðu samstarfi við aðrar greinar atvinnulífsins. Fullyrða mætti að án framtaks, elju og nýsköpunar iðnaðar, meðal annars í uppbyggingu og viðhaldi innviða, hefði íslenskt efnahagslíf ekki náð að vaxa og blómstra á jafn skömmum tíma og raun bæri vitni. Hann sagði hið sama muni gilda um uppbyggingu á innviðum til framtíðarvaxtar og nýrra stoða efnahagslífsins. „Við eigum hæfileikaríkt og öflugt fagfólk í öllum geirum iðnaðar sem er reiðubúið til frekari starfa.“

Si_utbodsfundur_2022-4Árni Sigurjónsson, formaður SI.

 

Hér er hægt að nálgast upptöku Útboðsþings SI 2022:

https://vimeo.com/667224582