Fréttasafn6. feb. 2020 Almennar fréttir Umhverfis og orkumál

Orkuverð skerðir samkeppnishæfni

„Lengi vel tryggði orkuverðið hér á landi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar. Þróunin undanfarinn áratug er hins vegar sú að orkuverðið hér hefur hækkað á sama tíma og orkuverð erlendis hefur heldur lækkað. Þannig að samkeppnishæfnin er ekki sú sem hún var. Nú má auðvitað deila um hvort bilið í orkuverðinu milli landa var alltof mikið en þetta er í öllu falli staðan núna,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum. 

Uppbygging orkusækins iðnaðar á mikinn þátt í góðum lífskjörum

Sigurður segir jafnframt að orkusækinn iðnaður hafi skipt miklu máli fyrir hagkerfið. „Það var pólitísk ákvörðun á 7. áratugnum að stofna Landsvirkjun, ráðast í uppbyggingu slíks iðnaðar og fá stóra viðskiptavini til landsins. Þessi uppbygging á mikinn þátt í að lífskjör hér á landi eru jafn góð og raun ber vitni.“ Hann vísar til þeirrar niðurstöðu SI að framlag álframleiðslu til verðmætasköpunar í hagkerfinu nemi um 1.150 milljörðum frá gangsetningu álversins í Straumsvík 1969, eða sem samsvari um 40% af landsframleiðslu. „Þetta hefur því verið vel heppnuð vegferð og skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum. Á síðustu árum hafa gagnaver orðið mikilvægur kaupandi raforku. Það er hins vegar engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og það á líka við um virðiskeðjuna. Þótt einn hlekkur í keðjunni hámarki sinn styrk dugar það skammt ef aðrir hlekkir eru við það að liðast í sundur,“ segir hann og vísar til hámörkunar á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar. 

Raunhæfar líkur á að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum

Blaðamaður spyr Sigurð hvort Samtök iðnaðarins hyggist beita sér fyrir því að orkuverðið lækki? „Nei, það gerum við ekki en við erum að segja að við þurfum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum. Það yrði auðvitað áfall ef kaupendur að orkunni myndu frekar sjá sér hag í því að hætta starfsemi hér á landi en að halda henni áfram. Áhrifin af því yrðu mikil.“ Hann telur raunhæfar líkur á að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum. „Ég verð að segja það hreint út að ég er mjög ósammála þeim málflutningi Landsvirkjunar að orkuverð hér á landi sé mjög samkeppnishæft, á sama tíma og stórir viðskiptavinir félagsins eru annaðhvort að draga úr framleiðslu eða kjósa að byggja upp starfsemi í öðrum löndum. Viðbrögð fyrirtækjanna styðja ekki þennan málflutning Landsvirkjunar sem vísar alltaf til meðalverðs á raforku. En eins og réttilega hefur verið bent á stendur engum til boða að kaupa á meðalverðinu. Það er eðli slíkra meðaltala að í þýðinu eru sumar tölur hærri og aðrar lægri.“ 

Morgunblaðið, 5. febrúar 2020.