Öryggi á verkstað mannvirkja er númer eitt, tvö og þrjú
Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, í Kastljósinu á RÚV um öryggismenningu í mannvirkjaiðnaði. Stjórnandi þáttarins, Bergsteinn Sigurðsson, ræðir einnig við Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins.
Jóhanna Klara segir að árið 2009 hafi 18.000 manns verið starfandi í byggingar- og mannvirkjagerð á Íslandi en að sá fjöldi hafi helmingast. „Mörg fyrirtæki hverfa af markaði sem áður höfðu verið starfandi hér og það verður ákveðið frost á markaðnum. Miðað við fólksfjölgun og þarfir innviðauppbyggingu þá fer starfsfólki aftur að fjölga mjög ört og í dag eru starfandi í iðnaðinum um 19.000 manns. En það sem gerist þarna í millitíðinni er að þróun öryggisinnviða og annarra þátta staðnar soldið. Mörg fyrirtæki halda áfram að þróa þetta en heilt yfir verður þarna bið á því að við höldum áfram að þróa okkur.“ Hún segir að hvorki fyrirtæki né verkkaupar á þeim tíma hafi verið að leggja áherslu á að þróa þessa öryggismenningu sem við viljum hafa. „Þar af leiðandi þurfum við að vinna hratt núna til að bæta það upp.“
Valdefla þarf stjórnendur og starfsmenn
Jóhanna Klara segir að það sé á ábyrgð vinnuveitanda að tryggja það að það séu allir meðvitaðir um það á verkstað að öryggi sé númer eitt, tvö og þrjú. „Það er líka mjög mikilvægt að við valdeflum stjórnendur og kennum þeim að miðla þessu betur. Og líka að við valdeflum starfsfólk sem kemur inn á verksstað og sér að það er eitthvað að, að það þori að segja hér þarf að stöðva og hér þarf að lagfæra. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í að miðla áfram og tryggja að þetta er númer eitt, tvö og þrjú inni á öllum verkstöðum þar sem fólk er að vinna.“ Hún segir að allir vinnuveitendur eigi að hafa þetta númer eitt, tvö og þrjú í sinni forgangsröðun gagnvart sínu starfsfólki. Þá kemur fram hjá Jóhönnu Klöru að mörg fyrirtæki séu að gera þetta mjög vel. „Svo erum við með önnur fyrirtæki sem vilja gera þetta vel og eru kannski minni í sniðum og þá höfum við aðeins skort á innviðina og skort á að þau geti leitað eitthvað til að fá fræðslu og leiðsögn til þess að efla sitt starfsfólk.“
Vilja miðla hratt hvernig hægt er að bæta öryggismenningu
Jóhanna Klara segir frá því í viðtalinu að Vinnueftirlitið hafi stofnað fyrir nokkrum árum vinnuverndareftirlit í mannvirkjaiðnaði. „Ég vil hrósa þeim fyrir það frumkvæði. Það er verkefni sem við höfum verið að vinna með Vinnueftirlitinu núna. Þar höfum við verið að vinna í greiningu á því hvar þörfin liggur gagnvart fræðslu iðnaðarins, þá er ég að tala um bæði stjórnendur og starfsfólk.“ Þá kemur fram að verið er að undirbúa stofnun öryggisskóla. „Eitt af því sem er að koma út úr því núna er að við í samstarfi við okkar öfluga endurmenntunarstöðvar, Rafmennt og Iðuna fræðslusetur, iðnaðurinn er með mjög öflugar símenntunarstöðvar. Við erum að skoða það núna og erum að ganga frá því að opna slíkan skóla til þess að bjóða fyrirtækjum og atvinnurekendum til að koma og æfa og prófa sig áfram. Þar ætlum við líka að nýta tækifærið og miðla hratt og vel því sem hefur farið úrskeiðis og hvernig við getum þá bætt úr því inni á fleiri vinnustöðum.“
Óþroskaður útboðsmarkaður þegar kemur að öryggismálum
Einnig kemur fram í viðtalinu viðhorf verkkaupa og segir Jóhanna Klara að úrræðin um verkkaupan séu líka mikilvæg í tengslum við öryggismál. „Við erum með mörg fyrirtæki sem lifa og starfa á útboðsmarkaði. Að okkar mati er útboðsmarkaðinn hér á landi ennþá soldið óþroskaður þegar kemur að ákveðnum málum, meðal annars þessum öryggismálum. Það fylgir því kostnaður að innleiða svona ríka öryggismeðvitun. Við viljum auðvitað sjá það að útboðsmarkaðurinn hér á landi snúist ekki einvörðungu um tíma og verð. Heldur að við förum að sjá aðeins þroskaðri útboðsgögn sem er verið að leggja ríkari og ríkari áherslu á í dag.“ Hún segir að það nokkur mjög góð dæmi um það meðal annars á vegum Framkvæmdasýslunnar og Hús íslenskunnar auk Nýja landspítalans sem hafi verið að leggja ríka áherslu á þetta. „Við viljum sjá breytingu þar og þar getum við unnið hratt að því að innleiða betri öryggismenningu.“
Hanna þarf öryggi á þéttingarreitum betur
Jafnframt segir Jóhanna Klara í tengslum við byggingu á þéttingarreitum: „Varðandi verksstaðina þá er það þannig með þessum þéttingarreitum og þessi nánd við almenning sem iðnaðurinn er kannski ekki endilega vanur. Hann hefur verið vanari því að byggja einhvers staðar fjær og ekki í svona miklu samstarfi við almenning. Við sjáum það að það er einfaldlega ekki pláss fyrir allan búnað, það er ekki pláss fyrir allt sem þarf að vera inni á svæðinu, það leiðir til þess að það er meiri akstur fram og til baka á milli staða. Þetta er eitthvað sem væri mjög jákvætt að vinna betur með sveitarfélögum og öðrum að undirbúa betur og hanna betur. Það þarf að hanna öryggið utan um þess verksstaði enn betur.“
Á vef RÚV er hægt að nálgast Kastljós-þáttinn.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson og Jóhanna Klara Stefánsdóttir.