Fréttasafn



18. jún. 2019 Almennar fréttir

Ótvíræður ávinningur af EES-samningum

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, var meðal ræðumanna á ráðstefnu sem haldin var í Brussel í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá stofnun EES-samningsins. Guðrún sagði meðal annars að með samningnum hafi Ísland fengið aðgang að innri markaði Evrópu með frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. Ísland sé lítið og landfræðilega einangrað og lífsgæði landsmanna byggi því á frjálsum viðskiptum við önnur lönd. Hún sagði það nánast ómögulegt að meta til fjár þann ávinning sem Ísland hefur haft af EES og nefndi að aðeins ábati tollfríðinda á útflutningsvörur okkar séu a.m.k. 30 milljarðar króna á ári. Hún sagði EES mikilvægasta markað íslenskra útflutningsfyrirtækja, samningurinn hafi fært landsmenn úr gjaldeyrishöftum sem höfðu þá varað í rúm 60 ár. Þá sagði hún Ísland hafa aðgang að margfalt stærri vinnumarkaði með frjálsu flæði fólks innan EES og að mikill meirihluti þess 37.000 erlenda launafólks sem starfar á Íslandi í dag komi frá EES. Án þeirra væru lífsgæði okkar allra lakari og mannlíf okkar fábreyttara. Þá hafi fjöldi Íslendinga fengið tækifæri til að læra og starfa í EES ríkjum og afla sér þannig mikilvægrar þekkingar og reynslu sem skili sér í mörgum tilfellum aftur heim.

Þá sagði Guðrún að vaxandi verndarhyggja í heiminum sé áhyggjuefni. Hvað það varðar megi segja að EES sé brjóstvörn okkar, bæði hér innanlands og erlendis. EES, og allt sem því fylgir, sé orðið svo samofið íslensku samfélagi að almenningur verður oft ekki var við allan ávinninginn sem af því hljótist. Ávinningurinn sé samt ótvíræður og það sé ljóst að lífskjör á Íslandi væru lakari fyrir alla landsmenn ef við værum ekki hluti af svæðinu. Hún sagði EES vera mun mikilvægara fyrir okkur en það sé fyrir Evrópusambandið. Það sé því grundvallaratriði fyrir Ísland að við stöndum vörð um samstarfið og uppfyllum skyldur okkar gagnvart því í hvívetna.

Guðrún sagði EES-samninginn eiga á sér óvildarmenn sem hafi undanfarið reynt að grafa undan honum, m.a. með miklu málþófi um ýmsa þætti hans. Hún sagði mikilvægt að hafa í huga þegar EES-samningurinn sé skoðaður að hann sé nokkuð langt frá því að vera til jafns við ESB-aðild. EES sé sérsniðinn samningur sem hafi hentað íslenskum hagsmunum ákaflega vel.

Guðrún tók einnig þátt í pallborðsumræðum að erindum loknum.

EES-radstefna-juni-2019-1-

EES-radstefna-juni-2019-2-

EES-radstefna-juni-2019-3-

IMG_1983