Fréttasafn7. des. 2015 Iðnaður og hugverk

Pólitísk samstaða um að gera Ísland aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun

 Á Tækni- og hugverkaþingi í Gamla bíó sl. föstudag komu ólíkir aðilar að borðum og ákváðu sameiginlega þá framtíðarsýn að gera Ísland aðlandi fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun. 

Kynnt voru tíu áhersluverkefni sem tækni- og hugverkageirinn kom sér saman um að setja í forgang í stefnumótun sl. sumar. Meðal ræðumanna voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sem greindu frá mikilvægum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi tækni- og hugverkagreina.

Bjarni tilkynnti að hann hyggðist efla viðskiptaumhverfi hátækni- og sprotageirans með því að auðvelda aðgengi að erlendri sérfræðiþekkingu og gera kauprétti og umbreytanleg skuldabréf að skilvirkum fjármögnunartólum fyrir sprotafyrirtæki með því að breyta skattlagningu þann hátt að hún komi ekki til við umbreytingu eða nýtirétt sem leitt getur til lántöku til að standa við skattskyldu á bréfum sem ekki hafa verið seld og gætu jafnvel endað sem tap. Bjarni kynnti einnig að hann vildi efla umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á Íslandi og beita sér fyrir skattalegum hvötum fyrir fjárfestingar í nýsköpun. Pólitísk samstaða var um málið og stuðningur þvert á flokka.  

Ragnheiður Elín Árnadóttir kynnti aðgerðaáætlun með nauðsynlegum umbætum sem hún hyggst koma í framkvæmd og leggja fyrir þingið á næstu vikum. Aðgerðaráætlunin er á vef ráðuneytisins og opin fyrir umsagnir til 11. desember. Helstu tillögur í aðgerðaráætlun ráðherra snúa að fjármögnunarumhverfinu, starfsumhverfinu og regluverki, stoðkerfi frumkvöðla og nýsköpunar, alþjóðlegt samstarf og sókn, greiningar- og rannsóknir, viðburðir og vitundarvakning og önnur verkefni. Áætlunin þykir taka vel á málefnum nýsköpunar og í lokadrögum mun fylgja verk-, tíma- og kostnaðaráætlun auk markmiða og mælikvarða. 

Sjá aðgerðaáætlun

Í umræðum í lok þingsins komst á samtal á milli fyrirtækjanna og stjórnvalda, en þess má geta að stoðkerfið átti einnig sína aðila á þinginu. Og mættu m.a. aðilar frá Rannís og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Klak Innovit, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íslandsstofu.

Frosti Sigurjónsson, framsóknarflokki sagði verkefnalistann vera óskalista og þeir myndu styðja við þessi verkefni. Hann var einnig með fleiri góðar hugmyndir sem hann vildi ræða og varpa áfram er varða úrlausnir í þágu fatlaðra þar sem heilsutæknin kæmi í auknum mæli að. ,,Ríkið gæti veitt sérstakan stuðning við þessi verkefni og ætti í raun og veru að gera það.“   

Brynhildur S. Björnsdóttir, Bjartri framtíð hrósaði þinginu fyrir að marka framtíðarsýn til lengri tíma og hrósaði tillögum en sagði bleika fílinn í salnum engu að síður ónýtan gjaldmiðil, höftin og óstöðugleiki sem standi vexti til þrifar. Hún talaði einnig um að fyrirtæki á borð við CCP, Össur og Marel myndu aldrei þrífast hér á landi án undanþága. Og það væri miður hversu erfitt væri fyrir minni sprota að fá slíkar undanþágur og nefndi sem dæmi að það hefði kostað Skema 750.000 kr í lögfræðikostnað og 8 mánaða biðtíma að fá að millifæra 76$ til að stofna móðurfélag í USA. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vinstri grænum benti á nauðsyn menntunar og hafði áhyggjur af hlutfalli háskólagenginna án atvinnu. Magnús Oddsson – yfirmaður rannsóknar og þróunar hjá Össur talaði um aukin tækifæri fyrir háskólamenntaða ef Ísland myndi hækka endurgreiðslur á rannsókn og þróun, þannig að hér yrðu unnin fleiri þróunarverkefni.   

Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði árangur samtalsins mikinn og benti á að á Hátækni- og sportavettvangi hafi menn þvert á flokka og starfsgreinar komið saman í stefnumótun í vor og verkefnin á aðgerðarlista þingsins í dag voru þau mál er skoruðu efst í forgangi úr þeirri vinnu. ,,Þessi góði árangur í dag sýnir okkur að þessi leið virkar. Og aðilar eru tilbúnir að gera vel fyrir greinarnar okkar þegar þarfirnar eru vel útskýrðar og hafa jákvæð áhrif á samfélagið í heild sinni.“   

Það er til mikils að vinna að skapa umhverfi hér á landi þar sem blómlegur iðnaður á hinum ýmsum sviðum vex og dafnar. En hlutur tækni- og hugverkageirans var 5,7% af landsframleiðslu í fyrra. Til samanburðar var hlutur fiskveiða 4,7% og stóriðju 2,4%. Að minnsta kosti 12.000 manns starfa í tækni- og hugverkaiðnaði eða sem nemur um 6,5% af fjölda starfandi í landinu. Starfsmenn í greininni eru að stórum hluta vel menntaðir sérfræðingar. Að jafnaði höfðu sérfræðingar 765þ í mánaðarlaun árið 2014 samanborið við 580þ á vinnumarkaðnum heild.  Sem dæmi um umfang velti upplýsingatæknigeirinn 85 milljörðum 2014 og fer líklega í 100 milljarða árið 2015.  

Við fengum forsvarsmenn fyrirtækja til að útskýra þörfina í myndbrotum – og þannig urðu verkefnin ljóslifandi og skiljanleg.

 

Tækni- og hugverkaþing 2015 - Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki from Samtök iðnaðarins on Vimeo.

Tækni- og hugverkaþing 2015 - Framtíðin, starfsskilyrði og umbætur from Samtök iðnaðarins on Vimeo.