Fréttasafn



17. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Ráðrúm til að lækka kostnað við byggingaframkvæmdir

 „Þetta getur orðið mjög flókið fyrir einstakling sem ætlar sér að fara að byggja,“ segir Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um lóðakostnað. Þar kemur fram að þegar byggingarverktaki eða einstaklingur ákveður að reisa hús megi hann gera ráð fyrir því að þriðjungur eða jafnvel hærra hlutfall af framleiðslukostnaðinum fari í lóðakostnað og ýmis gjöld sem séu jafnvel orðin úrelt. Talað sé um samandreginn lóðakostnað þegar um sé að ræða sjálf kaupin eða afnotin af lóðinni sjálfri og gatnagerðargjöldin. 

Í  fréttinni er talinn upp fjöldinn allur af kostnaðarliðum sem greiða þarf til sveitarfélaga; gatnagerðargjöld, heimtaugagjald fyrir rafmagn, heimæðargjald fyrir heitt vatn, heimæðargjald fyrir kalt vatn, tengigjöld, úttektir á hinum ýmsu byggingarstigum, leyfi og vottorð, byggingarleyfisgjöld,  skoðunargjöld og fleira. 

Krafa um íbúðir á undirverði

Friðrik segir í Fréttablaðinu það vera algengt að þessi kostnaður sem skilgreindur sé sem „annar“ sé á bilinu 5-9% af framleiðslukostnaði húsnæðis. Þá krefji Reykjavíkurborg verktaka um að selja vissan hluta íbúða á undirverði til Félagsbústaða og nái það ekki upp í framleiðslukostnað. Verktakinn þurfi því að færa mismuninn yfir á þær íbúðir sem seldar séu á almennum markaði. „Vitaskuld leiða öll þessi gjöld til hærra íbúðaverðs.“ 

Mikill lóðaskortur

Þegar Friðrik er spurður hvort þetta fæli verktaka frá segir hann þá í þröngri stöðu því lóðaskortur sé mikill. „Þetta er það eina sem er í boði. Ef menn ætla að halda fyrirtækjum sínum gangandi. Fyrirtækin taka því sem er í boði sama með hvaða kvöðum það er.“ Hann segir ráðrúm til lækkana á fyrrnefndum kostnaði mikinn. Til að mynda á úttektargjöldum til byggingarfulltrúa sem sinni ekki lengur úttektum heldur byggingarstjórinn sem framkvæmi úttektina en gjöldin séu enn til staðar.

Fréttablaðið, 17. desember 2021.

Frettabladid-17-12-2021