Rætt um öflugt atvinnulíf í Árborg og á Suðurlandi öllu
Á vel sóttum opnum fundi SI á Hótel Selfossi í hádeginu í gær var rætt um öflugt atvinnulíf í Árborg og á Suðurlandi öllu. Frummælendur á fundinum voru Árni Sigurjónsson, formaður SI, Bragi Bjarnason, verðandi bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Fundarstjóri var Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI.
Í máli Braga sem fór yfir skipulagsmál í Árborg kom meðal annars fram að íbúum sveitarfélagsins hefði fjölgað mikið á síðustu árum og væru nú ríflega 12.000. Hann sagði skipulagsmál vera grunninn að öllu og væru mörg deiliskipulög ýmist kláruð eða væru í vinnslu á skipulögðum íbúðasvæðum á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri. Bragi fór yfir mikilvægi innviða líkt og gatnagerð, leik- og grunnskóla, íþróttamannvirki, orkuöflun, opin svæði og heitt og kalt vatn og fráveitumál. Hann fór einnig yfir helstu atvinnusvæði sem búið væri að skipuleggja í sveitarfélaginu. Þá kom fram í máli hans að nýr miðbær Selfoss hefði gjörbreytt ímynd bæjarins og væri áformuð frekari uppbygging á næstu 3-4 árum. Hann sagði miðbæinn styðja við aðra atvinnustarfsemi. Einnig kom fram hjá Braga að í Árborg væru mörg framtíðartækifæri.
Þegar Bragi hafði lokið máli sínu óskaði Valdimar Bjarnason, formaður Meistarafélags Suðurlands (MFS) og eigandi Vörðufells, eftir því að fá að koma í pontu. Hann lýsti yfir óánægju með skipulag á lóðasölu í Árborg og innheimtu innviðagjalda. Valdimar óskaði meðal annars eftir meira samráði við verktaka og meistara í sveitarfélaginu. Bragi svaraði honum og tók undir að samtal og samráð væru til góðs og bauð til fundar um málefnin sem óánægja væri um.
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), sagði að Suðurland ná yfir 31 þúsund ferkílómetra, sveitarfélögin væru 15 talsins og fjöldi íbúa á svæðinu ríflega 34 þúsund. Helstu atvinnuvegir á Suðurlandi væru landbúnaður, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og iðnaður. Bjarni greindi frá helstu áherslumálum í sóknaráætlun Suðurlands og sagði frá úthlutunum úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands en í vor hafi 40,5 milljónum króna verið úthlutað til 66 verkefna en alls hafi verið óskað eftir 166,5 milljónum króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í október á þessu ári. Bjarni sagði einnig frá starfsemi SASS sem væri samþættingaraðili á Suðurlandi og hlutverki byggðaþróunarfulltrúa sem væru staðsettir víðsvegar um Suðurland. Í lok erindis síns sagði Bjarni frá íbúafundi sem haldinn verður 4. júní þar sem horft verður til ársins 2040 og spurt að því hvernig íbúar vilja að Árborg verði þá. Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, kynnti starfamessu sem er nokkurskonar starfastefnumót þar sem ungmenni fá tækifæri til að fræðast um störf sem eru í þeirra samfélagi.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, fór í sínu máli yfir vegasamgöngur þar sem bæði nýfjárfestingu og viðhaldi hafi ekki verið nægjanleg sinnt. Hann sagði frá því að vegakerfi Íslands væri ein stærsta eign ríkis og sveitarfélaga en að myndast hefði mikil viðhaldsskuld í kerfinu sem næmi 160-180 milljörðum króna. Einnig kom fram í máli Ingólfs að metnaðarfull samgönguáætlun hefði ekki raungerst. Í áætluninni væri mikið af metnaðarfullum áformum fram til 2034 sem ekki hafi gengið eftir. Meðal annars það sem snýr að framkvæmdum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem hefur tekið mun lengri tíma en ráð var fyrir gert og kostnaður hækkað. Minna hafi orðið úr samvinnu opinberra aðila og einkaaðila líkt og til stóð fyrir einstakar framkvæmdir auk þess sem jarðgangaáætlun hafi ekki gengið eftir. Ingólfur sagði mikilvægt að horfa til þjóðhagslegs ávinnings af framkvæmdum og að það gæti verið mikill ávinningur að flýta ábatasömum verkefnum. Hann tók Sundabraut sem dæmi um ábatasamt verkefni en það hafi komið inn á aðalskipulag Reykjavíkur fyrir 39 árum sem hafi verið 6 árum áður en Spölur var stofnað sem kom Hvalfjarðargöngum í framkvæmd. Ingólfur sagði að þjóðhagslegur ábati Sundabrautar væru 186-236 milljarðar króna.
Árni Sigurjónsson, formaður SI.
Bragi Bjarnason, verðandi bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar.
Valdimar Bjarnason, formaður Meistarafélags Suðurlands og eigandi Vörðufells.
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI.
Sunnlenska.is, 25. maí 2024.