Fréttasafn



17. okt. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Raforka undirstaða góðra lífskjara

Breytingar framfara og tækni hafa gefið okkur Íslendingum framúrskarandi lífskjör. Lífskjör sem við erum öll sammála um að standa vörð um þannig að Íslandi geti staðið undir nafni sem velferðarsamfélag. Höfum það hugfast að öflugir innviðir eins og raforka eru lífæðar samfélagsins og undirstaða góðra lífskjara. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í ávarpi sínu á fundi um íslenska raforkumarkaðinn sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir í Hörpu í gær. 

Guðrún sagði það samfélag sem við nú byggjum sé algerlega óhugsandi án rafmagns og að við tökum rafmagni sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi enda séu nánast allar okkar athafnir háðar rafmagni með einum eða öðrum hætti. „Við, hvert og eitt okkar erum stöðugt minnt á mikilvægi rafmagnsins og því er það ekki að undra að Íslendingar hafa miklar skoðanir á þeirri auðlind sem rafmagnið er okkur Íslendingum.Ekkert land í heiminum framleiðir jafnmikla orku á hvern íbúa eins og Ísland og íslenskur iðnaður nýtir langstærstan hluta þessarar orku til að skapa tæpan fjórðung útflutningstekna landsins. Orkan skiptir flest fyrirtæki miklu máli enda lykilaðfang. Öll erum við svo eigendur enda eru orkufyrirtækin að mestu í eigu hins opinbera. Fyrirkomulag þessa mikilvæga markaðar skiptir því miklu máli fyrir samkeppnishæfni okkar.“

Guðrún sagði að vegna þessa hafi Samtök iðnaðarins látið sig raforkumál miklu varða og hafi sett fram skýra sýn á þá meginþætti er mestu skipta varðandi þróun, uppbyggingu og skipulag raforkumarkaðarins. Hún sagði að í nýsamþykktri stefnu samtakanna sem nær til ársins 2021 fá umhverfis- og orkumál í fyrsta sinn sérstakan sess. „Fundurinn hér í dag endurspeglar þessar áherslur samtakanna. Samhliða fundinum gefum við út rit um raforkumál þar sem áherslur SI koma fram auk tillagna til úrbóta. Í ritinu er einnig að finna mikinn fróðleik um fyrirkomulag raforkumála hér á landi. Það er von mín að ritið komi til með að nýtast vel en það er ekki síst hugsað sem handbók um þessi mál. Að sama skapi ber ég þá von í brjósti að þessi fundur og útgáfa handbókarinnar nýtist sem innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað um framtíð raforkumarkaðar á Íslandi.“