Fréttasafn



4. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Raforkuframleiðsla ekki haldið í við þróun samfélagsins

Um helmingur verðmætasköpunar á Íslandi byggir í dag á olíunotkun en Ísland flytur inn um milljón tonn af olíu á ári og fer sá innflutningur vaxandi, meðal annars vegna þeirrar staðreyndar að raforkuframleiðsla hefur ekki haldið í við þróun samfélagsins á síðastliðnum 10 til 15 árum. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í grein á Vísi sem ber yfirskriftina Gleymum ekki grundvallaratriðum. Hún segir að þetta hafi leitt til skerðinga á raforku til fjölmargra fyrirtækja og að knýja þurfi ýmsa atvinnustarfsemi með olíu í stað grænnar orku. Raunar sé mun fljótlegra að fá leyfi til raforkuvinnslu sem knúin er með olíu heldur en grænni orku. Þá komi þetta niður á nýrri atvinnuuppbyggingu um allt land.

Arður af raforkusölu til stórnotenda skilar sér beint og óbeint til almennings

Sigríður segir að í umræðu um orkumál sé það stundum nefnt að orkusækinn iðnaður taki til sín 80% raforkunnar sem framleidd sé. Í þessu sambandi sé rétt að minna á eftirfarandi. Uppbygging orkusækins iðnaðar á Íslandi hafi haft í för með sér innviðafjárfestingar sem samfélagið allt njóti góðs af. Lágt og stöðugt raforkuverð til heimila á Íslandi á síðastliðnum áratugum sé ekki síst þessari uppbyggingu að þakka þar sem stórar fjárfestingar hafi leitt til stærðarhagkvæmni við uppbyggingu í raforkukerfinu sem annars hefði ekki verið möguleg. Hún segir að stærsti raforkuframleiðandi landsins, Landsvirkjun, hagnist nú um 20-25 milljarða á ári vegna langtímasamninga um sölu á raforku til stórnotenda og skili sá arður sér beint og óbeint til almennings, m.a. í ríkissjóð, og þannig sameiginlega sjóði landsmanna. Arður raforkuframleiðslunnar renni þannig til þjóðarinnar. Hagsmunir stóriðjunnar og heimila landsins, almennings, fari saman.

Ábyrgðarlaus umræða að færa raforku frá einni atvinnugrein til annarrar

Sigríður segir að meira og minna öll atvinnustarfsemi byggir á orkunýtingu. Það sé kannski helst í hugverkaiðnaði sem minni orku sé þörf. Hinar þrjár undirstöður verðmætasköpunar á Íslandi byggi á orkunýtingu, stóriðja, sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Orkuskipti snúist um að skipta út olíu fyrir græna orku. Langstærsti þáttur orkuskiptanna sé á hafi og í lofti, þ.e.a.s. að knýja skip, stærri tæki og flugvélar með grænu eldsneyti í stað olíu. Það sé því ekki hægt að tala þannig að aðeins ein atvinnugrein, stóriðja, sé orkufrek eða orkusækin. Hún segir það vera sameiginlega hagsmuni allra landsmanna að hér á landi dafni áfram öflugar og fjölbreyttar útflutningsgreinar. Umræða og tal um að færa raforku frá einni atvinnugrein til annarrar í þágu loftslagsmarkmiða sé þannig ábyrgðarlaust með öllu. Leiðin til að viðhalda öflugum lífskjörum á Íslandi til framtíðar, á sama tíma og vægi grænnar orku sem komi í stað olíu, sé aukið, sé að framleiða meiri græna raforku og styrkja flutnings- og dreifikerfi raforkunnar. Þetta leiði einnig til aukins orkusjálfstæðis og orkuöryggis hér á landi. Sigríður segir að aðrir kostir í stöðunni þýði annaðhvort afturför í lífskjörum eða að olíuinnflutningur muni halda áfram að aukast á næstu árum og áratugum. Hvorugt sé gæfulegt fyrir framtíðarhagsmuni Íslands.

Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni.

Vísir, 4. janúar 2024.