Fréttasafn



12. mar. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Raforkuverð skapar ekki lengur samkeppnisforskot

Í frétt Helga Vífils Júlíussonar í ViðskiptaMogganum er vitnað til nýútkominnar skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina, þar sem kemur fram að raforkuverð skapi ekki lengur samkeppnisforskot fyrir íslensk fyrirtæki hér á landi. Lengi vel sótti erlend stóriðja í rafmagn á hagstæðu verði sem var í boði hér á landi en raforkuverð Landsvirkjunar hefur ekki fylgt alþjóðlegri þróun að mati Samtaka iðnaðarins.

Í fréttinni segir að heildsöluverð á raforku í Norður-Evrópu hafi farið lækkandi á síðustu árum en á sama tíma hafi orkufrekar atvinnugreinar í flestum löndum á þessu svæði verið undanþegnar sköttum á raforku. Skýrsluhöfundar segja að verð raforku Landsvirkjunar hafi ekki fylgt þeirri þróun en fyrirtækið sé ráðandi á raforkumarkaði hér á landi með yfir 70% hlutdeild markaðarins. Það hafi leitt til þess að samkeppnisforskot Íslands á sviði raforkuverðs hafi tapast. Auk þessa hafi gagnsæi raforkumarkaðarins verið að aukast í flestum löndum Norður-Evrópu. Í skýrslunni segir að hér á landi hafi þróunin hins vegar ekki verið í þá átt. Í strjálbýlu landi vegi kostnaður við raforkuflutning þungt í heildarorkukostnaði. Haga þurfi viðhaldi og uppbyggingu kerfisins á sem hagkvæmastan hátt því kostnaður við frekari uppbyggingu skili sér beint í raforkureikning notenda og veiki samkeppnisstöðu Íslands. Uppbygging verðlagningar í flutningi og dreifingu raforku hér á landi gerir það síðan enn erfiðara fyrir meðalstór fyrirtæki sem nýta raforku að vera samkeppnishæf, segir í skýrslunni.

Þá segir í fréttinni að Samtök iðnaðarins segi ennfremur í umsögn til atvinnuveganefndar að hagsmunatengsl eigenda og stjórnarmanna Landsnets við helstu viðskiptavini fyrirtækisins hafi áhrif á aðra viðskiptavini og standi í vegi fyrir virkri og heilbrigðri samkeppni. Fjöldi aðila hafi bent á þann vanda sem skapist við það að eigendur Landsnets séu jafnframt meðal þeirra stærstu viðskiptavina. Landsvirkjun á 65% hlut í Landsneti, Rarik á 23%, Orkuveita Reykjavíkur á 7% og Orkubú Vestfjarða 6%. 

Morgunblaðið, 8. mars 2018.