Fréttasafn  • Rannis-nýtt

3. jún. 2016 Menntun

Rannís auglýsir eftir umsóknum um styrki úr vinnustaðanámssjóði

 

Vinnustaðanámssjóður er starfræktur samkvæmt lögum nr. 71/2012 um vinnustaðanámssjóð.

Vegna breytinga á verklagi sjóðsins hefur verið ákveðið að sameina umsóknarfresti ársins 2016 og hafa aðeins einn frest í stað tveggja. Umsóknarfrestur er því til þriðjudagsins 15. nóvember 2016, kl. 17:00.

Með breyttum verklagsreglum sjóðsins hefur verið leitast við að einfalda umsóknar- og styrkferlið fyrir fyrirtæki og stofnanir. Helstu breytingarnar eru:

  • Hver umsókn getur tekið til heils árs, en mest er hægt að sækja um styrk fyrir 48 vikur á hvern einstakling í vinnustaðanámi yfir árið, eða mest 24 vikur á hvorum árshelmingi. Starfsnámið sem um ræðir verður að rúmast innan almanaksársins. Veitt verða vilyrði fyrir styrk með fyrirvara um að skilyrði séu uppfyllt. Forsenda styrkveitingar er að fyrir liggi staðfestur náms- eða starfsþjálfunarsamningur.
  • Styrkir verða greiddir út í heilu lagi eftir að vinnustaðanámi er lokið. Með lokaskýrslu skal fyrirtæki eða stofnun senda umsýsluaðila afrit af staðfestum náms- eða starfsþjálfunarsamningi og launaseðlum þar sem það á við og er þá greiðsla innt af hendi.
  • Umsóknarfrestir verða alla jafna tvisvar sinnum á ári, í maí og nóvember, en eins og áður segir verður aðeins einn umsóknarfrestur í ár – ekki síst vegna þeirra miklu tafa sem orðið hafa á því að geta opnað fyrir umsóknir.

Markmið styrkja til vinnustaðanáms eða starfsþjálfunar er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Eins og áður skal umsóknum skilað á rafrænu formi í gegnum vefsíðu Rannís.

Nánari upplýsingar veitir:
Jón Svanur Jóhannsson í síma 515 5820 eða á
vinnustadanamssjodur@rannis.is