Fréttasafn12. okt. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Rauð ljós loga á íbúðamarkaði

Ekki er raunhæft að byggja 5.000 íbúðir á ári næstu árin segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Magdalenu Önnu Torfadóttur, blaðamann, í Morgunblaðinu. Hann segir að það logi rauð ljós á húsnæðismarkaði í ljósi þess að of fáar íbúðir hafa verið byggðar. Það séu skýr merki um samdrátt í íbúðauppbyggingunni. „Staðan mun væntanlega versna enn frekar og á sama tíma fjölgar landsmönnum mjög hratt eða um það bil um 1.000 á mánuði,“ segir Sigurður og bætir við að ríkið hafi að mörgu leyti tekið rétt skref í þessum málum en sveitarfélögin þurfi að gera meira. „Sveitarfélögin þurfa að útvega lóðir í miklu meira magni og haga áherslum í skipulagsmálum þannig að þær styðji við þá uppbyggingu sem þarf til að landsmenn eigi kost á húsnæði við hæfi.“ 

70% samdráttur í byggingu nýrra íbúða milli ára

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að um þessar mundir séu byggðar um 3.000 íbúðir á ári og spáð sé að það verði jafnvel enn minna byggt á næstu árum. Að mati SI birtist mörg hættumerki í niðurstöðum nýrrar talningar HMS þar sem kemur meðal annars fram að frá því í mars á þessu ári og fram í september hafi aðeins verið hafin bygging á 768 nýjum íbúðum á landinu öllu. Þetta sé ríflega 70% samdráttur samanborið við sama tímabil í fyrra þegar byrjað var að byggja 2.575 íbúðir. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að þessi niðurstaða í talningu HMS sé í samræmi við niðurstöðu könnunar SI í vor þar sem fram komi að verktakar sæju fram á 65% samdrátt í fjölda íbúða sem byrjað yrði að byggja á næstu 12 mánuðum miðað við 12 mánuðina á undan. Skýringin á þessari miklu fækkun íbúða á fyrstu byggingarstigum sé mikil hækkun á byggingarkostnaði vegna mikillar hækkunar á vöxtum undanfarið og hækkun á virðisaukaskatti á vinnu iðnaðarmanna við uppbyggingu íbúða sem stjórnvöld ákváðu að setja á með engum fyrirvara rétt fyrir mitt þetta ár. Þessu til viðbótar hafi hrávöruverð og laun hækkað umtalsvert undanfarið. 

Uppbygging sé fjölbreytt til að mæta ólíkum þörfum

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að mikil fólksfjölgun hafi orðið síðustu misseri og búist sé við að landsmönnum haldi áfram að fjölga. Þegar Sigurður er spurður hvort íbúðaþörf þessa fólks hafi verið greind, það er að segja hvort eftirspurnin sé eftir litlum eða stórum íbúðum, segir hann að sú greining liggi ekki fyrir. „Okkar áhersla er að uppbyggingin sé fjölbreytt til að mæta ólíkum þörfum. Við sjáum að íbúðir sem byggðar hafa verið á þéttingarreitum eru býsna hátt verðlagðar. Við höfum líka bent á að ríki og sveitarfélög hafi lagt of mikla áherslu á byggingu á félagslegu húsnæði og það hefur gert það að verkum að önnur uppbygging hefur setið á hakanum.“ 

Eftirspurn á íbúðamarkaði haldið niðri með handafli

Í fréttinni segir að íbúðum í byggingu sé að fækka en 8.683 íbúðir séu í byggingu nú samkvæmt talningu samanborið við 8.971 í fyrri talningu. Samdrátturinn sé 288 íbúðir eða 3,2%. Þegar Sigurður er spurður um horfur á íbúðamarkaði í ljósi þess að eftirspurn hafi dregist saman vegna vaxtahækkana Seðlabankans og hertra lánaskilyrða og mikill framboðsskortur blasir við segir hann að staðan sé sú að eftirspurninni sé haldið niðri með handafli. „Það gerir það að verkum að raunveruleg eftirspurn er meiri og það þýðir að ef annaðhvort vextir lækka eða slakað verður á skilyrðum um greiðslumat þá mun eftirspurnin taka aftur við sér. Á sama tíma er framboðið lítið og margt bendir til að það muni hægja á uppbyggingunni frekar en hitt. Eftir tvö ár verður staðan þannig að eftirspurnin verður mikil og framboðið minnkar á sama tíma.“ 

Öll spjót standa á sveitarfélögum sem fara með lóða- og skipulagsvald

Í niðurlagi fréttar Morgunblaðsins kemur fram að í umsögn SI um fjárlagafrumvarpið 2024 komi fram að samtökin hvetji stjórnvöld til að greiða götu íbúðauppbyggingar. Ríkisstjórnin hafi á undanförnum árum gert margt af því sem í hennar valdi standi til að einfalda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis að mati SI en öll spjót standi nú á sveitarfélögum sem fari með lóða- og skipulagsvald. Þá segir að SI telji að Alþingi hljóti að skerast í leikinn ef sveitarfélögin auki ekki lóðaframboð og hagi áherslum í skipulagsmálum í þágu uppbyggingar í takti við þarfir landsmanna. „Við bendum sérstaklega á það í umsögn okkar við fjárlagafrumvarpið að sveitarfélög þurfi að stíga upp og ef þau gera það ekki hlýtur ríkisvaldið að velta fyrir sér hvernig það skerst í leikinn,“ segir Sigurður.

Morgunblaðið, 12. október 2023.

Morgunbladid-12-10-2023