Fréttasafn23. maí 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Rétt að framlengja Allir vinna vegna núverandi aðstæðna

Átakið hefur sannað gildi sitt í gegnum tíðina og reynslan heilt yfir góð. Við þekkjum þetta, meirihluti landsmanna kannast við þetta og hefur á einhverjum tíma nýtt sér þetta úrræði. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um átakið Allir vinna sem er átaksverkefni sem snýr að endurgreiðslu á virðisaukaskatti á byggingarvinnu og á að renna út í lok ágúst. Hann segir rétt að framlengja átakið enn frekar: „Við höfum haldið þessu á lofti að það væri rétt við núverandi aðstæður að framlengja þessu lengur. Við sjáum eins og hækkanir á verði aðfanga sem birtast okkur í verðbólgu og birtast okkur líka í byggingariðnaði eins og annars staðar. Það hefur líka áhrif á framkvæmdir og á neytendur sem á endanum borga meira. Þannig að það eru ýmis rök sem hníga að því að framlengja þessu úrræði.“

Átakið Allir vinna á sér langa sögu

Sigurður segir að átakið eigi sér langa sögu. „Það má rekja þá sögu marga áratugi aftur í tímann. Það er þannig að á 9. áratugnum var kerfi söluskatts sem var skipt yfir í kerfi virðisaukaskatts. Þegar sú breyting var gerð var ekki söluskattur lagður á vinnu iðnaðarmanna, þess vegna var ákveðið að fara þá leið að leggja virðisaukaskatt á vinnu iðnaðarmanna en endurgreiða hann svo aftur. Síðan með  tímanum þrengist að hjá okkur og '92 er ákveðið að færa endurgreiðsluhlutfallið niður í 60%, hafa það ekki 100%. Þannig var það þar til 2009 þegar Samfylkingin og Vinstri græn voru í ríkisstjórn eftir hrun og þurftu auðvitað að bregðast við þeim aðstæðum. Þá var ákveðið að fara af stað með Allir vinna og færa þetta hlutfall aftur upp í 100% þannig að skatturinn yrði endurgreiddur.“

Dregur úr og kemur í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi

Sigurður segir að það sem skiptir máli líka sé að átakið færi þessa starfsemi upp á yfirborðið. „Við viljum ekki svarta atvinnustarfsemi. Þetta dregur úr henni og kemur í veg fyrir hana af því leiti, þannig að það er mjög jákvætt líka og var auðvitað líka hugsunin á sínum tíma þegar þetta var sett á.“

Eina vitið að framlengja vegna plana fram í tímann

Þá segir Sigurður í viðtalinu að núna hafi þetta verið ein af aðgerðunum í tengslum við Covid-faraldurinn og það efnahagsáfall sem sannarlega hafi dunið á okkur. „Þá er hlutfallið aftur fært upp í 100% til að koma hjólunum aftur af stað og líka til þess að hvetja fólk til þess að ráðast í endurbætur. Þetta var tímabundið úrræði og átti að falla úr gildi núna um áramótin en stjórnvöld ákváðu að framlengja því um 8 mánuði og gildir því út ágúst. Það var eina vitið í stöðunni á þeim tíma að framlengja því vegna þess að það tekur tíma að plana framkvæmdir, líkt og húsfélög og aðrir sem skipuleggja sig fram í tímann. Framkvæmdir sérstaklega utanhúss fara fram á sumrin þannig að það hefði verið skellur fyrir marga víða um land ef þessu hefði ekki verið framlengt því það var búið að gera plön.“ Þegar Sigurður er spurður hvort svört atvinnustarfsemi muni aukast þegar átakið rennur sitt skeið á enda í lok ágúst eins og áformað er? „Já það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að tilhneygingin er í þá veru sem við sem samfélag getum ekki sætt okkur við.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Vísir, 19. maí 2022.