Fréttasafn



8. nóv. 2018 Almennar fréttir

Rétti tíminn fyrir atvinnustefnu

Í viðtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Markaðnum í tilefni útgáfu nýrrar skýrslu samtakanna um atvinnustefnu kemur fram að nú sé rétti tíminn fyrir ríkið til að marka sér atvinnustefnu til langs tíma. Endurreisn efnahagslífsins sé að baki og mikilvægt að líta fram á veginn til að efla samkeppnishæfni landsins sem bætir hag allra landsmanna. Önnur lönd vinni með þeim hætti um þessar mundir og stuðli að uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar. 

Sigurður segir að í skýrslunni sé skoðað hvernig hagkerfið gæti litið út árið 2050 en öldrun þjóðarinnar muni leiða til þess að færri verða á vinnumarkaði fyrir hvern eldri borgara þegar fram í sækir. „Í dag eru um fimm manns á vinnumarkaði fyrir hvern eldri borgara en þeir verða ekki nema þrír árið 2050 ef spáin rætist. Annars vegar munu færri hendur geta aðstoðað þá sem eldri eru og hins vegar verða færri hendur til að knýja áfram hagvöxt. Loftslagsmál eru annað dæmi um samfélagslega áskorun þar sem hugsa þarf málin upp á nýtt. Með nýsköpun og breyttri nálgun mun iðnaðurinn finna lausnir á þessum áskorunum. Þess vegna þarf að ýta undir nýsköpun og nýja hugsun til að leysa samfélagsleg viðfangsefni og skapa jafnframt hagvöxt. Það hefur okkur Íslendingum tekist vel á sviði orkunýtingar og með aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi og við höfum öll tækifæri til að endurtaka leikinn þegar kemur að öðrum viðfangsefnum.“ 

Rauður þráður í annarri stefnumótun

Í viðtalinu segir Sigurður að skynsamleg atvinnustefna verði rauður þráður í annarri stefnumótun hins opinbera. „Það myndi leiða sem dæmi til þess að menntastefnan styðji við nýsköpun í atvinnulífinu og að sýn stjórnvalda á loftlagsmál myndi skapa betri samfellu í öðrum málum. Stefnt er á að rafmagn muni í auknum mæli knýja bíla en til þess að það nái fram að ganga þarf að virkja í meiri mæli og styrkja flutningsnet fyrir raforku. Þannig væri unnið að samræmi í ólíkum málaflokkum svo að fjármunir nýtist á sem skilvirkastan hátt og dregið verði úr sóun. Eins og sakir standa er stefnumótun ríkisins ekki nægjanlega samhæfð,“ segir hann.

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.