Fréttasafn



10. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Rétti tíminn fyrir hið opinbera að fara í framkvæmdir

Byggingariðnaðurinn hefur verið að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Þegar samdráttur og minni fjárfesting á sér stað í ferðaþjónustu smitar það auðvitað yfir í byggingariðnaðinn. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins í dag þar sem fjallað er um nýtt rit Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika þar sem segir meðal annars að rekstrarumhverfi fyrirtækja sé almennt óhagstæðara nú en það hefur verið í langan tíma sem rekja megi til neikvæðrar efnahagsþróunar innanlands sem erlendis ásamt auknum óróa á alþjóðamörkuðum sem hafi aukið óvissu fyrir íslensk fyrirtæki. Í riti Seðlabankans eru tveir geirar sérstaklega tilteknir, annars vegar byggingargeirinn og hins vegar ferðaþjónustugeirinn og segir þar að fyrirtækjum á vanskilaskrá hafi fjölgað hlutfallslega mest á árinu. 

Byggingargeirinn sveiflast meira en hagkerfið almennt

Sigurður segir að almennt séð staðfesti vísbendingar á borð við minni sölu á steypustyrktarjárni og sementi þessa þróun. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að byggingargeirinn sveiflist meira en hagkerfið gerir almennt. „Þegar það er samdráttur í efnahagslífinu eins og nú um stundir er ennþá meiri samdráttur í byggingariðnaði.“ Sigurðar segir nú þegar samdráttarskeið sé hafið sé rétti tíminn fyrir hið opinbera að fara í framkvæmdir, opinber fjárfesting þurfi að vera kröftug og það sé bæði nauðsynlegt og skynsamlegt. 

Vandinn á íbúðamarkaði er framboðsvandi

Í fréttinni kemur fram að Sigurður bendi einnig á að stjórnvöld þurfi að fara í miklar umbætur á regluverki, að átakshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafi skilað af sér skýrslu um húsnæðismarkaðinn í byrjun árs og nauðsynlegt sé að fylgja þeim eftir en þær snúa m.a. að skilvirkara og hagkvæmara regluverki. „Vandinn á íbúðamarkaði er fyrst og fremst framboðsvandi. Það vantar fleiri íbúðir. Stjórnvöld hafa meira fjallað um tillögur sem snúa að eftirspurnarhliðinni. Aðgerðir fyrir fyrstu kaupendur o.s.frv. En framboðshliðin er mikilvægari. Ef það eru ekki nægilega margar íbúðir byggðar þá hækkar verð og erfiðara verður að eignast þak yfir höfuðið. Mér fannst þetta ekki koma nægilega vel fram í skýrslu Seðlabankans.“ 

Morgunblaðið, 10. október 2019.

 

Morgunbladid-10-10-2019