Fréttasafn



29. okt. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Réttur til að skrá sambærilegt lén og skráð vörumerki

SA og SI gera nokkrar athugasemdir um frumvarp til laga um íslensk landshöfuðlén .is, 9. mál, í umsögn samtakanna sem send hefur verið til umhverfis- og samgöngunefndar. Þar segir meðal annars að það sé mat samtakanna að lögin þurfi að innihalda ákvæði þar sem tekin verða af öll tvímæli um rétt þeirra sem eiga skráð vörumerki til sambærilegra léna og að öðrum aðilum sé óheimilt að skrá slík lén. Samtökin telja að löggjöfin þurfi að vera skýr um þetta atriði en annað verður ekki ráðið af 12. gr. frumvarpsdraganna en að þar sé eingöngu verið að skerpa á því atriði að skráning léns feli ekki í sér eignarétt á léninu heldur einkaafnotarétt. Þó megi fallast á að 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins komi að vissu leyti til móts við athugasemdina en að mati samtakanna þurfi að vera skýrt af lagatextanum að öðrum aðila en rétthafa vörumerkis sé óheimilt að skrá sambærilegt lén. 

Ein stofnun en ekki margar

Þá gera samtökin athugasemdir við að í frumvarpið vanti hvert rétthafar og skráningarstofur geta leitað með ágreining sín á milli. Það sé mat samtakanna að betur fari á því að rétthafar og skráningarstofur þurfi eingöngu að eiga samskipti við eitt stjórnvald. Í umsögninni segir að best fari á því ef fyrirtæki og borgarar þurfi að eiga við eina stofnun en fyrir liggi að of flókið regluverk og boðleiðir geti beinlínis dregið úr hagvexti. 

Forkaupsréttur ríkissjóðs felur í sér víðtækt inngrip í meginreglu um samningsfrelsi

Samtökin gera jafnframt athugasemdir við ákvæði þar sem lagt er til að ríkissjóður fái forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að félagið verði selt úr landi. Í umsögninni segir að þrátt fyrir það sé tekið fram að ákvæðið komi ekki í veg fyrir að ríkissjóður nýti rétt sinn ef fyrirtækið skipti um eigendur hér innanlands. Þessi skýring gangi beinlínis í berhögg við tilgang ákvæðisins og feli í sér mjög víðtækt inngrip í meginregluna um samningsfrelsi. Ekki hafi verið sýnt fram á þau öryggissjónarmið og þá almannahagsmuni sem hér búi að baki og réttlæti svo víðtækt inngrip, né hvernig sala fyrirtækisins hér innanlands ógni þeim sjónarmiðum. Því verði að telja ákvæðið ganga töluvert lengra en markmið löggjafans hafi verið, að koma í veg fyrir að félagið verði selt úr landi.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.