Reykjavíkurborg vinnur gegn prentiðnaðinum
Hvers vegna er Reykjavíkurborg að berjast gegn dreifingu á upplýsingum á pappír til almennings, upplýsingum sem oft eru gagnlegar og jafnvel mikilvægar? Þetta vinnur gegn prentiðnaðinum og því starfsfólki sem þar vinnur. Er ekki verið að draga úr möguleikum fyrirtækja og einstaklinga til að auglýsa sína þjónustu þegar Reykjavíkurborg hvetur einstaklinga til þess að loka fyrir mikilvæga dreifileið upplýsinga? Þegar fjallað er um sjálfbærni pappírs og prentiðnaðar er mikilvægt að horfa til margvíslegra sleggjudóma sem eru viðhafðir í garð pappírs. Pappírsiðnaðurinn er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum aðföngum, endurnýjanlegri orku og háu hlutfalli endurvinnslu. Þetta segir Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins, í grein sinni í Morgunblaðinu með yfirskriftinni Reykjavíkurborg afþakkar fjölpóst með fjölpósti.
Tilefni greinar Þorkels er að nýlega barst í póstkassann fjölpóstur með límmiða sem á stóð „afþakkaðu fjölpóst og stuðlaðu að minni pappírsnotkun“ sem Reykjavíkurborg dreifir heim til íbúa. Þá segir Þorkell að í vor hafi verið gefið út 16 síðna upplýsingarit af Samtökum iðnaðarins, IÐUNNI fræðslusetri, prentsmiðjum í Samtökum iðnaðarins, stéttarfélaginu Grafíu og pappírsinnflytjendum. Ritið ber nafnið „Sleggjudómar og staðreyndir um pappír og prent“.
Í ritinu er farið yfir eftirfarandi sleggjudóma og staðreyndir um prentiðnað og pappír sem Þorkell bendir á:
- Sleggjudómur. Pappírsnotkun felur í sér mikla sóun.
- Staðreynd. Pappír er ein mest endurunna vara heims.
- Sleggjudómur. Pappír er slæmur fyrir umhverfið.
- Staðreynd. Pappír er ein fárra raunverulega sjálfbærra vara.
- Sleggjudómur. Pappírsframleiðsla er orsök losunar gróðurhúsalofttegunda um allan heim.
- Staðreynd. Orkan sem er notuð til framleiðslunnar hér á landi er að mestu endurnýjanleg.
- Sleggjudómur. Rafræn samskipti eru betri fyrir umhverfið en pappírsbundin samskipti.
- Staðreynd. Rafræn samskipti hafa einnig veruleg áhrif á umhverfið.
- Sleggjudómur. Stafræn tækni er ákjósanlegur samskiptamáti.
- Staðreynd. Margir neytenda meta mikils samskipti á pappír.
Enginn iðnaður á Íslandi eins umhverfisvottaður og prentiðnaðurinn
Í grein Þorkels segir að prentiðnaðurinn hafi átt undir högg að sækja og sé stór hluti bókaprentunar farinn úr landi. Flestar prentsmiðjur séu með Svansvottun á Íslandi og allar prentsmiðjur í Samtökum iðnaðarins eru umhverfisvottaðar. Enginn iðnaður á Íslandi sé eins umhverfisvottaður og prentiðnaðurinn.
Aðeins efsti hlutinn af trénu, um 13%, sé nýttur í pappírsiðnaðinn og annað sé nýtt í vistvæn hús, húsgögn og orkunotkun. Á einu ári taki eitt tré að jafnaði til sín 22 kg af koltvíoxíði og gefi frá sér súrefni. Þegar eitt tré sé fellt vegna pappírsiðnaðar séu gróðursett að lágmarki þrjú á móti.
Þá kemur fram að nytjaskógar vaxi hraðar og þannig náist að hleypa meira súrefni í andrúmsloftið ásamt því að draga úr koltvíoxíði. Líkt og tré þá taki pappír koltvíoxíð úr andrúmsloftinu og gefi frá sér súrefni. Ef við drögum úr pappírsnotkun verði síður forsenda hjá skógarbændum að gróðursetja og þá aukist koltvíoxíð í andrúmsloftinu og súrefni minnkar.
Markpóstur öflugur auglýsingamiðill
Í grein sinni segir Þorkell að markpóstur sé öflugur auglýsingamiðill og með því að vinna gegn fjölpósti sé verið hindra að almenningur geti fengið áhugaverðar og jafnvel mikilvægar upplýsingar frá ýmsum félögum og félagasamtökum. Þá segir hann að Reykjavíkurborg mætti alveg nýta sér betur það tækifæri sem felist í dreifingu upplýsinga á pappír til íbúa einstakra hverfa. Það væri liður í auknu íbúalýðræði og betri upplýsingamiðlun til almennings, t.d. varðandi breytingar á deiliskipulagi eða öðrum skipulagsmálum.
Í niðurlagi greinarinnar segir Þorkell að það sé til umhugsunar fyrir lesendur áður en fjölpóstur sé afþakkaður að þeir gætu misst af gagnlegum upplýsingum. „Með því að nota pappír stuðlum við að ræktun nytjaskóga og leggjum þannig okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í skógum eru veruleg tækifæri í bindingu kolefnis með aukinni ræktun og bættri umhirðu. Allt þetta skiptir máli fyrir velferð okkar í framtíðinni.“
Morgunblaðið, 15. ágúst 2020.
Hér er hægt að nálgast ritið um pappír og prent sem Þorkell nefnir í grein sinni.