Fréttasafn



11. sep. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Menntun Nýsköpun

Ríkið fjárfesti enn frekar í hagvexti framtíðar

Fjárlagafrumvarpið hefur nú verið kynnt og kennir þar ýmissa grasa. Margt er þar jákvætt en annað sem betur mætti fara eins og gengur. Eftir langt hagvaxtarskeið hefur hagkerfið kólnað og þá reynir á hagstjórn. Í þeirri stöðu er ánægjulegt að sjá ríkið fjárfesta í hagvexti framtíðar á næsta ári með áherslu á menntun, nýsköpun og samgönguinnviði. Ríkisfjármálin verða í jafnvægi þó líklega hefði verið rétt að reka ríkissjóð með halla og fjárfesta enn frekar í hagvexti framtíðar. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Markaðnum í dag undir yfirskriftinni Fjárfest í hagvexti framtíðar.

Í greininni kemur fram að verðmætasköpun hagkerfisins sé drifin áfram af sjálfbærri nýtingu auðlinda, mikilli nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum sem uppfylli þarfir samfélagsins og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. Það hljóti að vera markmið allra að efnahagsleg velmegun íbúa hér á landi sé mikil, að Ísland sé eftirsótt land til búsetu og atvinnurekstrar og að landið sé vel tengt við umheiminn í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Til þess þurfi öflugt atvinnulíf og fjárfestingu ríkis í menntun, nýsköpun og innviðum.

Sókn í menntun, nýsköpun og samgönguinnviðum

Þá segir Sigurður í greininni að í fjárlagafrumvarpinu sjái þess stað að sókn sé í menntamálum með auknu fjárframlagi til framhaldsskólastigsins með áherslu á starfsnám og háskólarnir fái einnig aukið fjármagn sem vonandi verði forgangsraðað til kennslu og rannsókna í raunvísindum, tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði. Einnig sé fagnaðarefni að í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár séu framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukin um 11% á milli ára sem sé hlutfallslega mesta raunaukningin í útgjöldum allra málefnasviða á milli ára. Auk þess sé ánægjulegt að sjá  að fjárframlag til samgönguinnviða verði aukið úr 100 milljörðum í 120 milljarða á árabilinu 2020-2024 þó að framlög ríkisins til málaflokksins á þessu tímabili mæti einungis 43% af þörf. Í greininni segir að traustir og öflugir samgönguinnviðir leggi grunn að verðmætasköpun í samfélaginu og að lykilútflutningsgreinar eins og iðnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta reiði sig á innviði landsins til að afla þjóðarbúinu tekna. 

Í niðurlagi greinarinnar segir að með auknum fjárframlögum til þessara þriggja mikilvægu málaflokka, innviða, menntunar og nýsköpunar, séu byggðar sterkari stoðir fyrir verðmætasköpun og fjárfest í hagvexti framtíðarinnar. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.