Fréttasafn



20. okt. 2017 Almennar fréttir Menntun

Risaverkefni næstu ríkisstjórnar að breyta menntakerfinu

Mikill samhljómur var meðal allra fulltrúa stjórnmálaflokkanna þegar talið barst að menntamálum á fundi Samtaka iðnaðarins í Kaldalóni í Hörpu síðastliðinn þriðjudag. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, stýrði umræðunum og sagði að miðað við stefnuskrá flokkanna virtust allir vera sammála að efla þurfi menntun í landinu þó flokkana greindi á um leiðirnar að því marki. 

„Staðan er sú að menntakerfið mætir ekki þörfum atvinnulífsins um hæfni á vinnumarkaði. Það er mikil eftirspurn eftir starfsfólki með iðn- og verkmenntun og tækni- og raungreinamenntun. Að loknu námi í grunnskóla í Noregi þá fer helmingur nemenda í verk- og iðnnám en hér á landi er það ekki nema 12%. Þetta hefur verið viðvarandi þrátt fyrir góðan vilja um áratugaskeið að bæta úr,“ sagði Sigurður í inngangi áður en hann beindi spurningum sínum að frambjóðendunum hvernig ætti að breyta til þess að fjölga iðn-, tækni- og raungreinamenntuðum á  vinnumarkaði.

DSC_7254

Setja þarf töluleg markmið

Lilja Alfreðsdóttir, Framsóknarflokkur, sagðist telja að setja ætti töluleg markmið um þetta. „Við eigum að læra af því sem Norðmenn hafa verið að gera. Þegar menntakerfið okkar er ekki að mæta þörfum atvinnulífsins þá er auðvitað eitthvað að. Það þarf að verða raunveruleg fjölgun og ég tel að við getum gert það í góðu samstarfi við atvinnulífið. Ef aðrir geta gert þetta þá getum við líka gert þetta. Ég hef stórkostlegar áhyggjur af grunnskólunum okkar. Við erum að dragast aftur úr í alþjóðlegum könnunum eins og Pisa. Við erum komin neðst af Norðurlöndunum og komin undir OECD meðaltal er varðar stærðfræðilæsi. Það er ekki fræðilegur möguleiki að við verðum í hugverkadrifnu hagkerfi ef við tökum ekki á þessu. Þarna vil ég líka setja okkur töluleg markmið. Eftir 3 ár verðum við komin yfir OECD meðaltalið varðandi stærðfræðilæsi og komin yfir Norðurlöndin. Við getum gert þetta, önnur ríki gera þetta. Við eigum að spyrna við fótum og það er löngu tímabært.“ Lilja sagði einnig að við værum á rauðu ljósi varðandi grunnskólana. „Við verðum að setja upp aðgerðaráætlun hvernig við ætlum að fara í þetta. Við erum líka á rauðu ljósi er varðar hverjir fara í verknám og iðnnám og við verðum að gera eitthvað í því og menn verða að taka höndum saman. Þetta blasir við og er búið að gera í langan tíma. Við mundum setja raunhæfa aðgerðaráætlun og ég er líka tilbúin að beina fjármunum í þá átt.“

Skýr markaðssetning á náminu

Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, sagði þetta vera gríðarlega mikilvægan þátt. „Ég held af fenginni reynslu að eina sem dugir er skýr markaðssetning gagnvart börnunum, foreldrunum og námsráðgjöfum í skólakerfinu um kosti iðnmenntunar. Það er þar sem ákvörðunin er tekin. Við getum sett töluleg markmið ef við viljum en ef við sannfærum ekki börnin um að velja iðnnámið þá náum við aldrei neinum árangri. Við náum árangri þegar við náum til barnanna beint og foreldranna. Við vitum að foreldrarnir tala börnin ofan að því að velja iðnnám út af gömlum fordómum. Það er ekki næg þekking á þeim frábæru tækifærum sem eru fyrir krakka að fara í iðnnám í dag.“

Forritun að skyldufagi er vanmetin hugmynd

Helgi Hrafn Gunnarsson, Píratar, sagðist vera sammála hverju orði sem hefur verið sagt um þetta. „Mig langar að nefna sérstaklega af því ég sá í kynningunni hjá ykkur að gera ætti forritun að skyldufagi. Ég held að þetta sé vanmetin hugmynd. Ég er forritari sjálfur og forritun hefur hjálpað mér við þingstörf. Það er voðalega lítið í lífinu sem forritun getur ekki hjálpað manni við. Alveg sama í hvaða iðnaði maður er. Mér finnst mikilvægast að börn sérstaklega, líka unglingar og fullorðið fólk, upplifi það að á Íslandi séu spennandi tækifæri.“

Fá fleiri konur inn í tæknigreinarnar

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Samfylking, sagði það vera krítískt atriði að auka samstarf skóla og fyrirtækja í atvinnulífinu. Hún sagði frá verkefni í HR sem heitir stelpur og tækni til að fá fleiri stelpur inn í tæknigreinar. „Það hefur svínvirkað. Við gerum það mikið í HR að vinna með fyrirtækjum, nemendur fara inn í fyrirtækin, fara í starfsnám en fyrirtækin koma líka inn til okkar og koma með verkefni sem nemendur eru að vinna. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli til að krakkar sjái í grunnskólum og framhaldsskólum að þetta sé eitthvað fyrir þau. Það að fá fleiri konur inn í tæknigreinarnar skiptir miklu máli. Þetta snýst um markaðssetningu. Að gera þetta spennandi. Fyrirmyndirnar þurfa líka að vera sýnilegar. Þessi tækifæri sem fjórða iðnbyltingin færir okkur geta líka verið ógnanir. Þurfum einnig að leggja ofuráherslu á sí- og endurmenntun.“

Mikilvægi upplýsinga til ungs fólks

Ólafur Ísleifsson, Flokkur fólksins, sagði ekkert geta komið í staðinn fyrir upplýsingar til ungs fólks sem er að velja sér framtíðarbrautir um atvinnumöguleika og tekjumöguleika í iðngreinum og önnur tækifæri sem þeim bjóðast sem leggja slíkt fyrir sig. „Ég kem úr háskólaumnhverfinu og við höfum ratað í ógöngur í þeim efnum eins og ákall rekstora skólanna er ljóst vitni um. Fjárhagsvanda háskólastigsins er vandamál sem við getum ekki komist hjá að taka á.“ Ólafur sagði að í umræðum um háleit markmið sem fylgja nýsköpun og fjórðu iðnbyltinguna þyrfti að hafa í huga stöðu háskólanna. „Við göngum með aðra höndina bundna á bak aftur til þessa leiks ef að við bætum ekki úr hvað varðar háskólastigið.“

Setja á skapandi greinar skör ofar

Björt Ólafsdóttir, Björt framtíð, sagði sinn flokk hafa lagt fram þingmál um forritun í grunnskólum. „Við leggjum mesta áherslu á skapandi hugsun. Við þurfum að efla krakkana okkar í ályktunarhæfni frekar en páfagaukalærdómi, sama í hvaða stétt það er. Verkefni framtíðarinnar eru þannig. Þau þurfa sífellt að vera að fást við nýjan veruleika sem er miklu hraðari en það sem við höfum verið að upplifa og þau þurfa að geta tekist á við það og vera þjálfuð í því að vera gagnrýnin í sinni hugsun og hafa þessa ályktunarhæfni. Þá leggjum við áherslu á list og listnám sem hefur verið neðst. Listamannalaun hafa verið töluð niður hér. Ég segi, fólk eins og ég og við hérna sem vinnum við tölvur og lesum lög, við erum bara bolirnir. Það eru hinir sem hafa hugmyndir og eru að fara að fída inn í þessa tækniþróun. Við munum reiða okkur á þetta fólk. Við eigum að taka skapandi greinar og setja þær skör ofar og viðurkenna að þetta er mikilvægt efnahagslegt mál.“

Þarf innspýtingu inn í menntakerfið

Katrín Jakobsdóttir, VG, sagði háskólana hafa verið undirfjármagnaðir árum saman. „Það þarf bara raunverulega innspýtingu inn í menntakerfið. Það á ekki bara við um háskólana, það á líka við um framhaldsskólana.“ Hún sagði það vonbrigði að þrátt fyrir áform um að fjármunir ættu að halda sér inn í framhaldsskólunum þrátt fyrir styttingu náms hafi þeir verið skornir niður. „Mér finnst þetta sýna vanþekkingu og skilningsleysi á því um hvað menntakerfið er. Ég er sammála því sem hér er sagt að við þurfum að undirbúa okkur fyrir þessa fjórðu tæknibyltingu. Við erum ekki að bregðast við því, við erum ekki að setja neina stefnu, hvorki í menntamálum, rannsóknum né vinnumarkaðsmálum. Þetta er risaverkefni næstu ríkisstjórnar. Og við þurfum að átta okkur á því af því menntamálin fá aldrei að vera kosningamál að það þarf að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun ef við ætlum að vera reiðubúin að taka þátt í þessu.“

Auka veg raungreina í grunnskólum

Sigríður Andersen, Sjálfstæðisflokki, sagði að fundarmenn væru að ræða undirbúning undir fjórðu iðnbyltinguna. „Það er eiginlega orðið of seint. Við erum stödd í henni miðri í dag og lífi okkar er stjórnað af gervigreind.“ Hún sagði mikilvægt að krakkar séu ekki bara vera notendur og áhorfendur heldur verði að virkja þau með því að taka þátt í þessari gervigreindarþróun. „Ég held að þetta mundi að einhverju leyti gerast af sjálfu sér með breyttum grunnskóla þar sem meiri áhersla er lögð á raungreinar. Ég hef miklar áhyggjur af raungreinum okkar Íslendinga. Ég heyri það á háskólunum að nemendur eru að koma mjög illa undirbúnir inn í verk- og raunvísindadeildirnar. Ég er ekki bjartsýn eftir styttingu allra menntaskólanna. Það þarf líka að endurskoða lög grunnskólanna. Námskráin að mínu mati er alltof niðurnjörfuð. Við verðum að auka veg raungreina í grunnskólum. Þá held ég að það muni að einhverju leyti koma af sjálfu sér að menn fari líka í verknámið.“ Sigríður bætti því við að varðandi viðhorfið þá finndist henni ekki nógu góður bragur á því að tala alltaf um það að það séu fordómar gagnvart verknámi. „Mér finnst að menn eigi að hætta að tala svona. Ég hef aldrei haft fordóma gagnvart því fólki sem kann eitthvað fyrir sér í höndunum. Við eigum að hætta að ræða svona og benda frekar á tækifærin sem liggja í þessari menntun.“

Bóknámsnemendur eru ódýrari en iðnnemar 

Bergþór Ólason, Miðflokkurinn, sagði það alls ekki vonlaust að ná fram breytingum í menntakerfinu. „Það er áhersluatriði flokksins að við viljum stýra fjármunum sérstaklega inn í það að styðja við iðn- og starfsmenntun og síðan verk- og tæknimenntun. Það vita það þeir sem hafa komið að skólastarfi að bóknámsnemendurnir eru ódýrari heldur en iðnnemarnir og það spilar áfram upp allt menntakerfið. Þessvegna er tilhneiging hjá skólastjórnendum að setja viðbótarfjármagn frekar í bóknámið heldur en hið dýra iðnnám. Þetta er atriði sem við verðum að taka á og beina peningunum eyrnarmerkt inn í þessar greinar.“

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku frá fundinum:

https://www.youtube.com/watch?v=CpBVsdNft2s#action=share