Fréttasafn



24. mar. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Röskun á matvælaframleiðslu verði ekki meiri en þarf

„Áhrifanna gætir auðvitað víða en það er verið að reyna að grípa til ráðstafana þar sem það er sérstaklega mikilvægt, til að halda samfélaginu gangandi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag. Í fréttinni segir að hertara samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins feli það í sér að nú megi ekki fleiri en 20 koma saman. Þetta hafi mikil áhrif á atvinnulíf í landinu, bæði á ýmsa þjónustustarfsemi en einnig stór framleiðslufyrirtæki. Sigurður segir í Morgunblaðinu að Samtök iðnaðarins hafi ásamt fulltrúum úr sjávarútvegi átt samtöl við ráðamenn til að tryggja að ekkert hökt verði á matvælaframleiðslu. „Þá erum við að tala um undanþágur frá banninu eða ráðstafanir þannig að hægt sé að halda framleiðslunni gangandi. Því hefur verið mjög vel tekið. Stjórnvöld eru auðvitað öll af vilja gerð. Þau vilja sjá til þess með okkur að röskunin verði ekki meiri en þarf.“ 

Hægir á framleiðslu páskaeggja hjá Nóa Siríuss

Í fréttinni er einnig rætt við Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs Nóa Siríuss, sem segir að hert samkomubann raski skipulagi framleiðslu fyrirtækisins. „Sérstaklega í páskaeggjunum. Fjöldi starfsmanna í þeim sal hefur verið yfir þessum mörkum og nú þurfum við að hægja verulega á þeirri framleiðslu.“ Páskaeggin eru komin í verslanir og segir Auðjón að lagt hafi verið upp með að vera með fyrra fallinu í ár vegna ástandsins. „Framleiðslan hefur verið á fullu því við vildum ná upp sem mestri birgðastöðu. Það hefur komið sér vel því bæði fyrirtæki og stofnanir hafa verið að kaupa páskaegg til að verðlauna fólk sem hefur verið að vinna undir óvenju miklu álagi. Svo finnum við líka fyrir aukinni netsölu.“ 

Ástandið kallar á meira skipulag hjá CCEP á Íslandi

Þá er rætt við Stefán Magnússon, markaðsstjóra CCEP á Íslandi, sem segir samkomubannið og aðrar afleiðingar kórónuveirunnar hafa sett talsvert strik í reikning fyrirtækisins. „Við erum með framleiðslu bæði á Akureyri og í Reykjavík og þar er nú unnið á tvískiptum vöktum. Eftir að hert var á banninu neyðumst við til að loka mötuneyti og hefta til að mynda samgang á milli þeirra sem vinna í vöruhúsi og þeirra sem eru í framleiðslu. Nú erum við með aðskildar kaffistofur, aðskilda innganga og aðskilin salerni. Þetta eru víðtækar aðgerðir til að tryggja framleiðsluna. Ástandið kallar á meira skipulag.“ Stefán segir jafnframt í Morgunblaðinu að lokanir skemmti- og veitingastaða þýði að ekki sé framleitt eins mikið af bjórkútum og gosi fyrir vélar. „Eins er talsvert síðan farið var í að forgangsraða hvað þarf að eiga og hvað má vanta. Það getur verið að komi að því að vörur sem minni eftirspurn er eftir verði ekki til.“

Morgunblaðið / mbl.is, 24. mars 2020.